Móðir hans missti sjálf sjón á öðru auga sem barn – Fékk taugaáfall útaf þjáningum sonar síns
Í helgarblaði DV er rætt við Kristínu Hildi Þorleifsdóttur, móður Þorleifs H. Kristínarsonar, sem hvarf sporlaust í Fredrikshavn í Danmörku fyrir rúmum tveimur árum. Íslenskir fjölmiðlaðar fjölluðu um hvarfið en greindu síðan snögglega frá því að leit hefði verið hætt.
Í viðtalinu kemur fram að danska lögreglan fann myndband þar sem Þorleifur sést stökkva fram af bryggjunni út í opinn dauðann. Það voru síðustu andartök drengs sem hafði glímt við verulegt mótlæti frá unga aldri og átti sér ekki viðreisnar von. Þegar Þorleifur var sex ára gamall varð hann fórnarlamb læknamistaka í kjölfar ofnæmisviðbragða við verkjalyfi. Líkami hans brann upp og hann missti 60% af húð sinni auk sjónar á öðru auga.
Eftir margskonar mótlæti hafði hinn tvítugi Þorleifur fengið nóg. Kristín deilir með lesendum erfiðleikunum sem sonur hennar þurfti að glíma við og þeirri miklu sorg sem hún og fjölskylda hennar hefur þurft að takast á við.
Hér má lesa brot úr viðtalinu:
Kristín Hildur átti mjög erfitt með að sætta sig við afleiðingar veikinda Þorleifs. „Ég varð sjálf fyrir óhappi þegar ég varð sex ára. Ég var í sveit hjá ömmu og afa en þau tóku reglulega að sér erfið ungmenni. Eitt sinn var ég að rífast við eldri strák um hver ætti að sitja fram í þegar hann sló mig í andlitið með hvössu verkfæri. Ég hljóp inn til ömmu og þá kom í ljós að gat var komið á augasteininn,“ segir Kristín. Afleiðingar árásarinnar urðu þær að hún hélt auganu en missti alveg sjónina á því. „Þetta hafði mikil áhrif á mig. Augasteinninn var saumaður og ég fór í nokkrar aðgerðir til að reyna að bjarga sjóninni. Meðal annars var settur leppur yfir heila augað til að laga hið meidda. „Þetta gerði að verkum að mér gekk illa að læra að lesa og skrifa. Ég kunni bara að vera blind. Þessi erfiða reynsla úr æsku minni varð eflaust til þess að ég varð gjörsamlega örvilnuð þegar ljóst var að Þorleifur væri að missa sjónina á öðru auga á sama aldri og ég,“ segir hún.
Í framhaldi af veikindum sonar síns hafi hún að öllum líkindum fengið taugáfall og þurfti að leggjast inn á geðdeild þar ytra til þess að ná áttum. „Foreldrar mínir aðstoðuðu mig mikið meðan á þessu stóð. Þau hafa verið mín stoð og stytta. Þau bjuggu hérna úti í átján ár en eru nýflutt heim til Íslands,“ segir Kristín Hildur. Hún jafnaði sig smám saman og hófst þá handa við að sækja rétt Þorleifs fyrir dómstólum. „Sú barátta tók átta ár en endaði með því að niðurstaðan var sú að um læknamistök hefði verið að ræða og hann fékk greiddar bætur vegna skaðans. Það var sætur sigur en bætti að sjálfsögðu ekki fyrir þær þjáningar sem Þorleifur hafði upplifað,“ segir Kristín Hildur. Langtímaafleiðingar slyssins voru þær að Þorleifur upplifði sífelld óþægindi í augunum og suma daga var hann kvalinn og sá illa. „Tárakirtlarnir skemmdust sem gerði að verkum að hann þurfti sífellt að nota augndropa. Á þriggja mánaða fresti þurftum við síðan að heimsækja augnlækni til að plokka inngróin augnhár sem ollu honum miklum óþægindum,“ segir Kristín Hildur.
Þorleifur var frumburður Kristínar Hildar en hún á fjögur önnur börn, hálfsystkini Þorleifs. Þrátt fyrir erfiðleika Þorleifs þá hafi hann verið góður stóri bróðir sem reyndist systkinum sínum vel. „Við vorum miklir vinir og gátum alltaf hlegið saman. Hann var alltaf í góðu skapi og brosandi. Við skildum hvort annað afskaplega vel,“ segir Kristín Hildur. Þau hafi sameinast í áhuga á íþróttaiðkun yngri systkina Þorleifs. „Hann hjálpaði mér að skutla þeim á æfingar og annað. Við vorum í þessu af lífi og sál. Yngstu systkini hans eru enn dugleg í handbolta og fótbolta en ég fæ alltaf einhverja tómleikatilfinningu þegar ég er skutla þeim á æfingar eða mót. Þorleifur stóð alltaf í þessu með mér,“ segir Kristín Hildur. Hún segir að yngri systkini Þorleifs hafi tekið fráfalli hans af fádæma yfirvegun og styrk.