fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fókus

Valur Freyr öskraði úr sér röddina – ,,Við miðaldra karlar getum látið okkur dreyma“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 28. maí 2022 10:00

Valur Freyr Einarsson. Mynd/Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

,,Það er guðdómlegt þegar að allt gengur vel en það er alltaf eitthvað sem maður er ekki sáttur við og er viss um að unnt hefði verið hægt að gera betur. Og það rekur mann áfram,” segir Valur Freyr Einarsson leikari, handritshöfundur og leikstjóri en sýning hans, Fyrrverandi, hefur verið sýnd fyrir fullu húsi í Borgarleikhúsinu í vetur.

Nett áfall að vera hafnað

Valur Freyr segir að hann hafi fundið tengingu við leikhúsformið í skólaleikritum sem krakki. ,,En það var mjög fjarlægt í mínu umhverfi að það væri hægt að vinna við þetta. Það var ekki fyrr en í MR sem ég dróst inn í Herranótt, leikfélag með djúpar rætur og aðkomu fagfólks, sem að áhuginn styrktist mjög. Þar hitti ég fólk sem ég er ennþá að vinna með. Við Hilmir Snær urðum miklir vinir í menntaskóla og hann var með mjög skýra stefnu svo að ég elti hann að einhverju leyti í að láta mig dreyma um að þetta gæti orðið vinnan mín.”

Ungstirnið Valur Freyr

Valur Freyr tók stefnuna á leiklistarskólann strax að menntaskóla loknum. ,,Við fórum þrír vinirnir í prófið, allir mjög öruggir með okkur. Benedikt Erlings og Hilmir Snær komust inn en mér var hafnað. Það var nett áfall en eftir á að hyggja var það gott fyrir tvítugan strák að fá annan möguleika til að hugsa sig um.”

Hann fékk vinnu hjá Ríkissjónvarpinu og viðveran við bransann næstu tvö árin styrkti Val Frey í trúnni að gera þetta fyrir alvöru.

Þjóleikhúsið stjörnuleikhús

Hann tók stefnuna út og valdi leiklistarskóla í Manchester í Bretlandi. Hann er þó ekki á því að hann hafi farið út með það í huga að vera næsta ofurstjarna sviðslista. ,,Það var nú meiri auðmýkt en svo . En mig langaði að ná öllu út úr skólanum sem ég gat, ég var svolítið eins og Þjóðverji í sumarleyfi og ætlaði að kreista út allt fyrir peninginn. Það var ekki mikill slaki í byrjun en svo kom kærkomið kæruleysi seinni tvö árin.”

Það var búið að vara Val Frey við að það gæti verið erfitt og tekið tíma fyrir nýútskrifaðan nema að fóta sig þar sem leikstjórar og leikhússtjórar hefðu fylgst með nemum í Leiklistarskólanum hér heima og jafnvel beðið eftir sumum.

,,Þetta er lítill heimur, með aðeins tvö atvinnuleikhús. Þjóðleikhúsið var auðvitað svolítið stjörnuleikhús og þegar að Stefán Baldursson tók við var hans áhersla að nota mikið kraft leikarans út á við. Þetta voru menn eins og Ingvar E. og Balti og svo komu nöfn á við Hilmi Snæ og Steinunni Ólínu. Stefán otaði sínum stjörnum fram og þetta voru vissulega miklar stjörnur á sínum tíma, í hverri burðarrullunni hægri vinstri ár eftir ár og allir vissu hver þau voru.

Og já, það var aðeins erfitt að komast inn í þá púllíu.”

Algjör viðbjóður

Valur Freyr segir að fyrstu tíu árin í leiklistinni einkennist af ákveðnu óöryggi. ,,Samkeppnin er meiri fyrstu árin. Það eru margir sem fá eitt eða tvö tækifæri eða leikár en heltast svo úr lestinni af einhverjum ástæðum. Það tekur tíma að finna sinn sess, hvaða sögu maður hefur að segja og af hverju maður vill vera í þessu. Það er í raun ótrúlega lítill hluti að starfa við þetta í langan tíma eða jafnvel út starfsævina.”

Valur Freyr Mynd/Aðsend

Hann hafði skrifað stutta einþáttunga í náminu þar sem honum fannst lítið til af þeim og skömmu eftir útskrift steig hann á svið með eitt þessara verka, Heilt ár og þrír dagar, í Kaffileikhúsinu. Valur Freyr réðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur í verkinu.

,,Það er byggt á sögu pedófíls sem ég hafði lesið um. Þegar ég var í skólanum kom svona mál upp í Bretlandi sem náði í alveg upp í stjórnkerfið, einhver risastór hringur sem var algjör viðbjóður.  Ég sá heimildamynd um franskan mann sem hafði verið dæmdur fyrir slíkt og gekkst sá við öllu sem hann hafði gert. Það var í fyrsta skipti sem ég hafði séð slíkt, að það væri sett andlit á slíkan einstakling, mjög veikan mann að kalla eftir aðstoð.”

Valur í verkinu Allt sem er frábært

Hann segir það hafa ögrað sér að reyna að skilja það það óskiljanlega. ,,Þetta er hegðun sem flestum býður við og vilja ekki reyna að skilja. Það er alltaf eitthvað í bakgrunni eða sögu viðkomandi sem skýrir hegðun.”

Þykir vænst um Tengdó

Valur Freyr varð snemma fjölskyldumaður. Hann og kona hans, Ilmur María Stefánsdóttir myndlistarkona og leikmyndahönnuður, kynntust um áramótin 1991-92 og eiga þau saman fjögur börn.  Var alveg skautað hjá djammpakkanum sem virtist loða við marga leikara, ekki síst af hans kynslóð? ,,Ég átti tvö börn með fjórtán mánaða millibili, var orðinn tveggja barna faðir 27 ára sem var auðvitað bratt. Það var bara ekki í boði að hanga á barnum.”

Saman stofnuðu þau Valur Freyr og Ilmur fyrirtækið Common Nonsense og settu upp sýningar í samstarfi við fjölda listamanna. Meðal þeirra var Tengdó, sýning byggð á sögu tengdamóður Vals um leitina að föður sínum sem ,,ástandsbarn.” Tengdó sló rækilega í gegn og segir Valur Freyr það vera það hlutverk sem honum þyki alltaf vænst um.

Skellur

En komu einhverjir skellir? ,,Jú, vissulega. Dagbók jazzsöngvarans er verk byggt á ævi föður míns. Það var mjög persónulegt og nálægt mér en handritið kannski ófókuserað og eftir á að hyggja var sýningin kannski út og suður. Ég var nýbúinn að klára Tengdó sem sópaði að sér verðlaunum og fékk alls staðar fimm stjörnur og þótt þessi hafi kannski ekki fengið hauskúpur fékk hún engar undirtektir og féll reyndar. Það var erfitt og ég var lengi að vinna úr því hvað hefði gerst og af hverju. Eflaust voru margar ástæður fyrir því en það sem hjálpaði mér að komast út úr þráhyggjunni sem ég var komin í var að vinur minn kom í heimsókn og óskaði mér til hamingju.

Valur Freyr Einarsson. Mynd/Valli

Hann benti mér á að ég hefði verið með hápunkt en nú væri ég líka kominn með lágpunkt og því gæti ég verið frjáls. Sem var nákvæmlega það sem ég þurfti að heyra.”

Fer illa saman

Talið berst í kjölfarið að gagnrýni. ,,Hvað skal segja? Ég er alveg viðkvæmur fyrir henni en var samt miklu viðkvæmari fyrir henni á árum áður. Kannski hef ég meiri skilning fyrir því í dag hvaðan gagnrýnin kemur. Sá sem gagnrýnir skrifar alltaf út frá sinni reynslu, smekk og sínum snertiflötum gagnvart því sem er verið að gera. Það er hættulegt að taka því of persónulega.”

Og fyrst spjallið er komið á þessar slóðir er vart annað hægt en að minnast á landsþekktan gagnrýnanda sem hefur löngum verið þekktur fyrir að spara ekki stóryrðin. ,,Hann var meðvitaður um vera líka skemmtikraftur og mér finnst það fara illa saman og oft ekki heiðarlegt gagnvart þeim sem eru að vinna vinnuna sína. Eiginlega mótsagnarkennt. Hann var vissulega ekki að gera sér neitt upp en við skulum segja að hann hafi ekki verið varkár í umgengni og umsögn um fólk.

Þetta er lítið samfélag og viðkvæmt hvernig hlutirnir eru orðaðir.”

Lágvaxin og seinþroska

Það er útbreidd mýta að listamenn séu skapstórir og Valur Freyr viðurkennir að það hafi komið stundir sem hann hafi misst það aðeins. ,,En ég fæ alltaf svo mikinn móral á eftir að það er alls ekki þess virði. Ég er orðinn 52 ára, maður er smám saman að læra og ég er bara merkilega rólegur,” bætir hann brosandi við.

Valur Freyr Mynd/Aðsend

,,Ég hef nú reyndar keppnisskap þótt það reyni ekki mikið á það í leikhúsinu. Ég spilaði mikið fótbolta sem krakki og var stöðugt æpandi úti á vell, var mjög tapsár og þoldi ekki þegar að aðrir gerðu mistök. Skapið varð til þess að ég öskraði alveg úr mér röddina 11-12 ára gamall. Ég var kokhás í 2-3 ár og enginn vissi hvernig röddin í mér hljómaði. Ég var sendur til læknis og reyndist hafa svokallaða sönghnúta, sem er atvinnusjúkdómur söngvara, bólgur á raddböndunum.

Þetta er víst algengt hjá ungum strákum sem eru lágvaxnir og eru að reyna að gera sig stærri. Það var allavega skýringin sem ég fékk eftir á og hún gengur alveg upp því ég var mjög lágvaxinn og seinþroska. Þetta var mín leið til að stækka mig.”

Valur Freyr var sendur til raddþjálfa sem kenndi honum öndun, svipað og leikurunum er kennt. ,,Hann gaf mér röddina til baka.”

Allir tala um fyrrverandi

Nýjasta verk Vals, Fyrrverandi, hefur verið sýnt í Borgarleikhúsinu í vetur við miklar vinsældir og verða sýningar teknar aftur upp í haust. En hvernig getur hamingjusamlega giftur maður skrifað stykki um skilnaði og þeim átökum sem þeim fylgja?

Úr sýningunni Fyrrverandi Mynd/Borgarleikhúsið

,,Kveikjan að þessu var bylgja skilnaða í kringum mann og þá sambönd sem höfðu varað mjög lengi, kannski tuttugu ár og fólk komið með hálf uppkomin börn. Tengdaforeldrar mínir skildu meira að segja eftir rúmlega fjörutíu ára hjónaband svo maður var stöðugt minntur á þetta. Og akkúarat á þessum tíma var ég boðinn í matarboð sem ég kom seint í því ég hafði verið að sýna. Allir voru búnir að borða, sumarið að koma og fólk bara hresst og komið í skál. Þarna voru einmitt þrjú pör sem öllu voru nýtekin saman eftir skilnaði.

Og þau tölu bara um fyrrverandi.

Ég sat þarna með diskinn á lærunum og áttaði mig allt í einu hvað þetta er plássfrekt í lífi fólks og hvað þetta getur verið mikill heimsendir þegar á því stendur þótt það geti orðið upphaf að einhverju góðu í kjölfarið.”

Persónulegur heimsendir

Valur Freyr tók viðtöl við tuttugu manns sem höfðu verið í langtímasambandi með börn og skilið.

,,Það voru ótrúlega margir sem áttu traumatíska reynslu. Það er enginn að tala mikið um þetta, það er annar hver maður skilinn og það er kannski einhver að vinna með þér á næsta borði sem er að ganga í gegnum persónulegan heimsendi án þess að þú vitir af því. Ég bæti ekki miklu við þótt ég blandi auðvitað saman persónum en verkið er byggt á þeim samtölum sem ég átti. Hversdagsleikinn er nefnilega hádramatískur þegar maður gefur honum  gaum.”

Valur Freyr Einarsson. Mynd/Valli

Hann segir það vera verkefni leikhúsanna, og líka sjónvarpsins, að endurspegla okkar líf og að við þurfum á íslenskum höfundum að halda, höfundum með efni úr okkar veruleika, okkar sögum og frá okkar fólki.

,,Sjónvarpsframleiðslunni hefur auðvitað fleygt mikið fram og það er svo fyndið að það er að miklu leyti eftirspurn að utan sem hefur ýtt undir þá framleiðslu. Allar þessar veitur svo og hegðunar- og neyslumynstur neytandans hefur hjálpað mikið. Og áhorfið margfaldast með íslensku efni, það er alltaf vinsælast.”

Bíð á kantinum

Aðspurður að því hvort hann hafi aldrei dreymt um frægð og fram í Hollywood segir Valur Freyr að vissulega væri gaman að upplifa það að vera þáttur í slíku risaverkefni. ,,Ég hef alveg sóst eftir því að komast í prufur fyrir svoleiðis verkefni en ég hef enga löngun né metnað til að vinna við slíkt að staðaldri og reyna að skapa mér feril í Hollywood eða öðru slíku. Mér finnst það ekki sérstaklega eftirsóknarvert og held að á marga vegu sé fórnarkostnaðurinn miklu meiri en ávinningurinn. Maður þarf að vera frá fjölskyldunni, henda sér á kaf í þetta og eiginlega að vinna svolítið í lottóinu til að fá réttu verkefnin.

,,Fyrir utan það held ég að ég sé orðin of gamall í svoleiðis,” segir Valur Freyr og hlær. ,,Tja, við miðaldra karlar getum samt alltaf látið okkur dreyma. En það er svo mikið af frábæru kvikmyndagerðarfólki á Íslandi að gera hluti sem eru að vekja athygli erlendis og ég er miklu meira til í að vera þátttakandi í því ævintýri. Ég á þann karríer eftir, bíð bara á kantinum.”

Persónulegt ferðalag

Valur Freyr hefur í vetur verið í hinni gríðarlega vinsælu sýningu Níu líf sem byggð er á Bubba Morthens og hans tónlist. ,,Í þeirri sýningu skynja ég svo sterkt að salurinn minnki og verði hluti af okkur. Sem gerist hreint ekki alltaf á svona stóru sviði og er svolítið merkilegt enda miklu auðveldara að ná því á litlu sviði.”

Úr sýningunni Níu líf Mynd/Borgarleikhúsið

Hann segir að fólk tengi við tónlist Bubba, um sé að ræða tónlist sem hafi fylgt mörgum í gegnum lífið og fylli fólk ákveðinni nostalgíu. ,,Það er eitthvað við að fá á einu kvöldi tónlistina sem hefur fylgt þér í gegnum lífið og er hluti af þinni sögu, hvort sem þér líkar betur eða verr. Það fara allir í sitt persónulega ferðalag. Og það hafa borist fullt af skilaboðum frá fólki, og þá einna helst til Bubba, um þessa upplifun.

Það má segja það sama um Mamma Mia. Það er verk sem ekki endilega ristir djúpt en falleg er saga um vináttu og samheldni kvenna sem er eitthvað svo æðislegt fyrir utan hvað tónlistin er klassísk og frábær. Það var aldrei kvíðvænlegt að leika í Mamma Mia, jafnvel þótt það væri sýnt tvö hundruð sinnum. Það gat verið þreytandi og maður stundum lúinn en það var alltaf gaman þegar að sýningin hófst.”

,,Fólk finnur fyrir áhrifum, vill ræða við mann. Sögur geta breytt lífi fólks og ég hef átt nokkur slík samtöl í gegnum tíðina, nógu mörg að að trúa að þetta bardús geti raunverulega haft áhrif og skipt máli.”

Aftur í pedófíla

Valur Freyr er byrjaður að æfa nýtt stykki fyrir haustið, tvíleik með Ásthildi Úu Sigurðardóttur. ,,Maður er kominn í hring því þetta er annað svona pedófílastykki. Þetta er um mann sem er dæmdur fyrir að brjóta á ungri stúlku sem leitar hann uppi mörgum árum síðar, eftir að hann hefur tekið út sína refsingu og hafið nýtt líf.”

Hann segist koma að verkinu af mikilli auðmýkt. ,,Ég á 26 ára dóttir sem er í hljómsveitinni Reykjavíkurdætur og þegar þær í hljómsveitinni koma í heimsókn fæ ég að heyra sjónarhorn ungra kvenna, sem er svo áhrifaríkt fyrir miðaldra mann eins og mig sem getur lært af þeirra upplifun. Það er því miður svo mikið af bókmenntum, leikritum og kvikmyndum sem eru skrifaðar af körlum að segja frá tilfinningalífi kvenna. Sem er svo fáránlega skakkt,” segir Valur Freyr Einarsson sem sér fram á notalegt sumar í sveitinni með frúnni áður en hann tekst á við barnaníðinginn með haustinu.

Það er nefnilega eilífðarverkefni að dytta að sumarbústað.

Hér má sjá skemmtilegar stiklur úr Fyrrverandi. Verkið er komið í sumarfrí en sýningar hefjast aftur í haust.  

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“
Fókus
Í gær

Einkaþjálfari Taylor Swift varpar ljósi á það sem hún gerir til að halda sér í formi

Einkaþjálfari Taylor Swift varpar ljósi á það sem hún gerir til að halda sér í formi
Fókus
Í gær

Kryddpíurnar með endurkomu í rosalegu fimmtugsafmæli Victoriu Beckham

Kryddpíurnar með endurkomu í rosalegu fimmtugsafmæli Victoriu Beckham
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir móður sína stórhættulega í umferðinni – „Hvernig get ég fengið mömmu til að hætta að keyra?“

Segir móður sína stórhættulega í umferðinni – „Hvernig get ég fengið mömmu til að hætta að keyra?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Travis Barker gagnrýndur fyrir að birta mynd af Kourtney á klósettinu

Travis Barker gagnrýndur fyrir að birta mynd af Kourtney á klósettinu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Bankarnir í Þýskalandi hata hana – Þetta er ástæðan

Bankarnir í Þýskalandi hata hana – Þetta er ástæðan
Fókus
Fyrir 4 dögum

Styttist í barnamenningarhátíð í Reykjavík – Vegleg dagskrá og börnin í aðalhlutverki

Styttist í barnamenningarhátíð í Reykjavík – Vegleg dagskrá og börnin í aðalhlutverki
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Í dag er þetta eitthvað sem gerir mig sterkari“

„Í dag er þetta eitthvað sem gerir mig sterkari“