fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fókus

Stórtækt jóladagatal Sólmundar og Viktoríu – „Það er enn möguleiki á að það takist“

Tobba Marinósdóttir
Laugardaginn 28. nóvember 2020 08:00

Sóli og Viktoría. Mynd: Ernir Förðun: Elín Reynis

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrrihluti Helgarviðtals DV við heiðurshjónaleysin Viktoríu Hermanns og Sóla Hólm.

Sjónvarpsstjörnurnar Viktoría Hermannsdóttir og Sólmundur Hólm hafa lært að það borgar sig að setja sem minnsta orku í leiðindi og meiri orku í ástina – og að fylla upp í skurði. Þau eiga von á sínu fimmta barni og Sóli hefur lofað þvottahúsi og samansaumuðum garði fyrir vorið. 

Aðkoman að húsinu lýsir framkvæmdagleði. Sundurgrafinn garður með mannháum skurðum er umhverfis húsið. Í honum miðjum lúrir lítil grafa ásamt stórri kerru. Hálffullar hjólbörur skreyttar frostrósum sem dansa í bleikum vetrargeislunum lofa batnandi tíð og landfyllingu. Í miðju skurðanna stendur fallegt tvíbýli sem hýsir ekki minna sjarmerandi fjölskyldu.
Fyrir utan útidyrnar standa forug stígvél húsbóndans og ljóst þykir að hér ætlar fjölskylda að festa rætur.

Þegar inn er komið blasir við hlýleg stofa og fallegt eldhús sem er hluti af jóladagatali Sólmundar Hólm. „Hann lofaði baðherbergi fyrir jólin 2018, og eldhúsi fyrir jólin 2019,“ segir Viktoría og brosir afslappað. Greinilega með húmor fyrir athafnasemi tilvonandi eiginmannsins. Hvort tveggja gerðist – reyndar löngu eftir jól.

„Það stóðst ekki. Ég er búin að lofa nýju herbergi fyrir strákana fyrir jólin núna. Það er enn möguleiki á að það takist.“
Sóli brosir. Hann er jákvæðnin holdi klædd og dugnaðurinn verður ekki tekinn af honum. Kvöld eftir kvöld, mánuð eftir mánuð stendur hann í stígvélunum ofan í skurði eða með kúbeinið á lofti.

Ég er orðinn þreyttur á þessu núna. Við ætluðum ekki að gera svona mikið í húsinu en þegar það er byrjað á einu í svona gömlu húsi þá verður að taka annað í leiðinni. Það er erfitt að hætta.“Moldargólf og engin þvottavél Húsið er á þremur hæðum og bendir Sóli stoltur á að ein hæðin sé tilbúin. „Það er reyndar ekkert gólf í kjallaranum. Það er búið að grafa hann upp. Bara mold.“ Hann brosir og veit hvernig hann er. „Þvottahúsið fór fyrir nokkrum mánuðum. Ég braut gólfplötuna og fyrst ég var búinn að því var eina vitið að taka skólpið í leiðinni. Það bætist alltaf eitthvað við.“

Aðspurður hvort það sé rétt að móðir hans Hólmfríður hafi sést með óhreinatau fjölskyldunnar úti á hlaði svarar hann hressilega: „Jú, hún þvær allt fyrir okkur. Henni finnst það ekkert mál. Ég trúi því að mömmu finnist þetta skemmtilegt.“
„Ég er ekki viss um það. Hún reyndar keypti sér nýja þvottavél og þurrkara,“ segir Viktoría.
„Já! Þegar mamma sá fram á þetta verkefni þá hugsaði hún, ég er ekki með nógu góðan búnað í þetta. Ég skutlaði henni auðvitað í leiðangur og hún keypti það allra flottasta. Frábærar græjur. Ég sótti þetta fyrir hana og tengdi tækin því ég er svo svakalega duglegur mömmustrákur.“

„Agalegt,“ segir Viktoría. „Sóla finnst þetta ekkert mál. Mér finnst það mjög mik-ið mál og alls ekki sjálfsagt að hún þvoi allt fyrir okkur. Hún er búin að þvo fyrir okkur í hálft ár,“ segir Viktoría sem virðist þó geta andað sig í gegnum flest allt. Moldargólf og þvottavélarlaust hús með fjögur börn.

Landi og hnetusmjör

Sólmundur og Viktoría hafa komið víða við á fjölmiðlaferli sínum og störfuðu um tíma bæði hjá RÚV þar sem Viktoría er enn en Sóli er á Stöð 2. Viktoría hefur vakið verðskuldaða athygli meðal annars í sjónvarpsþáttunum Landanum og Fyrir alla muni auk þess sem útvarpsþættir hennar eru eitthvað annað og meira. Hún hefur verið tilnefnd til fjölmargra Eddu-verðlauna og blaðamannaverðlauna fyrir störf sín og hefur myndað órjúfanleg tengsl við viðmælendur sína. Svo náin að einn þeirra eyddi jólunum með fjölskyldunni og vinna Viktoría og Sóli nú að heimildarmynd um þann einstakling.

Sóli stýrir gamanþáttum á Stöð 2 ásamt Gumma Ben, gaf nýverið út bók um Herra Hnetusmjör og er einn vinsælasti skemmtikraftur landsins – nú í gegnum fjarbúnað.
„Ég þráaðist við eins lengi og ég gat og ætlaði mér alls ekki að fara að skemmta fyrir framan tölvuskjá. Ég ætlaði bara að bíða þetta af mér og koma svo sterkur inn eftir faraldurinn en svo er ég búinn að grafa hérna allt í sundur og þá er óheppilegt ef það kemur ekkert inn í kassann. Maður þarf að vinna svo ég ákvað að prófa bara,“ segir Sóli og jánkar því að vissulega sé þörfin eftir skemmtun mikil núna og sjálfsagt að bregðast við því.

„Þetta er ekki leiðinlegt. Best er að gera þetta þannig að þú sjáir framan í fólk á Zoom eða Teams. Það er mikið að gera og þetta er bara gott fyrirkomulag. Það var glatað hjá mér að neita fólki án þess að prófa þetta. Þetta gengur bara vel og ég hugsa að ég verði bara fælinn þegar ég fer að skemmta mörg hundruð manns næst á sviði.“

Sólmundur hefur áður gefið út ævisögu Gylfa Ægissonar en það er langur vegur milli Gylfa Ægis og Herra Hnetusmjörs, Árna Páls Árnasonar sem er 24 ára rappari. Bókin Hingað til þykir koma skemmtilega á óvart og skín frásagnarhæfni og orðlist Sól-mundar vel í gegn. „Þetta er saga manns sem hefur frá heilmiklu að segja. Þetta er þroskasaga frekar en ævisaga. Sagan höfðar í raun til allra þeirra sem vilja skilja veruleika unglinga og ungs fólks. Það er algengt að krakkar byrji á dópi og lyfjum áður en þeir fara að drekka. Það kemur minni kynslóð spánskt fyrir sjónir.“

Viktoría tekur undir og segir bókina vera góða samtíma-sögu. „Ég er 33 ára en það hef-ur gífurlega mikið breyst frá því að ég var á þessum aldri. Ég þekki alveg þennan heim, bæði í gegnum starf mitt og af því maður þekkir fólk sem hefur verið þarna. Maður verður mjög meðvitaður um það þegar börnin manns eld-ast að það þarf að fylgjast með þeim. Það er svo auðvelt að fara yfir þessa línu.“
Sólmundur tekur í sama streng. „Það er þessi klisja að vera til staðar. Að börnin þín geti treyst þér og talað við þig. Það er það sem maður getur gert.

Seinni hluti viðtalsins birtist síðar

Sóli og Viktoría í fallega eldhúsinu á Hringbraut. Mynd: Ernir
Förðun: Elín Reynis
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður
Fókus
Í gær

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta