fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Sóli Hólm er betri maður eftir erfiðleikana – „Ég græddi á því að fá krabbamein“

Tobba Marinósdóttir
Sunnudaginn 29. nóvember 2020 19:04

Það er bjart framundan hjá þessu efnilega pari. Mynd: Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Seinni hluti forsíðuviðtals DV sem birtist 20. 11. 2020 við sjónvarpsfólkið Viktoríu Hermannsdóttir og Sólmund Hólm. Fyrri hluta má nálgast hér.

Viktoría og Sóli eru að uppleggi mjög ólík og hlutu ólíkt uppeldi. Sóli er alinn upp af einstæðri móður að hluta til úti á landi en Viktoría í Seljahverfinu.„Ég var einhvern tímann að monta mig af því að hafa aldrei beðið foreldra mína um peninga á menntaskólaárunum. Þá var ég búinn að gleyma því að allan menntaskólann var ég að vinna við „skúringar“. Málið var þó það að mamma skúraði en ég hirti peninginn. Ég fór stundum með og tæmdi ruslið og þurrkaði af en hún gerði það yfirleitt aftur því ég gerði það svo illa. Ég get því ekki barið mér á brjóst fyrir að hafa ekki beðið um neina peninga í menntaskóla en tek þó skýrt fram að eftir það hef ég staðið algerlega á eigin fótum.“

Svona fyrir utan þvottinn?
„Já, einmitt. Ég er algjört dekurrassgat.“

Viktoría fékk ólíkt uppeldi. Hún er ekki skilnaðarbarn eins og Sóli en foreldrar hennar fögnuðu á dögunum 40 ára brúðkaupsafmæli. Hún er yngst í systkinaröðinni og á þrjá eldri bræður. „Það var alltaf mikið fjör og ég á einstaklega góða foreldra. Okkur skorti ekki neitt en maður fékk ekkert bara allt sem maður vildi. Það var bara ekki þannig þá eins og þetta er víða í dag. Við vinkonurnar byrjuðum því ungar að passa börn og sáum um heilu heimilin uppi í Seljahverfi frá því að við vorum tíu, ellefu ára. Við vorum oft að passa frá níu til sex um helgar en það skilar sér því miður alls ekki í að ég sé sérstaklega góð húsmóðir,“ segir hún hlæjandi en Viktoría hefur orð á sér fyrir að vera afar klaufsk þegar kemur að eldamennsku.

Seldi aðhaldsbuxur í bunkum

,,Við vorum bara að vinna okkur inn peninga til að geta keypt okkur franskar og nammi og eitthvað svona. Mér fannst svo merkilegt að vera í vinnu og var mjög stolt þegar ég fékk fyrstu vinnuna í snyrtivöruverslun í Firðinum í Hafnarfirði hjá mömmu vinkonu minnar þegar ég var 13 ára og seldi eldri konum aðhaldsbuxur í hrönnum. Svo fór ég að vinna í dömudeild-inni í Hagkaup og vann líka í nokkrum fatabúðum með námi. Eftir á séð finnst mér eiginlega að ég hafi unnið of mikið og hefði kannski átt að njóta þess betur að vera í námi enda er það dýrmætur tími sem líður hratt en ég hef alltaf verið svolítið að flýta mér í lífinu,“ segir Viktoría sem lærði mannfræði og hagnýta menningarmiðlun.

Þvoði hár fyrir strípum

Sóli lærði viðskiptafræði og segist þó hafa verið í sveit sem barn svo hann hafi nú ekki setið með hendur í skauti fram á háskólaárin. Fjölskylda Sóla er ættuð frá Hveragerði og býr bróðir hans þar og pabbi hans ekki langt frá.
„Ég byrjaði í sveit tíu ára gamall og var í sveit næstu fimm sumur. Þá kom maður nú heim með smá hýru eftir sumarið. Fyrsta sumarið voru það sex þúsund en síðasta sumarið þénaði ég hundrað þúsund. Mamma var alveg hissa því hún kom með ávísanaheftið að sækja mig eftir fyrsta sumarið, alveg viss um að hún þyrfti að borga fyrir pössunina.“

Viktoría hlær og Sólmundi er mikið niðri fyrir þar sem hann fer yfir glæstan feril sinn í unglingastörfum. „Ég var aldrei að vinna með skóla en í fríum vann ég. Þvoði hár á hárgreiðslustofu í jólavertíðinni og fékk strípur í staðinn. Ég var alltaf vel liðinn og það var stemming þar sem ég var. Ég var mjög vel liðinn sem einstaklingur en ekkert endilega sem starfskraftur. Ég hef oft fengið að hanga lengur í vinnu fyrir að vera hress og skemmtilegur og hef bara einu sinni verið rekinn. Ég hef líka almennt valið eitthvað annað umfram heiðarlega vinnu. Ég hætti til dæmis í vinnu sem dyravörður í Regnboganum til að einbeita mér að menntaskólaleikriti.“

Barnalánið

Sólmundur lofaði barnaherbergi handa drengjunum fyrir jólin og að sauma saman sundurgrafinn garðinn fyrir næsta vor en húsmóðirin hefur sjálf lofað kraftaverki. Hún er gengin tæpar fjórtán vikur með annað barn þeirra Sóla. Sóli á fyrir drengina Matthías og Baldvin Tómas og Viktoría á dótturina Birtu. Saman eiga þau svo hana Hólmfríði Rósu sem verður tveggja ára 29. mars.  Þegar nýja lífið lítur dagsins ljós í vor verður því fjölskyldan orðin sjö manna.

„Þetta var kannski ekki alveg á áætlun en við erum mjög glöð,“ segir Viktoría og það liggur í augum uppi að lífið þeirra saman er minna af áætlunum og meira af lífinu sjálfu. „Við vorum búin að vera saman í sex mánuði þegar við keyptum þetta hús,“ segir Sóli og ljóst er að í þeirra fjögurra ára sambandi hefur mikið gerist. Bæði ljúft og sárt.

Aðspurð um hvernig það kom til að þau urðu par kippast öll munnvik upp. „Við könnuðumst við hvort annað og vorum svo eitthvað að spjalla á Facebook,“ segir Sóli.„Ég vil meina að Viktoría hafi byrjað að tala við mig en kannski var hún ekkert að reyna við mig. Ég varð alveg rosalega spenntur fyrir henni snemma og gekk svolítið á eftir henni. Hún var nú ekkert að berja mig í burtu en ég setti meiri kraft í þetta fyrstu vikurnar. Ég varð alveg rosalega skotinn í henni. Ég var bara eins og ég væri 16 ára og réði ekkert við það og fannst það smá óþægilegt. Það var bara einhver tenging og ég hafði mikla trú á því að það væri eitthvað þarna.“

Yfirnáttúruleg ást

„Stundum ef maður leyfir sér að vera yfirnáttúrulegur og að hugsa út í það sem við sjáum ekki, þá er staðreyndin sú að ömmur okkar voru vinkonur og bjuggu á sín á hvorum bænum í Ölfusi, hlið við hlið. Voru saman í húsmæðraskóla og í mínum villtustu yfirnáttúrulegu pælingum trúi ég því að þær hafi verið að beina þessu í farveg. Mér finnst það falleg hugmynd. Við vorum bæði mjög náin þessum ömmum okkar,“ segir Sóli.

„Frænka mín og frændi, systkini ömmu úr sveitinni, kalla Sóla frænda. Við erum sexmenningar og ömmur okkar og afar voru því fjór-menningar svo þau segja alltaf frændi við hann,“ segir Viktoría. „Já, sem er óþægilegt,“ segir Sóli og hlær. Fyrsta stefnumót þeirra tilvonandi hjóna var nokkuð óhefðbundið. „Ég var að koma úr ræktinni og ákvað að kíkja í sund, ómáluð í lánssundbol.“
„Þá þóttist ég auðvitað þurfa að fara líka í sund. Ég hef aldrei gengið svona á eftir manneskju áður.“
„Svo fórum við í Mannakornsbíltúr. Og svo á Mannakornstónleika,“ bætir Viktoría við.

Þetta unga fólk virðist hafa fæðst miðaldra. Þau jánka því bæði.

Á þessum tímapunkti höfðu sameiginlegar vinkonur reynt að fá þau til að hittast þar sem augljóst þótti að þau ættu, þrátt fyrir að vera mjög ólík, mjög margt sameiginlegt. „Svo komumst við því að við höfðum bæði stundað það sem Sóli og Viktoría hafa verið saman í fjögur ár en upplifað hálfa mannsævi saman.
„Þetta gerðum við mjög reglubundið. Biðum heima eftir að þátturinn byrjaði og hringdum svo inn með grín-röddum og tjáðum okkur um heit málefni,“ segir Viktoría.
„Þetta var samt ekki tóm þvæla, við vorum með markmið og lékum ákveðnar týpur. Fyrsta markmiðið var að komast í samantektina í lok þáttar. Eða í Föstudagslagið í lok viku þegar búið var að klippa saman brot úr símatímum, ég náði því tvisvar. Það var geggjað ef maður náði því að láta Þorgeir eða Kristófer hlæja upphátt. Það var toppurinn,“ segir Sóli.
„Já, það var algjörlega toppurinn að komast í Föstudagslagið,“ segir Viktoría hlæjandi.
„Já, þetta er skrítið, ég vissi ekki um neinn annan en okkur Janus vin minn sem stundaði þetta þar til ég hitti Sóla.“

„Þó Viktoría sé ekki eins athyglissækin og ég og sé mun rólegri þá erum við að mörgu leyti mjög lík. Við erum mjög gamlar sálir. Við erum ekki spennt fyrir nýjum hlutum, við viljum bara skoða það gamla aftur og aftur. Við elskum til dæmis öll gömlu húsin hérna í Vesturbænum og höfum reynt að kynna okkur sögu þeirra. Bara smá nördar held ég. Svo erum við líka frekar óvínhneigð og vín liggur við skemmist hjá okkur þó okkur finnist auðvitað gaman að gleðjast í góðra vina hóp.“

Viktoría og Sóli eiga von á sínu fimmta barni. Mynd: Ernir

Keyptu hús eftir 6 mánuði

Viktoría og Sóli búa sem áður segir í fallegu tvíbýli í miðbænum. „Þetta gerðist allt mjög hratt. Við vorum ekkert að leita okkur að húsi,“ segir Viktoría. „Við vorum nýbyrjuð að vera saman og krakkarnir byrjaðir að kynnast – og það gekk ekki einu sinni það vel. Dóttir hennar og yngri sonur minn voru eins og hundur og köttur enda bara eitt og hálft ár á milli þeirra. Þau eru ólíkar týpur en það er eiginlega skrítið hvað þau eru lík útlitslega,“ segir Sóli.
„Það var búið að benda okkur á það hvað þau voru lík áður en við kynntumst,“ segir Viktoría.

Þar kom að þau fengu augastað á húsi sem var síðan búið að taka út af fasteignasíðum þegar þau ætluðu að fara að skoða það. Það var ekki selt heldur hafði það bara verið tekið tímabundið úr sölu. Þau náðu engu að síður í gegnum kunningsskap að smeygja sér inn til húsráðanda í kaffi og úr varð að þau keyptu húsið.

„Þetta var óþægilega snemmt. Okkur fannst alveg erfitt að segja vinum okkar frá því að við værum búin að kaupa hús. Þetta var óskynsamlegt á þessum tíma eftir bara sex mánaða samband. En húsið kallaði á okkur. Við ætluðum aldrei að gera svona mikið en ef þú ætlar að skipta um glugga, þá þarftu að klæða kringum gluggana að innan, þá er alveg eins gott að klæða alla veggi upp á nýtt, og svo framvegis.“
„Já, þetta hús hefur kennt okkur mikið. Það hefur allavega kennt okkur þolinmæði,“ segir Viktoría og viðurkennir að hafa hótað skilnaði í framkvæmdagleði sambýlismannsins.

„Við erum reyndar ekki gift. Við ætluðum að gifta okkur í sumar en frestuðum út af Covid,“ segir Sóli og vísar í að Viktoría hafi farið til útlanda með vinum sínum og keypt kjólinn.
„Hann hangir bara inni í skáp eins og lík,“ segir hún sposk.

„En húsið og allar þessar framkvæmdir hafa reynt á þolinmæði Viktoríu. Og ég er orðinn þreyttur, lotinn í herðum,“ segir hann enda hafa framkvæmdirnar meira og minna staðið yfir í þrjú ár en þó aldrei af jafn miklum þunga og nú.

„Hann Sóli veður af stað án þess að vita alveg hvað hann ætlar að gera. Hann segir bara: Þetta verður ekkert mál. En svo allt í einu erum við með fjögur börn og ekkert eldhús eða ekkert klósett vegna framkvæmda, hann segir bara þetta reddast en veit ekkert alveg hvað er næsta skref. Þetta klárast samt alltaf á endanum,“ segir hún vongóð.

Sólmundur brosir. „Þetta passar. Svo vorum við sturtulaus í eitt og hálft ár. Fórum bara í sund á hverjum degi en vorum reyndar með bað líka. Sturtan fór að leka um það leyti sem ég var að taka stera þegar ég var í lyfjameðferð við krabbameininu. Ég varð svo brjálaður að ég bara braut sturtuklefann með kúbeini. Það var vanhugsað. Eldhúsið var svipað. Átti að vera smáviðgerð en endaði í nýrri innréttingu.“

Hefur þú aldrei hótað honum?„Jú, margoft,“ svara þau samstundis samtaka.
„Það er allt miklu meiri framkvæmdir en maður bjóst við. Við biðum í fimm mánuði eftir gröfumönnum. Það nennir enginn að koma í lítinn garð í Vesturbænum þegar það er nóg að gera í stórum framkvæmdum. Við hringdum í alla gröfumenn á landinu og þeir ætluðu allir að koma en enginn lét sjá sig svo það endmeð því að Sóli leigði sér sjálfur gröfu. Svo spurði ég: Heldurðu að þú getir þetta? Heldurðu að þú veltir henni ekki? Hann hélt nú ekki en kom svo stuttu seinna inn eftir að hafa prófað gröfuna smá og sagði: Ég veit nú ekki alveg með þetta.“

„Ég byrjaði bara og varð svo betri og betri og ég skemmdi allavega ekki húsið,“ segir Sóli en pabbi hans sem er gröfumaður hjálpar honum nú við að leggja lokahönd á að loka skurðinum.
„Maður lærir líka ótrúlega mikið af því að gera hlutina sjálfur. Ég er næstum því komin með áhuga á framkvæmdum. Næstum því en ekki alveg en maður fer að spá öðruvísi í þessum hlutum,“ segir Viktoría.
„Ég hef einu sinni efast um að ég hafi valið mér rétta konu. Það var þegar ég fór með Viktoríu fyrst í parket-verslun og þetta var eins og að vera með ungling í búð. Alltaf að spyrja hvenær við færum heim.“ „Mér finnst svo leiðinlegt í svona búðum en Sóli er eins og barn í leikfangaverslun þegar hann fer að skoða gólfefni, finnst þetta skemmtilegast í heimi,“ svarar Viktoría. „Ég hef svo gaman af þessum iðnaðarmannakúltúr. Ég verð yfirleitt að fara bara ef ég er með iðnaðarmenn í vinnu því ég spjalla svo mikið að þeir komast ekkert í að vinna. Ég trufla þá bara og mælirinn tikkar. Það halda margir að ég geri allt sjálfur en það er kjaftæði. Ég er duglegur í að rífa út en ég fæ fagmenn í að setja upp,“ segir Sóli og að baki honum blasir við gullfallegt eldhús. Pabbi Viktoríu er afar fær húsgagnasmiður sem sérsmíðaði innréttinguna í eldhúsið sem er vel þess virði að hafa verið vatnslaus í einhverja daga fyrir þó vissulega sé gaman að komast stundum í sturtu.

Gúgglaði aldrei krabbameinið

Hjónaleysin keyptu sem áður segir hús eftir sex mánaða samband og þremur mánuðum seinna greinist Sólmundur með krabbamein. „Okkur var bara hent út í djúpu laugina. Það er í raun ótrúlegt að við séum bara búin að vera saman í fjögur ár, mér finnst það svo stutt miðað við allt sem hefur gerst. Það gekk í raun nokkuð áreynslulaust fyrir sig. Þannig. Viktoría er svo góð í öllu svona. Hún er svo róleg og yfirveguð. Hún er sú sem þú vilt hafa þér við hlið.“

Viktoría segist þó vel hafa skap og geti látið fólk heyra það. „Ég get verið hvöss en ég er fljót niður. Ég missi stundum stjórn á skapi mínu en ég held að þegar eitthvað svona gerist, þá sé miklu erfiðara að hugsa hvað maður myndi gera í þessum aðstæðum heldur en raunverulegu aðstæðurnar. Það var erfiðast að bíða eftir greiningunni. Þá vissum við ekkert hvað þetta var.“

„Þá heldur maður að maður sé að fara að deyja,“ segir Sólmundur sem var svo greindur með Hodgkins eitilfrumukrabbamein sumarið 2017.„Tíminn áður en það kemur í ljós er erfiðastur. Hvernig krabbamein er þetta og er þetta búið að dreifa sér? Svo kom í ljós að hann var með mjög viðráðanlegt krabbamein. Sóli bannaði mér að gúggla en ég er náttúrlega blaðamaður þannig að ég gúgglaði og las allt um þetta.“

„Ég hef aldrei, hvorki fyrr né síðar, gúgglað þetta,“ segir Sólmundur sem hefur verið laus við krabbameinið í rúm þrjú ár. „Þegar maður horfir á einhvern annan fara í gegnum eitthvað svona hugsar fólk gjarnan: Ég gæti nú aldrei tekist svona vel á við þetta. En jú, þú gætir það og þú gerir það. Maður tekst bara á við það sem lífið hendir í mann.“

„Þetta er fljótt að breytast líka. Krabbameinið sem Sóli fékk er mjög viðráðanlegt í dag en var dauðadómur fyrir nokkrum áratugum,“ segir Viktoría. Hún viðurkennir að hafa reynt að fela tilfinningar sínar fyrir fjölskyldunni á meðan á krabbameinsmeðferðinni stóð. Börnin og Sólmundur þurftu stuðning og Viktoría bregst ekki sínu fólki. „Ég held að ég hafi hringt einu sinni grátandi í mömmu og pabba. Svo ertu bara í þessu og eftir á hugsar maður: Gerðist þetta? Svo fattar maður, þetta hefur breytt okkur. Maður verður aðeins lífhræddari eftir svona reynslu og áttar sig á því að þetta getur komið fyrir alla. Maður gerir ráð fyrir því að fá einhverja sjúkdóma og lífið er ótrúlega stutt, eins mikil klisja og það er er. Þú þarft að fara að lifa lífinu. Sú reynsla er dýrmæt.“

„Þetta er lífssýn sem flestir öðlast mun seinna á ævinni. Ég hugsa öðruvísi núna og geri alltaf ráð fyrir því fjárhagslega að eitthvað gæti komið fyrir. Þess vegna legg ég upp úr því að skulda lítið því ég vil geta fleytt okkur áfram á litlum peningum. Þá skilur maður að sama skapi meira eftir sig ef allt fer á versta veg.“

Viktoría segist taka meira eftir nálægð dauðans eftir upplifun þeirra. „Maður sér veikindin í kringum sig meira eða heyrir frekar af þeim kannski.“

Sólmundur segist ekki kvíða framhaldinu og hugsa ekki um hvort krabbameinið taki sig upp aftur. „Ég pæli eiginlega of lítið í því, svo lítið að ég gleymdi að mæta í eftirfylgni um daginn. Ég er öfugt við Viktoríu miklu minna lífhræddur eftir þetta. Ekki svo að skilja að mig langi til að deyja en ég hræðist það samt ekki. Ég er mjög heppinn. Þetta hefur byggt mig upp og gert mig að betri manni. Ég græddi á því að fá krabbamein. Ég er ekki að segja að fólk geri það almennt en ég gerði það. Þetta var lexía sem ég þurfti að fara í gegnum.“

Viktoría horfir hlýlega á tilvonandi eiginmann sinn. Hann er vissulega einstakur, þrátt fyrir framkvæmdablætið og Sólmundur Hólm fann svo sannarlega þolinmóðustu konu landsins.

Viktoría og Sóli hafa tekist á við heila mannsævi á fjórum árum. Mynd: Ernir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við
Fókus
Fyrir 3 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Hver verður næst?“

„Hver verður næst?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“