fbpx
Föstudagur 11.október 2024
Eyjan

Þorsteinn Pálsson: Viðvarandi raunvaxtafár á Íslandi ef krónan verður áfram gjaldmiðillinn

Eyjan
Fimmtudaginn 5. september 2024 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Allir stjórnmálaflokkarnir á Alþingi nema einn bjóða mismunandi útfærslur af sömu leiðinni til að lækka vaxtakostnað heimilanna. Í þeirri leið felst að halda kerfinu hér á landi óbreyttu en milda áhrifin af því með millifærslum til þeirra sem verst verða úti í raunvaxtafárinu sem hér ríkir, í stað þess að taka á kerfisvandanum sjálfum.

Þorsteinn Pálsson leggur út af orðum Bubba Morthens í pistli sínum af kögunarhóli á Eyjunni í dag, en í nýlegri grein Bubba á Vísi skrifar hann:

„Það mun einn daginn sjóða upp úr og þegar það gerist þá dugar ekki að læsa samviskuna inni, hún verður einfaldlega rifin úr brjóstum manna þar sem hún hímir bakvið hvíta rimla þeirra sem kynda bálið.“

Þorsteinn segist hafa hrokkið við er hann las þennan texta, ekki af því að hann sé mergjaður heldur vegna þess að hann gæti orðið að áhrínsorði.

Hann rifjar upp að þegar ávöxtunarkrafa breskra ríkisskuldabréfa fór í fáeina daga á sama stig er viðvarandi hér á landi hafi Bretar verið snöggir að setja forsætisráðherra sinn af.

Hann segir Bubba draga upp mynd af samfélagi andstæðna. Annars vegar sé unga fólkið sem „á ekki sjens að kaupa sér heimili“ og hins vegar séu hinir „sem ekki þurfa að bera vaxtabaggana af því að þeir voru leystir undan þeirri kvöð að nota gjaldmiðil landsins.“

Krónan sé að mati Bubba vopn þeirra sem vilja viðhalda þessari gjá og eina leiðin til að breyta þessu sé „í höndum fólks í næstu kosningum.“

Þorsteinn varpar fram spurningunni: „Hvernig verða vextir lækkaðir í næstu kosningum?“

Hann bendir á að Seðlabankinn telur 3,5-4 prósenta raunvexti nauðsynlega í fyrirsjáanlegri framtíð og út frá verðbólgu og verðbólguhorfum sé því líklegt að þeir muni fremur hækka en lækka á næstunni. Ólíklegt sé, samkvæmt þessu, að vextir fari að lækka fyrr en verðbólgan sé komin niður í verðbólgumarkmið bankans.

Þorsteinn telur fráleitt að sú leið verði farin að færa ákvörðunarvald um vexti aftur til ríkisstjórnarinnar, af því höfum við bitra reynslu því að hjartahlýja stjórnmálamanna reyndist svo mikil að verðbólgan fór í 80 prósent, kaupmáttur rýrnaði, lífeyrissparnaðurinn furðaði upp og bankarnir tæmdust.

Enginn stjórnmálaflokkur leggur til þessa lausn í næstu kosningum.

Þá sé enginn flokkur með það á dagskránni að skattleggja þá sem starfa utan krónuhagkerfisins og nota ávinninginn til að jafna vaxtabyrði allra hinna.

Eftir standi þá tvær leiðir og önnur þeirra sé til í nokkrum mismunandi útgáfum.

Þorsteinn segir fyrri leiðina vera sameiginlega stefnu ríkisstjórnarflokkanna, sem felist í að halda kerfinu óbreyttu og milda áhrifin á þá sem verst verða úti vegna raunvaxtafársins með millifærslum án þess að hækka skatta. Þessi leið viðhaldi þenslu þar sem útgjöld séu aukin án tekjuöflunar á móti

Miðflokkurinn vilji svo fylgja sömu línu og ríkisstjórnin en skera niður ríkisútgjöld á móti útgjöldum.

Samfylkingin sé líka á þessari millifærslulínu og vilji hækka skatta á móti eftir að sá flokkur setti Evrópumálin á hilluna.

Þorsteinn segir aðeins einn flokk vera með þá stefnu að taka upp evru með aðild að Evrópusambandinu, sem sé eina leiðin til að tryggja að heimilin búi við sama stýrivaxta- og raunvaxtaumhverfi og útflutningsfyrirtækin, sem skapa yfir 40 prósent þjóðarframleiðslunnar. Auk þess að tryggja jafna samkeppnisstöðu allra á heimamarkaði og gagnvart grannlöndunum muni ríkissjóður spara vaxtakostnað sem muni auka svigrúm til að efla velferðarkerfið án skattahækkana.

Eftir að Samfylkingin setti Evrópumálin til hliðar er Viðreisn eini flokkurinn sem boðar þessa stefnu fölskvalaust, skrifar Þorsteinn.

Hann hnykkir út með því að segja að þeir sem ekki hafi þolinmæði til að bíða í þrjú til fimm ár eftir leið tvö muni þurfa að hafa varanlega þolinmæði fyrir viðvarandi 3,5-4 prósent raunvöxtum, sem annars verði viðvarandi hér um langa framtíð.

Af kögunarhóli í heild má lesa hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt