fbpx
Þriðjudagur 03.desember 2024
Eyjan

Sigmundur Davíð skrifar: Loftslagsráðherra talar út í loftið

Eyjan
Miðvikudaginn 27. nóvember 2024 09:40

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðlaugur Þór Þórðarson, fráfarandi loftslagsráðherra, virðist aðhyllast þá kenningu að ekki skipti öllu máli hvort eitthvað sé rétt eða rangt, sé það endurtekið nógu oft muni fólk trúa því. Líklega er hann einnig meðvitaður um tilvitnun sem höfð hefur verið eftir mörgum merkum mönnum: „Lygin getur ferðast hálfa leið í kringum heiminn á meðan sannleikurinn er að reima á sig skóna“.

Helsta framlag ráðherrans á lokaspretti kosningabaráttunnar var að rita grein í Morgunblaðið til að endurtaka enn á ný ósannindi sem hann hefur haldið fram um afstöðu mína og aðgerðir í umhverfis- og orkumálum. Greinin var nánast endurbirting greinar sama manns í sama blað um sömu mál í fyrra. En ekki bara það, hann hefur ítrekað staglast á sömu rangfærslum á Alþingi, í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum.

Iðulega var hann leiðréttur svo Guðlaugi má vera ljóst að hann fari ekki með rétt mál. En það stoppar hann ekki í að endurtaka vitleysuna. Það verður að viðurkennast að tími stjórnmálamanna í kosningabaráttu er takmarkaður og því gæti ráðherra umhverfisins hafa viljað stytta sér leið með því að endurvinna efni og treysta á að ég myndi ekki hafa tíma til að svara eina ferðina enn. Um leið er það þó traustvekjandi að honum hafi ekki tekist að finna upp nýja gagnrýni á mig og Miðflokkinn.

Raunar fann Guðlaugur Þór ekki upp útúrsnúninga sína. Þá fékk hann alla að láni frá Birni Bjarnasyni, hinum sama og tók að sér að vinna skýrslu fyrir ráðherrann um að EES-innleiðingar fælu ekki í sér neitt nema kosti.

Sögurnar hans Gulla (eða réttara sagt Bjössa) snúast flestar um tímabilið þegar ég var forsætisráðherra í ríkisstjórn ásamt flokki sem virðist ekki vilja muna eftir besta tímabili sínu í ríkisstjórn á þessari öld. Enda væri þá líklega erfitt að réttlæta hin miklu sinnaskipti flokksins.

Loftslagsráðherrann hefur ítrekað boðað slíkar álögur, bönn og regluverk í loftslagsmálum að vinstri grænir gætu, ekki alls fyrir löngu, hafa virst hófsamur miðjuflokkur í samanburði. Nýjasti pakkinn sem ráðherrann kynnti (með þrjá aðra ráðherra sér til fulltingis) fól í sér 150 aðgerðir sem flestar voru ýmist til þess fallnar að auka álögur á almenning, draga úr verðmætasköpun eða setja á ný boð og bönn. M.a. voru kynnt áform um að flýta banni við innflutningi rafmagns og dísel bíla (með enn óraunhæfari áformum en áður) og draga úr ræktarlandi fyrir landbúnað.

En um hvað snerust endurunnu sögurnar úr smiðju Björns? Alls eru þær á bilinu 3-6, eftir því hvernig er talið, og allar hafa þær verið leiðréttar. Ég læt mér því nægja að vísa í þau atriði sem fengu mesta athygli í nýjustu endurunnu útgáfu ráðherrans.

Sú fyrsta snýst um loftslagsráðstefnu SÞ sem haldin var í París fyrir tæpum áratug. Að sögn Guðlaugs hélt ég þangað með 70 manna sendinefnd. Þar virðist hann skrifa á minn reikning alla þá sem fyrir og eftir skottúr minn til Parísar héldu á ráðstefnuna (án aðkomu minnar) á vegum íslenskra stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka. Ef Guðlaugur notaði sama viðmið um eigin loftslagsfarir flaug hann ekki af stað án þess að taka með sér á annað hundruð fulltrúa.

Í París 2015 komu leiðtogar flestallra ríkja heims saman til að staðfesta samkomulag sem unnið hafði verið að í nokkur ár þar á undan. Meira og minna allir tóku þátt en bið varð eftir staðfestingu frá Íran. Ísland tók þátt enda var það útgjaldalítið, því Parísarsamkomulagið fól í sér viðmið fremur en skuldbindingar.

Engu að síður sá ég ástæðu til að biðjast síðar afsökunar á að hafa ekki verið gagnrýnni á hversu óraunhæf Parísarnálgunin hefði verið og ekki til þess fallin að leysa nokkurn vanda.

Þetta vísar Guðlaugur þó í til að skýra eigin loftslagskrossför. Hann hafi bara ekki átt annarra kosta völ. Raunin er hins vegar sú að ríkisstjórnin sem fer nú loks frá breytti óraunhæfum viðmiðum í lögbundnar þvinganir og bætti svo ítrekað í kröfurnar. Ekki aðeins leiddi hún okkur inn í loftslagsstefnu ESB (sem er utan EES) heldur einsetti sér aftur og aftur að toppa Evrópusambandið í óraunhæfum kröfum. Þegar sambandið vildi svo leggja ný og órökrétt gjöld á íslenskan almenning státuðu íslenskir ráðherrar sig af því að ætla ekki einu sinni að biðja um undanþágur.

Svo er það sagan um að ég hafi áformað að leggja sæstreng til Bretlands árið 2015 þegar þáverandi forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, sótti Ísland heim. Cameron hafði áhuga á að ráðist yrði í rannsókn á lagningu sæstrengs frá Íslandi til Bretlands. Á blaðamannafundi okkar forsætisráðherranna í Alþingishúsinu lýsti ég því yfir að ég hefði fallist á slíka rannsókn því ég teldi að hún myndi leiða í ljós að slíkt tenging þjónaði alls ekki íslenskum hagsmunum.

Þeir sem þekkja til formlegra samskipta þjóðarleiðtoga vita að það telst nánast dónalegt að taka svona til orða við hlið heiðursgests frá vinaþjóð.

Þótt ég gleðjist yfir því að undir lok kosningabaráttu finni oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík ekki betra tilefni til að hnýta í mig en þetta er ég dálítið uggandi yfir því hvað það segir okkur um þróun stjórnmálaumræðunnar. Það er engum til gagns ef hún fer að snúast um að drepa málum á dreif með því að endurtaka skáldaðar sögur og segja svo „sjáiði, hann er ekkert betri en ég“.

Það breytir þó ekki því að ég mun hér eftir sem hingað til fagna öllum sem vilja læra af reynslunni og vinna að framgangi landsins á grundvelli heilbrigðrar skynsemi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Það sem skiptir máli varðandi ESB-aðild

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Það sem skiptir máli varðandi ESB-aðild
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Um 11% atkvæða gætu dottið niður dauð

Um 11% atkvæða gætu dottið niður dauð
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Finnbjörn ómyrkur í máli og varar landsmenn við – Til standi að einkavæða heilbrigðiskerfið og endurtaka kvótafléttuna

Finnbjörn ómyrkur í máli og varar landsmenn við – Til standi að einkavæða heilbrigðiskerfið og endurtaka kvótafléttuna
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Leynivinaleikur leiðtoganna – Hver fékk hvað frá hverjum?

Leynivinaleikur leiðtoganna – Hver fékk hvað frá hverjum?