Föstudagur 13.desember 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fókus

Kraftmikið bókmenntaár með tilheyrandi fjölgun styrkja Miðstöðvar íslenskra bókmennta á árinu 2018

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 8. janúar 2019 13:00

Mynd úr safni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á árinu 2018 úthlutaði stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta rúmlega 300 styrkjum í öllum flokkum, sem er fjölgun frá fyrra ári. Kemur þetta fram í tilkynningu frá Miðstöðinni.

Veittir styrkir til þýðinga á erlend mál aldrei fleiri

Á árinu 2018 bárust 116 umsóknir frá erlendum útgefendum, þar af 21 til þýðinga á íslenskum verkum á norræn tungumál. Í heild voru veittir 106 styrkir til þýðinga úr íslensku. Til úthlutunar á árinu voru 16 milljónir króna auk tæpra 5 milljóna króna sem Norræna ráðherranefndin leggur til þýðinga úr íslensku á norræn tungumál. Árið 2017 bárust alls 119 umsóknir og veittir voru 96 styrkir. Þótt færri umsóknir hafi borist árið 2018, voru fleiri styrkir veittir til þýðinga íslenskra verka á erlend mál, og hafa þeir aldrei verið fleiri.

Stöðug fjölgun umsókna um styrki til þýðinga á íslensku

Á síðasta ári barst Miðstöð íslenskra bókmennta 93 umsóknir um styrki til þýðinga erlendra bókmennta á íslensku. Heildarúthlutun á árinu var 20 milljónir króna til 50 þýðingaverkefna, en auglýst er tvisvar á ári eftir umsóknum. Á árinu 2017 var tæplega 18 milljónum króna úthlutað til 44 þýðingaverkefna. Fjölgun umsókna um þýðingastyrki hefur verið samfelld undanfarin ár og til samanburðar var heildarfjöldi umsókna 87 árið 2017 og 67 árið 2016 sem var 30% aukning milli ára.

Töluvert fleiri fengu útgáfustyrk

Á árinu 2018 bárust 93 umsóknir um útgáfustyrki frá 51 umsækjanda og sótt var um ríflega 90 milljónir króna. Stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta úthlutaði 30 milljónum króna til 55 verka í þetta sinn. Það er töluvert hærri upphæð en áður en til samanburðar var árið 2017 úthlutað 23.5 milljónum til 45 útgáfuverkefna en þá barst 101 umsókn um útgáfustyrki frá 56 aðilum og sótt var um tæpar 89 milljónir króna. Útgáfustyrkir eru veittir einu sinni á ári og er þeim ætlað að styðja við útgáfu og miðlun íslenskra ritverka, þar sem kappkostað er að styrkja verk sem hafa menningarlegt og þekkingarfræðilegt gildi.

Aukin útrás bókmenntanna og ferðastyrkjum fjölgar

Fjölgun ferðastyrkja hefur verið ár frá ári. Íslenskir rithöfundar ferðast um heiminn til að fylgja þýðingum bóka sinna eftir og taka þátt í bókmenntahátíðum, upplestrum, útgáfuhófum og öðrum viðburðum. Á árinu 2018 bárust 66 umsóknir um ferðastyrki og voru 62 styrkir veittir alls að upphæð 3.5 milljónir króna. Þetta er svipaður fjöldi umsókna og árið áður þegar 67 umsóknir bárust en fleiri styrkir voru veittir í ár en þá, þegar 58 hlutu ferðastyrk.

Sýnishorn úr íslenskum verkum til kynningar erlendis

Á síðasta ári var 35 kynningarþýðingastyrkjum úthlutað, alls að upphæð tæplega einni milljón króna, en 39 umsóknir bárust. Þetta er eilítil fækkun, bæði umsókna og úthlutana á milli ára, en árið 2017 var metár og þá bárust 47 umsóknir og 45 fengu styrk. Kynningarþýðingastyrkir eru veittir til þýðinga á nokkurra blaðsíðna sýnishorni úr íslensku verki sem ætlað er að nota í kynningu erlendis. Þeir sem geta sótt um eru innlendir og erlendir þýðendur, höfundar, útgefendur og umboðsmenn.

Gróska í íslenskum bókmenntum – Nýræktarstyrkir

Nýræktarstyrkir eru veittir árlega til útgáfu á fyrstu skáldverkum höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum og til að hvetja þá til frekari dáða á þeirri braut. Styrkþegar eru valdir úr stórum hópi umsækjenda og þau verk sem þykja skara fram úr hljóta styrk. Í fyrra bárust Miðstöð íslenskra bókmennta 58 umsóknir um Nýræktarstyrki en árið 2017 bárust 57 umsóknir. Tveir höfundar hlutu styrki að þessu sinni til útgáfu skáldsögu og ljóðabókar og var styrkupphæð hvors um sig 400.000 kr. Umsóknum um Nýræktarstyrki hefur fjölgað árlega frá því þeim var fyrst úthlutað hjá Bókmenntasjóði, forvera Miðstöðvar íslenskra bókmennta árið 2008, en þá bárust 9 umsóknir og 5 styrkir voru veittir, hver að upphæð 200.000 kr.

Þýðendur íslenskra bókmennta í Gunnarshúsi

Árlega veitir Miðstöð íslenskra bókmennta, í samstarfi við Rithöfundasamband Íslands, þýðendum íslenskra bókmennta á erlend mál styrki til dvalar í Gunnarshúsi, auk ferðakostnaðar. Árið 2018 fengu fjórir þýðendur úthlutað dvalarstyrk fyrir árið 2019 en sjö umsóknir bárust. Þýðendurnir sem hlutu styrki að þessu sinni eru frá Ungverjalandi, Póllandi, Þýskalandi og Tékklandi.

Heildaryfirlit styrkja Miðstöðvar íslenskra bókmennta 2018 má sjá hér.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 2 dögum

Formaður Afstöðu undrast viðbrögð við veðrinu: „Við erum að ala upp aumingja“

Formaður Afstöðu undrast viðbrögð við veðrinu: „Við erum að ala upp aumingja“
Fókus
Fyrir 2 dögum

„Það er pungurinn!“ – Sögur og sagnir af Borgfirðingum eystri

„Það er pungurinn!“ – Sögur og sagnir af Borgfirðingum eystri
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Hvern andskotans djöfulinn eruð þið að þvælast…“ Af Gústa guðsmanni

„Hvern andskotans djöfulinn eruð þið að þvælast…“ Af Gústa guðsmanni
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hlustaðu á vinsæl íslensk jólalög komin saman í einni syrpu

Hlustaðu á vinsæl íslensk jólalög komin saman í einni syrpu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kristina syngur í stórmynd sem framleidd er af Warner Brothers – „Leikstjórinn vildi nota útgáfuna okkar“

Kristina syngur í stórmynd sem framleidd er af Warner Brothers – „Leikstjórinn vildi nota útgáfuna okkar“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Halla á von á þriðja barninu

Halla á von á þriðja barninu
Fókus
Fyrir 5 dögum

Selma og Jónbi byrjuð saman

Selma og Jónbi byrjuð saman
Fókus
Fyrir 5 dögum

Ásdís Rán ginnt í gildru: „Ég er blásaklaus og kannast ekkert við þetta“

Ásdís Rán ginnt í gildru: „Ég er blásaklaus og kannast ekkert við þetta“