fbpx
Mánudagur 22.júlí 2024
Eyjan

Orðið á götunni: Verður einhverju bjargað í Valhöll?

Eyjan
Miðvikudaginn 26. júní 2024 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Orðið á götunni er að í Valhöll sé fólk þungt á brún eftir að ný skoðanakönnun Maskínu sýndi fylgi Sjálfstæðisflokksins í 14,7 prósentum, sem er það lægsta sem nokkru sinni hefur mælst, hvort heldur í kosningunum eða könnunum.

Samkvæmt könnuninni er flokkurinn búinn að tapa 40 prósent þess fylgis sem hann hlaut í síðustu kosningum og hlyti níu þingmenn, tapaði sjö.

Orðið á götunni er að þvert á væntingar sjálfstæðismanna hafi sú breyting að Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, settist í stól forsætisráðherra í vor ekki orðið til þess að draga úr og snúa við fylgistapi flokksins heldur öfugt.

Í kosningunum 2021 hlaut Sjálfstæðisflokkurinn 24,4 prósent atkvæða, sem er næstminnsta fylgi sem flokkurinn hefur fengið, aðeins hrunkosningarnar 2009 hafa skilað minna fylgi, en þá fékk flokkurinn 23,7 prósent.

Orðið á götunni er að í Valhöll nagi menn sig nú í handarbökin fyrir að hafa ekki sagt komið gott með núverandi stjórnarsamstarf þegar Katrín Jakobsdóttir stökk frá borði til að bjóða sig fram til forseta. Þá hafi það verið metið svo að fylgi flokksins væri í slíku lágmarki að rétt væri að fara ekki í kosningar í sumar, staðan hlyti að batna fram á næsta ár. Þá mældist flokkurinn í 18-20 prósentum og því virðist ljóst að um marktækt fylgishrun síðan þá sé að ræða.

Orðið á götunni er að margir sjálfstæðismenn óttist nú að örlög flokksins í næstu kosningum verði svipuð og örlög Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í kosningunum 2013, eftir fjögurra ára vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, þar sem fullkominn fjandskapur og upplausn ríkti við ríkisstjórnarborðið síðustu tvö ár þess stjórnarsamstarfs, ekki ólíkt því sem nú er.

Í kosningunum 2013 töpuðu ríkisstjórnarflokkarnir um helmingi síns fylgis hvor um sig. Var ástandið raunar svo dapurt í aðdraganda kosninganna að VG greip til þess örþrifaráðs að losa sig við óvinsælan formanninn, Steingrím J. Sigfússon, og tefla fram Katrínu Jakobsdóttur sem nýjum leiðtoga. Bjargaði það því sem þá varð bjargað.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og VG hefur nú setið í hartnær sjö ár og kjósendur virðast vera búnir að fá sig fullsadda þannig að stefnir í sögulegar ófarir hjá bæði Sjálfstæðisflokknum og VG, sem virðist á mörkum þess að falla af þingi.

Nú er um ár liðið frá því að Bjarni Benediktsson útlistaði aukna hörku Sjálfstæðisflokksins í útlendingamálum. Orðið á götunni er að með því hafi hann ætlað að stemma stigu við fylgistapi flokksins yfir til Miðflokksins. Síðan þá hefur Miðflokkurinn eflst til muna og tvöfaldað fylgi sitt á sama tíma og Sjálfstæðisflokkurinn heldur áfram að skreppa saman. Nú eru Miðflokkurinn og Sjálfstæðisflokksins næstum jafnstórir

Orðið á götunni er að margir sjálfstæðismenn sjái nú fáa kosti til að bjarga því sem bjargað verður aðra en að skipt verði um forystu í flokknum fyrir næstu kosningar, sem gætu orðið með skömmum fyrirvara hvenær sem er á næstu mánuðum.

Liðnir eru þeir tímar þegar Sjálfstæðisflokkurinn gat gert sér vonir um að fá yfir 40 prósent í kosningum, en það gerðist reglulega frá stofnun flokksins og fram yfir miðja öldina. Síðast fékk flokkurinn yfir 40 prósent í þingkosningunum 1974, fyrir hálfri öld. Frá því að Bjarni Benediktsson tók við formennsku í flokknum hefur flokkurinn aldrei fengið yfir 30 prósent atkvæða og nú stefnir í að flokkurinn geti farið undir 20 prósentin, jafnvel niður undir 10 prósentin.

Orðið á götunni er að andstæðingar Sjálfstæðisflokksins eigi þá ósk heitasta að Bjarni Benediktsson haldi sem lengst um stjórnartaumana hjá Sjálfstæðisflokknum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Flugfélög: Icelandair stundvísast allra stærri flugfélaga í Evrópu

Flugfélög: Icelandair stundvísast allra stærri flugfélaga í Evrópu
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna
Eyjan
Fyrir 1 viku

Lífskjör: Kaupmáttur á Íslandi mun minni en hjá nágrannaþjóðum – þriðjungi meiri í Færeyjum

Lífskjör: Kaupmáttur á Íslandi mun minni en hjá nágrannaþjóðum – þriðjungi meiri í Færeyjum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Guðlaugur Þór hefur miklar efasemdir um fyrirhugaða þéttingu byggðar í Grafarvogi

Guðlaugur Þór hefur miklar efasemdir um fyrirhugaða þéttingu byggðar í Grafarvogi
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Stephensen: Samkeppnisyfirvöldum kippt út – eins og dómarinn sé tekinn út af og annað liðið ráði reglunum

Ólafur Stephensen: Samkeppnisyfirvöldum kippt út – eins og dómarinn sé tekinn út af og annað liðið ráði reglunum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Brynjar liggur undir feldi og íhugar vistaskipti – „Orðið flak lýsir best líðan minni núna“

Brynjar liggur undir feldi og íhugar vistaskipti – „Orðið flak lýsir best líðan minni núna“