fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sisona

Eyjan
Fimmtudaginn 24. október 2024 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

 

Seðlabankastjóri sagði á ráðstefnu á dögunum að upptaka annars gjaldmiðils væri „sisona engin lausn.“

Evran er að sjálfsögðu ekki hugsuð sem lausn. Hún er bara verkfæri sem gæti auðveldað okkur að leysa efnahagslegan óstöðugleika og himinhrópandi misrétti í samfélaginu.

Kjósendur ættu fremur að velta fyrir sér spurningunni: Hefur seðlabankastjóra tekist að sýna fram á að krónan sé sisona góð lausn fyrir heimilin?

Hækkun raunvaxta

Þegar Seðlabankinn ákvað 9,25% vexti í ágúst var verðbólgan 6%. Raunvextir voru þar af leiðandi 3,25%. Verðbólgan var hins vegar komin niður í 5,4% þegar októberákvörðun bankans um 9% nafnvexti var tekin.

Verðbólgan lækkaði sem sagt meira en stýrivextirnir. Raunvextir hækkuðu því í 3,6% eða um 0,35 prósentustig. Það eru raunvextirnir sem bíta í fjárhag skuldsettra heimila og fyrirtækja á innlendum markaði.

Þrátt fyrir lækkun verðbólgu taldi Seðlabankinn nauðsynlegt að herða enn aðhaldið að heimilum og fyrirtækjum á innlendum markaði en ekki að lina þau. Ugglaust rétt mat.

En hvað segir þetta okkur sisona um krónuna sem verkfæri til þess að tryggja stöðugleika og stuðla að jafnri stöðu allra á fjármálamarkaði?

Heita kartaflan

Ísland fór alls ekki verr út úr heimsfaraldrinum en grannlöndin. Samt varð verðbólgan miklu hærri hér. Verðbólgutíminn hefur að auki orðið miklu lengri, vextirnir allt að þrefalt hærri og raunvextirnir fyrirsjáanlega tvöfalt hærri um mörg ókomin ár.

Kann skýringin að liggja í gjaldmiðli sem fullnægir ekki þeim kröfum sem gerðar eru til gjaldmiðla? Er hugsanlegt að af þeim sökum sé það hvorki á færi Seðlabanka né ríkisstjórnar að tryggja heimilum og fyrirtækjum á innlendum markaði sambærilegar aðstæður og í grannlöndunum?

Þessi spurning er heita kartaflan í pólitíkinni.

Ný ríkisstjórn lendir í sömu súpu

Fráfarandi stjórnarflokkar hafa heldur ekki sett nein markmið um lækkun raunvaxta. Hvernig í ósköpunum má það vera?

Sennilegasta skýringin er sú að þeim er fullljóst að það er hvorki á valdi þeirra né nýrrar ríkisstjórnar að lækka raunvextina að einhverju marki.

Þrefalt hærra raunvaxtastig en grannlöndin búa við á rætur í litlu og flóknu gjaldmiðlakerfi. Meðan ekki er meirihluti á Alþingi til að taka á þeim vanda verðum við einfaldlega að búa við hærra raunvaxtastig en aðrar þjóðir hvort sem nafnvextir hækka eða lækka.

Hvorki Seðlabankinn né fráfarandi stjórnarflokkar bjóða upp á aðra framtíðarsýn.

Án kerfisbreytingar lendir ný ríkisstjórn í sömu súpu. Og seðlabankastjóri verður áfram í þeim sporum að finna ekki sisona haldbæra lausn.

Gild afsökun fyrir næstu stjórn?

Það er ekki bara næsta ríkisstjórn sem mun sitja í sömu súpu. Heimilin og fyrirtækin, önnur en útflutningsfyrirtækin, munu sitja í þeirri súpu með henni.

Afsökun seðlabankastjóra er sú að launahækkanir hafi verið meiri hér. Höfum hugfast í því sambandi að niðurstaða kjarasamninga er ekki afleiðing af skynsemisskorti forystumanna SA og ASÍ.

Kjarasamningar endurspegla spennu á vinnumarkaði á hverjum tíma. Seðlabankinn á að tryggja jafnvægi á þeim markaði. Það tók hann mun lengri tíma en grannþjóðirnar og að auki þurfti hann að beita stríðsvöxtum.

Seðlabankastjóri verður ekki ásakaður um þekkingarleysi. Hann hefur bara sisona ekki fundið lausn með því verkfæri sem hann hefur í höndunum.

Það er svo spurning fyrir kjósendur hvort það á líka að vera gild afsökun fyrir næstu ríkisstjórn.

Evrópumet í ríkisafskiptum

Gjaldeyrishöft eru einnig óhjákvæmileg fylgja krónuhagkerfisins eins og seðlabankastjóri hefur skýrt manna best. Þau skekkja verðmyndun á öllum eignamörkuðum og valda því að markaðurinn er ekki mælikvarði á verðgildi krónunnar.

Gjaldeyrishöftin þýða að hér eru umfangsmeiri ríkisafskipti á fjármálamarkaði en í öðrum ríkjum. Þeir flokkar sem standa bjargfastan vörð um þetta Evrópumet tala svo samtímis um skaðsemi ríkisafskipta! Það hjálpar sjaldnast að tala í aðra átt en menn fara í raun og veru.

Raunvaxtahækkunin er gott tilefni til þess að ræða kerfislegar brotalamir í þjóðarbúskapnum og þversagnir í málflutningi þeirra sem verja óbreytt ástand.

Þeir sem vilja næstu ríkisstjórn vel ættu ekki að skorast undan þeirri umræðu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim
EyjanFastir pennar
29.09.2024

Björn Jón skrifar: Að vera menningarríki

Björn Jón skrifar: Að vera menningarríki
EyjanFastir pennar
28.09.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Klofningurinn á hægri væng íslenskra stjórnmála

Sigmundur Ernir skrifar: Klofningurinn á hægri væng íslenskra stjórnmála
EyjanFastir pennar
22.09.2024

Björn Jón skrifar: Ísbirnir og aðrar fjarlægar skepnur

Björn Jón skrifar: Ísbirnir og aðrar fjarlægar skepnur
EyjanFastir pennar
21.09.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Litla græna hagkerfið sem brennir olíu

Sigmundur Ernir skrifar: Litla græna hagkerfið sem brennir olíu