Glæpakvendið Ghislaine Maxwell virðist njóta sín í fangelsinu í Flórída á meðan hún býður þess að mál hennar verði tekið fyrir hjá áfrýjunardómstól. Myndir náðust af henni á dögunum þar sem hún var úti að skokka í fangelsisgarðinum. Samkvæmt heimildum var um að ræða hálfmaraþon fyrir fanga og tóku 19 þátt. Þar sem plássið í garðinum er af skornum skammti þurftu fangarnir að hlaupa 52 hringi til að ljúka hálfmaraþoni sem er 21,1 km.
Lögmaður Maxwell útskýrir að fangelsið hafi skipulagt hlaupið þar sem það sé skylda varðstjórans að gera lífið á bak við lás og slá bærilegt. Fyrir utan hlaup sé Maxwell leggja stund á jóga og pílates.
„Hún lítur vel út, virkilega. Vanalega bæta skjólstæðingar mínir í haldi á sig mikilli þyngd enda byggir mataræði þeirra í fangelsinu fyrst og fremst á kolvetnum.“
Maxwell afplánar 20 ára dóm fyrir mansal, en fangelsið sem hún dvelur í er ekki öryggisfangelsi og njóta fangar þar aðeins meira frjálsræðis en gengur og gerist í Bandaríkjunum. Engu að síður segir lögmaðurinn að líf Maxwell sé langt frá því að vera notalegt í steininum.
„Jafnvel fyrir gesti er það ógnvekjandi lífsreynsla að koma í fangelsi“
Fangelsið sé á afskekktum stað, girt af með gaddavír og í umhverfinu ríki þögnin ein sem sé stöðug áminning til fanganna að þau njóti ekki frelsis.
Áfrýjun Maxwell verður tekin fyrir eftir hálfan mánuð, en mun fyrrum athafnakonan vonast til sýknu. Á meðan reyni hún að gera gagn. Maxwell talar fimm tungumál og segir lögmaður hennar að hún sé nú að aðstoða konur í fangelsinu í viðkvæmri stöðu. Hún taki að sér að túlka fyrir þær konur sem ekki tala góða ensku og hjálpar þeim að þýða skjöl úr dómsmálum þeirra. Maxwell sé vinsæl, enda boðin og búin að hjálpa samföngum sínum.
„Hún hefur aðlagast og er að gera það besta úr þessum aðstæðum“
Maxwell mun eins vinna að bók þar sem hún ætlar að láta allt flakka til að hreinsa nafn sitt. Lögmaður hennar hefur áður sagt að Maxwell þyki sárt að af öllum þeim sem tóku þátt í brotum níðingsins Jeffrey Epstein, þá hafi aðeins hún verið tekin út fyrir mengið, kona, og látin mæta afleiðingunum. Fjöldi karlmanna hafi átt jafn mikinn ef ekki meiri þátt í brotum Epstein en þeir sleppi með skrekkinn.