Átta töff tæfur
Ekki alls fyrir löngu, og reyndar reglulega, þá birtist fyrirsögnin Flottustu silfurrefirnir þar sem taldir eru upp hæfileikaríkir karlmenn á miðjum aldri sem flíka gráum lokkum og hafa bætt við menningarflóruna með tilveru sinni. En í öllu þessu árlega fári þá gleymist stundum að við eigum súperflottar silfurtæfur hér á landi.
Biðlar ljóðskáldið og heimspekingurinn með meiru, Fríða Ísberg, til fjölmiðla að greiða úr þessu hið snatrasta í Facebook-færslu sinni á dögunum. Þar deilir hún áðurnefndri grein af Smartlandi og segir fyrir ofan: “Nennir einhver að taka saman flottustu silfurtæfur landsins?” og það er ekki seinna vænna en að gera einmitt það.
Nú er orðið tæfa alls ekki notað á niðrandi hátt í þessari grein, þó svo löngum hafi það verið gert hér áður. Reyndar væri alveg hægt að nota orðið tófa eða læða, en þau orð væru eiginlega of meinlaus fyrir þessar svölu konur sem á eftir koma. Auk þess væru þau alls ekki jafnlíkleg til að laða að sér lesendur. Það væri reyndar sérpistill að greina þá orðræðu sem viðhefst, að nota orð yfir kvenkynsdýr í niðrandi merkingu, á meðan orð yfir karlkynsdýr eru yfirleitt ekki jafn skeinuhætt, jafnvel svolítið sjarmerandi. En nóg um það. Samkvæmt íslenskum orðabókum er orðinu tæfu lýst svo:
BEYGINGAR:
tæfa – tæfu – tæfu – tæfu
tæfur – tæfur – tæfum – tæfa/tæfna
MERKINGAR:
1. kvenkyns hundur eða refur;
2. kvenkyns refur;
3. varasöm kona
Eins og sést, þá á orðið tæfa nokkuð vel við þennan pistil, þar sem tæfa er kvenkyns refur sbr. silfurrefur, en einnig hefur orðið merkinguna varasöm kona, en konurnar hér á eftir kalla ekki allt ömmu sína og myndu verja æru sína með kjafti og klóm ef til þess kæmi. Að sjálfsögðu eigum við ógrynnin öll af flottum konum á miðjum aldri, en þær eru örlítið færri sem kjósa náttúrulegan gráan og hvítan framyfir stofu- eða pakkalitinn. Nú er ekki frá talið að telja upp fáeinar hæfileikaríkar og súperflottar silfurtæfur sem flíka óhindrað gráum og hvítum makka sínum og gera það fjandi vel.