Ráðleggur Reykvíkingum að fækka bílum
Hann Guðmundur Ármannsson, kúabóndi á Vaði í Skriðdal, ætlaði aldrei á ævi sinni að koma til Reykjavíkur. Hann rauf þetta fyrirheit þó loks 72 ára gamall, síðastliðinn þriðjudag, er hann kom í fyrsta skipti á ævinni til höfuðborgarinnar.
Þetta kemur fram á vef RÚV þar sem birt er skemmtilegt viðtal við Guðmund. Þar skýrir Guðmundur frá því hvers vegna hann rauf heit sitt um að koma aldrei til Reykjavíkur:
„Þetta var auðvitað áfall að brjóta þetta prinsipp að fara aldrei til Reykjavíkur. Það kom nú ekki til af góðu. Það sló kýr hala í augað á mér rétt um hvítasunnuna og blæddi mikið inn á augað. Svo eyddist það en núna fyrir nokkrum dögum þá kom svona svartur baugur inn á augað og geimrusl inn á sjónina. Þarna voru tveir kostir og hvorugur góður. Annað hvort að missa sjónina eða fara.“
Segir Guðmundur ótrúlegt að einn beljuhali geti reynst svo afdrifaríkur.
Guðmundur gefur Reykvíkingum það ráð að fækka bílum í borginni um helming. Hann segist nánast ekkert fólk hafa séð í borginni heldur eintóma bíla.