fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Nína var fórnarlamb nýrrar tegundar óhugnanlegs netsvindls sem herjar á Íslendinga – „Þar inni voru klámmyndbönd undir mínu nafni“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Föstudaginn 17. mars 2023 11:34

Nína Richter.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjölmiðlakonan Nína Richter var skelkuð þegar hún sá að einhver hafði stofnað Instagram-síðu undir hennar nafni og með hennar myndum. Henni finnst hún enn berskjaldaðri þegar hún sá að gervi Instagram-síðan leiddi til klámsíðu undir hennar nafni.

Þetta er ný tegund af netsvindli sem herjar á Íslendinga. Tölvuþrjótar eru að nota myndir af íslenskum konum til að stofna gervi Instagram-síður undir þeirra nafni, síðurnar leiða síðan á gervi-klámsíður, sem líta út eins og síða á OnlyFans, og þar geta grunlausir klámkaupendur sett inn kreditkortaupplýsingar.

Nína fjallaði um þessa nýju bylgju af netsvindli í Fréttavaktinni í gær. Fréttablaðið greinir einnig frá. Hún ræddi stuttlega um eigin reynslu sem þolandi í svona svindli en opnar sig nánar um málið í samtali við DV.

Nína byrjaði að fá skilaboð frá fólki sem spurði hvort það væri búið að brjótast inn á Instagram-síðu hennar.

Var brugðið

Nína segir að henni hafi verið mjög brugðið þegar hún sá gervi síðuna í fyrsta skipti, óviss um hvatann á bak við hana.

„Ég var ekki viss um hvort þetta væri persónulegt eða hvort þetta væri einhver svona faraldur. Ég hafði aldrei séð þetta áður,“ segir hún.

Þegar Nína skoðaði aðganginn betur sá hún að tölvuþrjóturinn hafði einnig stofnað gervi OnlyFans-síðu undir hennar nafni.

„Þar inni voru klámmyndbönd og myndir undir mínu nafni. Það sást ekkert andlit á klámmyndböndunum, en þetta voru bara myndir af kynfærum og myndbönd af fólki í kynlífsathöfnum. Það var í raun ekkert sem gaf annað til kynna, fyrir einhvern sem þekkir mig ekki eða veit ekkert hver ég er, en að þetta væri ég í þessum myndböndum.“

Nína segir að þó myndefnið hafi ekki verið af henni þá hafi henni liðið eins og það væri verið að ráðast inn í einkalíf hennar.

Skjáskot af gervisíðunni þegar Nína sá hana fyrst.

Nína tilkynnti síðuna og fékk vini sína á samfélagsmiðlum til að gera slíkt hið sama. Það vakti mikinn óhug hjá Nínu að tölvuþrjóturinn byrjaði að fylgja öllum karlkyns vinum Nínu á Instagram og sumir þeirra fylgdu síðunni til baka.

„Það voru einhverjir menn þarna, sem ég þekki persónulega, að fylgja þessum klámaðgangi. Ég sendi þeim skilaboð og bað þá vinsamlegast um að fylgja ekki þessum aðgangi, þetta væri ekki ég og bað þá um að tilkynna. Þetta var allt mjög óþægilegt, svo ekki sé meira sagt,“ segir hún.

Nína fékk fjölda skilaboða frá vinum og kunningjum. Skjáskot/Instagram

Tilfinningaleg áhrif

„Það hafa verið greinar í erlendum tímaritum þar sem konur hafa verið að lýsa tilfinningalegum áhrifum af svona áreiti, því auðvitað er þetta kynferðislegt áreiti á netinu. Það er verið að setja mann í eitthvað kynferðislegt samhengi sem maður bað ekki um. Ég ber fulla virðingu fyrir fólki sem velur að vera í þessum bransa, en á sama tíma er þetta einhver ákvörðun sem hver og einn verður að fá að taka fyrir sjálfan sig og það má ekki taka þetta val af fólki. Og það er einhvers konar form af innrás í einkalíf fólks og gróft áreiti í leiðinni. Mér finnst þetta líka vera umhugsunarvert þegar kemur að þróuninni í tækni og svo kallaðri „deep-fake“ tækni þar sem er hægt að taka andlitin á fólki og setja það í gervi aðstæður. Við höfum í áratugi getað gert það í Photoshop en nú er hægt að gera þetta í myndböndum,“ segir Nína.

„Eftir því sem tækninni fleygir fram verður þetta auðveldara og aðgengilegra fyrir hvern sem er, með lítilli fyrirhöfn og lítilli þekkingu. Og ef þetta kemst í rangar hendur eða hendur barna sem geta lagt í gróft einelti með þessum hætti, eða hreinlega að börn verði fórnarlömb svona brota. Það finnst mér umhugsunarvert því lagaumgjörðin er langt á eftir tækninni. Þeir sem eru í þessari stöðu eru svo til réttlausir og þurfa að leita á náðir fyrirtækisins sem heldur úti síðunum og það getur tekið tíma og þá er kannski skaðinn skeður, bæði félagslegur og sálrænn.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki