fbpx
Föstudagur 03.maí 2024
Fókus

Sonur Kristjáns varð manni að bana 12 ára gamall: „Þú snýrð ekki baki við börnunum þínum“

Dæmdur í lífstíðarfangelsi – „Þetta hefur kostað mig fleiri andvökunætur en ég get talið“

Auður Ösp
Miðvikudaginn 17. febrúar 2016 23:59

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Haustið 2007 kvaddi Kristján Jóhann Matthíasson son sinn með þeim orðum að ef hann tæki sig ekki á þá biði hans útsýni í gegnum rimla. Hálfu ári síðar fékk hann bréf með þeim fregnum að 12 ára drengurinn hans sæti í einangrun í fangelsi, grunaður um að hafa stungið unglingspilt í hjartað. „Sama hvað börnin manns gera þá snýr maður aldrei baki við þeim,“ segir hann.

Vissi að hann var í slæmum málum

Kristján á tvo syni með konu sem hann kynntist þegar hann bjó í Bretlandi á árum áður, Brandon Richmond, 20 ára og Darrell sem er 26 ára. Sambúð Kristjáns og konunnar gekk ekki upp á sínum tíma og Kristján flutti aftur til Íslands. „Ég fékk ekki atvinnuleyfi úti á þessum tíma þannig að ég kom heim og fór á sjóinn inn á milli. Loks hafði ég ekki lengur úthald í þetta flakk. Strákarnir urðu eftir hjá móður sinni, sem bjó í vesturhluta Lundúna,“ segir hann í samtali við blaðamann DV.

Eldri sonurinn kom reglulega í heimsókn til pabba síns en sambandið við Brandon var mun stopulla. „Hann kom einu sinni til Íslands, þá 11 ára og heimsótti mig í Keflavík þar sem hann dvaldi í tvær vikur. Honum fannst bærinn vera óttalegt krummaskuð.“

Kristján vissi á þessum tíma að sonur hans væri í slæmum málum. „Hann var farinn að fikta við hassreykingar. Helming tímans sem hann var hjá mér var hann í fráhvörfum en ég var einfaldlega svo grænn að ég fattaði það ekki. Svo voru það einhver sterkari efni. Hann hafði verið í deilum í skólanum, þar sem það var níðst á honum fyrir að vera svokallað „half cast“ og ég vissi að félagsskapurinn sem hann var kominn í var allt annað en góður. Þegar ég kvaddi hann þarna um haustið, þá kvaddi ég hann með þeim orðum að ef hann myndi ekki taka sig á þá biði hans ekkert nema fangelsi.“

Breska pressan var milliliður

Hálfu ári seinna fékk Kristján bréf frá frænda Brandons. „Þar stóð að Brandon væri kominn í gæsluvarðhald vegna gruns um aðild að manndrápi. Ég fékk taugaáfall og brotnaði algjörlega niður. Ég fór strax í það að reyna að fá upplýsingar og leitaði til utanríkisþjónustunnar og sendiráðsins. Þeir voru boðnir og búnir til að hjálpa,“ segir hann en bætir síðan við að upplýsingaflæðið til hans hafi strandað á erfiðum samskiptum við móður Brandons en hún hafði fullt forræði yfir drengnum. Kristján þurfti því að reiða sig á upplýsingar frá breskum fjölmiðlum sem fjölluðu ítarlega um málið. Og þær fréttir voru ekki fallegar.

„Ég fékk taugaáfall og brotnaði algjörlega niður“

„Ég hringdi fjölda símtala og mér tókst á einum tímapunkti að móðga breskan embættismann með því að benda honum á að þeir væru að brjóta Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna og að líklega væri betur tekið á málum barnungra fanga í Bangladesh. Eftir það voru allar dyr lokaðar,“ segir Kristján en honum tókst loks í eitt skipti að ná sambandi við son sinn. „Það var eftir endalausa ýtni. Mér tókst að tala einhverja embættiskonu til,“ segir hann. Símtalið var ansi tilfinningaþrungið. „Ég heyrði að hann var hræddur. Hann vildi ekki ræða málið sjálft við mig en hann sagðist sakna pabba gamla. Ég lagði áherslu á það við hann að hann segði sannleikann. Síðan var símtalinu slitið af starfsmönnum fangelsisins.“ Eftir það hefur Kristján aðeins einu sinni heyrt í syni sínum, eftir að hann var dæmdur.

Þessi mynd af syni Kristjáns var birt í breskum fjölmiðlum þegar umfjöllun um málið stóð sem hæst.
Þessi mynd af syni Kristjáns var birt í breskum fjölmiðlum þegar umfjöllun um málið stóð sem hæst.

Brandon hafði verið í slagtogi með hópi unglinga sem eitt kvöldið elti uppi 16 ára pilt, Kodjo Yenga og öskraði: „Drepum hann, drepum hann!“ Hann var því næst barinn með kylfum og að lokum veitt hnífstunga í hjartað. Við réttarhöldin lét móðir hins látna meðal annars þessi orð falla: „Það er sama hvað þið þrífið ykkur oft um hendurnar, blóðið hans mun alltaf vera á ykkur.“

„Þessir krakkar voru öll á einhverju og mér skilst að þetta hafi verið einhverskona innvígsla í klíku,“ segir Kristján. Málið vakti gríðarlega athygli á sínum tíma og sköpuðust meðal annars umræður í breskum miðlum um vaxandi gengjamenningu í Lundúnum, hækkandi glæpatíðni og neikvæð áhrif þess á ungdóm landsins. Kristján telur að dómurinn sem sonur hans hlaut fyrir glæpinn hafi átt að vera fordæmiskapandi til að hræða ógæfusöm ungmenni á rétta braut.

„Þegar dómurinn var lesinn upp hélt ég fyrst að þetta hefði verið einhver mislestur“

Missti trúna á mannkynið

Brandon fékk að lokum lífstíðarfangelsi fyrir morð, með möguleika á reynslulausn eftir 16 ár. Hann var einungis 12 ára gamall. Annar piltur úr hópnum, 15 ára fékk sama dóm. Hinir þrír piltarnir, sem voru á aldrinum 15 til 17 ára fengu allir tíu ára fangelsisdóm fyrir aðild sína að málinu. „Brandon var ekki samvinnufús í réttarhöldunum og neitaði að tala. Eflaust hafði það áhrif á þyngd dómsins. Þegar dómurinn var lesinn upp hélt ég fyrst að þetta hefði verið einhver mislestur. Ég missti trúna á mannkynið í smá tíma. Þó svo ég hafi alltaf sagt að hann eigi að taka út sína refsingu þá var þetta ekki nokkur glóra. Ég var niðurbrotinn, og ekki var mikill skilningur í kringum mann,“ heldur Kristján áfram.

Brandon var í fyrstu vistaður í unglingafangelsi en þegar hann var orðinn fjórtán ára var hann fluttur yfir í fangelsi rétt hjá Ipswich sem hýsir fullorðna afbrotamenn. „Þar eru aðstæðurnar hrikalegar. Þetta er svo sannarlega ekkert á pari við Litla-Hraun. Mér skilst að þar fái fangarnir tvær máltíðir á dag og þurfi sjálfir að skaffa sér aðra máltíðina. Þeir lifa mikið á núðlum. Þeir eru niðurlægðir á hverjum einasta degi. Þeir mega ekki fá neitt utan frá, ekki einu sinni Biblíu. Það má senda peninga til þeirra með því að leggja þá inn á reikning fangelsisins og þaðan er þeim úthlutað til þeirra. Mér skilst að lífið þarna gangi mikið út á viðskipti og gengjamyndun er algeng.“

Brandon var fyrir þremur árum færður í svokallað „Juvenile Detention Center“ þar sem yngri afbrotamenn eru vistaðir. Þar eru aðstæðurnar að einhverju leyti skárri að sögn Kristjáns. Þar hefur Brandon sýnt af sér góða hegðun og segir Kristján að það gefi sér örlitla von. „Ef hann hegðar sér áfram vel þá fær hann að klára dóminn þar. Það var uppreisn í fangelsinu í desember og það er ekki vitað enn hvort hann var hluti af henni. Ef hann verður staðinn af því verður hann sendur rakleitt aftur í fangelsið í Ipswich og það er hryllileg tilhugsun, algjörlega skelfileg.“

Glæpamannaverksmiðjur

Kristján segist ekki geta skilið af hverju það sé ekki notast við einhvers konar betrunarvist í stað þess að vista kornunga og óharnaða stráka í fangelsum með fullorðnum afbrotamönnum. „Ég bið fyrir því að hann verði ærlegur þjóðfélagsþegn, en ef þú ert búinn að vera frá 12 ára aldri til 28 ára aldurs í fangelsi út af einhverju sem þú framdir þegar þú varst nánast ennþá barn þá myndi ég nú halda að líkurnar væru ekki miklar. Þetta eru ekkert annað en glæpamannaverksmiðjur.“

„Þegar barnið manns fremur afbrot áætlar meirihluti fólks að það sé alfarið foreldrunum að kenna“

„Ég ætla ekki að kvarta eða skæla en allt þetta hefur kostað mig fleiri andvökunætur en ég get talið,“ segir hann aðspurður um þau áhrif sem afdrif sonar hans hafa haft. „Þegar barnið manns fremur afbrot þá áætlar meirihluti fólks strax að það sé alfarið foreldrunum að kenna,“ segir hann. Hann segir fordóma og illt umtal fólks í kringum sig síst hjálpa til. „Eftir að þetta fréttist sagði einn vinur minn að ég ætti ekki einum einasta manni hérna heima frá þessu. Svo leið tími þar til gamall vinur minn, sem er mikill spekingur og mannþekkjari, tók mig hreinlega í gegn. Hann sá hvað þetta var að éta mig upp að innan. Hann sagði við mig: „Kristján, nú ætlum við að setjast niður og tala um þetta.“ Sem við gerðum.“

„Ég get ekki borið ábyrgð á gjörðum barna minna. Því miður.“

Mun aldrei gefast upp

„Fólk segir að ég hafi nú getað gert betur og gert hitt og þetta. Ég get hins vegar ekki borið ábyrgð á gjörðum barna minna. Því miður,“ segir Kristján jafnframt. Á síðasta ári var eldri sonur hans, Daryll Richmond Kristjánsson, dæmdur í 9 ára fangelsi í Bretlandi fyrir tilraun til stórfellds fíkniefnasmygls. Kristján hefur ekkert heyrt í honum heldur og hefur ekki hugmynd um í hvaða fangelsi hann er vistaður eða hvernig honum reiðir af. Samband Kristjáns við móðurfjölskyldu piltanna hefur ekki verið upp á marga fiska. Öll bréf sem hann hefur sent hafa verið send til til baka. Hann vonar þó hið besta og ætlar að halda ótrauður áfram að reyna að ná sambandi. „Ég stefni að því að komast út á þessu ári og hitta báða strákana mína. Ég mun aldrei gefast upp. Það er nú einu sinni þannig að þetta verða alltaf börnin manns. Þú snýrð ekki baki við þeim.“

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Framboð Viktors gilt
Fókus
Í gær

,,Þetta var komið gott eftir líflátshótanir”

,,Þetta var komið gott eftir líflátshótanir”
Fókus
Í gær

Helgi Seljan og pabbabrandarinn sem endaði á prenti

Helgi Seljan og pabbabrandarinn sem endaði á prenti
Fókus
Fyrir 2 dögum

„Um tíma átti ég erfitt með að kaupa mér maskara því ég eyddi svo miklum pening í maníu“

„Um tíma átti ég erfitt með að kaupa mér maskara því ég eyddi svo miklum pening í maníu“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Móeiður og Hörður héldu glæsilegt barnaafmæli í anda Kardashian-fjölskyldunnar

Móeiður og Hörður héldu glæsilegt barnaafmæli í anda Kardashian-fjölskyldunnar
Fókus
Fyrir 3 dögum

Elizabeth Hurley afhjúpar leyndarmálið að unglegu útliti

Elizabeth Hurley afhjúpar leyndarmálið að unglegu útliti
Fókus
Fyrir 3 dögum

Velta fyrir sér tekjum Gústa B eftir að hann pungaði út milljónum í sumargjöf

Velta fyrir sér tekjum Gústa B eftir að hann pungaði út milljónum í sumargjöf
Fókus
Fyrir 3 dögum

Vikan á Instagram – „Maður fer all inn á brókinni fyrir vinkonu sína“

Vikan á Instagram – „Maður fer all inn á brókinni fyrir vinkonu sína“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Guðrún byrjaði með manni í fangelsi og varð ólétt eftir hann – „Ég vissi ekki fyrir hvað hann sat inni“

Guðrún byrjaði með manni í fangelsi og varð ólétt eftir hann – „Ég vissi ekki fyrir hvað hann sat inni“