Gylfi Þór Sigurðsson var nálægt því að ganga í raðir KFA á Austurlandi áður en hann samdi við Val í vor. Þessu heldur Mikael Nikulásson fyrrum þjálfari liðsins fram.
Eggert Gunnþór Jónsson var á þeim tíma spilandi aðstoðarþjálfari liðsins og segir Mikael að Gylfi hefði sett sig í samband við Eggert.
Mikael hætti með KFA á miðju sumri og Eggert tók við þjálfun liðsins. „Hann hefði betur komið þangað, þá hefði KFA rúllað yfir deildina og það hefði verið gaman hjá honum,“ sagði Mikael í hlaðvarpinu Chess after Dark í kvöld.
KFA leikur í 2. deild karla. „Eins og ég heyrði þetta og vissi, þá hafði hann mikinn áhuga á þessu. Það vantaði money, það fór aldrei almennilega í gang. Það var talað við aðila, hann ætlaði að vera þarna í sumar. Hann og Eggert eru bestu vinir, þegar Eggert kom i KFA þá sendi Gylfi hvort hann ætti ekki bara að koma líka.“
Mikael telur að Gylfi hefði betur notið þess að spila á Austurlandi í sumar frekar en að vera í Val. „Fótboltinn hefur verið á móti honum, út af þessu öllu. Ég tek því svona til orða, að fara í lið eins og Val hvað hefur hann upp úr því. Hann á nóg af peningum og er besti landsliðsmaður okkar frá upphafi.“
Mikel telur að lífið hefði leikið við Gylfa á Austurlandinu. „Hann hefði getað fengið frí á einni og einni æfingu, verið í golfi með besta vini sínum og fara í veiði. Fara út á bát og hafa það næs, það var það sem hann hugsaði.“
Mikael segir að fyrirtæki á Austurlandi sem eiga mikla fjármuni hafi ekki getað tekið ákvörðun um hvort þau vildu styðja það að bjóða Gylfa samning. „Þetta hefði verið rosalegt, það var eins og í mörgu öðru að þessi fyrirtæki mega skammast sín. Stuðningurinn við fótboltann er djók, Gylfi var mjög heitur á tímabili að koma.“