fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Ráðning þjóðminjavarðar – Segir ráðherra sniðganga stjórnsýslureglur með beitingu undantekningarákvæða

Eyjan
Þriðjudaginn 30. ágúst 2022 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ákvörðun Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, að ráða Hörpu Þórsdóttur sem þjóðminjavörð hefur valdið töluverðu fjaðrafoki í samfélaginu undanfarna daga, en Harpa var skipuð í embættið án undangenginnar auglýsingar á grundvelli lagaákvæðis sem heimilar ráðherra að færa starfsmenn ríkisins til í starfi án auglýsingar.

Lilja hefur brugðist við gagnrýninni þar sem hún segir að þarna hafi verið að færa fagmanneskju úr einu starfi í annað samkvæmt skýrri heimild í lögum. Í samtali við RÚV nefndi hún þó að hún tæki gagnrýni alvarlega og velti því fyrir sér hvort rétt væri að afnema þessa heimild úr lögunum.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hefur óskað eftir samantekt á fjölda skipan embættismanna án auglýsinga undanfarið til að sjá hvort slíkar skipanir hafi aukist. Hún segist þó ekki hrifinn af því að afnema þessa heimild.

Haukur Arnþórsson, stjórnsýslufræðingur, ritaði grein um málið sem birtist hjá Vísi í dag. Þar víkur hann að umræddum lagaákvæðum sem ráðherra byggði heimild sína á skipun Hörpu á.

Undantekningarákvæði sem gerir ráðherra kleift að sniðganga stjórnsýslureglur

Haukur minnir á að um undantekningarákvæði er að ræða. Meginreglan sé sú að öll opinber störf skuli auglýst en nú hafi ráðherrar farið að beita þessu undantekningarákvæði til að ráða inn ráðuneytisstjóra og forstöðumenn ríkisstofnana. Verjanlegt geti verið að flytja menn milli jafnstæðra embætta, það er milli sambærilegra starfa. Annað gildi þó þegar verið er að færa fólk í hærri stöðu. Almennt sé þá litið sem svo á að slík störf þurfi að auglýsa.

„Meginhugmyndirnar að baki skyldunnar til að auglýsa laus störf er annars vegar að farið sé vel með almannafé; með því að ráða þann hæfasta fæst mest fyrir peningana, og hins vegar að allir standi jafnir gagnvart hinu opinbera og að verðleika þeirra séu metnir faglega og heiðarlega.

Þessum sjónarmiðum er ekki mætt þegar starfsmaður er handráðinn með flutningi milli starfa. Þá er ekki ljóst hvaða verðleikum ríkið hefði haft úr að velja, sem er hins vegar raunin þegar starf er auglýst – og ráðherrann getur ekki gefið almenningi réttmætar skýringar á forsendum ráðningarinnar að þessu leyti. Hann uppfyllir ekki skyldu sína um vandaða meðferð almannafjár.“

Þegar svona flutningur milli starfa eigi sér stað falli úr gildi ákveðnar reglur sem vanalega tryggi gæði og réttmæti ráðninga, svo sem að umsækjendur um starf geti óskað eftir rökstuðningi og ráðherra þurfi þá að rökstyðja ákvörðun sína. Þarna sé því verið að sniðganga reglur stjórnsýslunnar.

„Fyrir fáeinum árum þegar farið var að handráða eða ráða með flutningi í ráðuneytisstjórastöður og stöður forstöðumanna ríkisstofnana var látið eins og ekki þyrfti umræðu um málið – ekki þyrfti nema einfalda lagaheimild – og bingó – nú þyrfti ekki lengur auglýsingu og ekkert ráðningarferli og enginn gæti sagt neitt.“ 

Ráðherra handvelur fólkið eftir geðþótta

Nú sé það svo að hátt hlutfall ráðuneytisstjóra hafi verið handráðinn undir forystu Framsóknar, forystu sem Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn hafi síðan fylgt. Og nú þurfi að staldra við.

Nú sé það svo að ráðherra geti handvalið fólkið í kringum sig eftir eigin geðþótta með beitingu á þessu undantekningarákvæði sem Haukur telur að sé beitt alltof mikið. Svo þegar næsti ráðherra taki við ráðuneytinu sé fyrirséð að hann vantreysti ákvörðunum fyrirrennara, sem réði fólk inn án auglýsingar og án faglegs ferlis. Því sé líklegt að næsti ráðherra geri marga starfslokasamninga og flyti ýmsa til í starfi til að koma sínu fólki að.

„Þá erum við komin með að einhverju leyti pólitískt framkvæmdarvald, en ekki bara faglegt – og við höfum á síðustu misserum oft séð hvað það grefur undan opinberu valdi – einkum í Bandaríkjunum, þar sem pólitískir trúnaðarmenn sitja æðstu stöður. Hætt er við því að sama gerðist hér.

Þá erum við einnig farin að tala um að breyta að einhverju leyti eða öllu stjórnsýsluhefðum hér á landi og hverfa frá kerfi nágrannaríkjanna. Mögulega eykur þetta pólaríseringu í þjóðfélaginu – sem þá nær til framkvæmdarvaldsins.“

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs taldi kostina fleiri en gallana

Um er að ræða ákvæði í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en ákvæðið kom inn í lögin árið 2015 og svo var bætt inn öðru sambærilegu undanþáguákvæði nokkru síðar hvað varðaði tilfærslu embættismanna.

Segir um ákvæðið í frumvarpi að allt frá lýðveldisstofnun hafi verið heimilt að færa embættismenn ríkisins á milli embætta og eins megi finna heimild í lögum um stjórnarráð Íslands heimild til að færa starfsmenn milli ráðuneyta og hafi reynslan af því verið „góð og hnökralaus“. Því væru kostir fyrir lögfestingu þessarar heimildar ríkari en þeir ókostir sem heimildinni kunni að fylgja.

Þó sagði í frumvarpi að heimild væri í lögum fyrir forsætisráðherra að setja nánari reglur um tilhögun flutnings starfsmanna innan Stjórnarráðsins, en slíkar reglur gætu orðið grunnur að „nýju faglegu framgangskerfi innan stjórnsýslu ríkisins“, þá með vísan til þess að leiðbeingar um beitingu heimildarinnar hvað varði starfsmenn innan stjórnarráðsins gætu veitt leiðbeiningu um beitingu sambærilegs ákvæðis í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Í frumvarpi segir um slíka reglugerð:

„Í því sambandi þarf m.a. að huga að eftirfarandi þáttum:
     *      Að í kerfinu felist hvati til starfsmanna til að færa sig um set.
     *      Að stjórnendur sjái hag í því að hvetja til hreyfanleika starfsfólks og geri starfsmönnum sínum það kleift innan settra reglna.
     *      Að í kerfinu felist hvati til stjórnenda sjálfra til að færa sig um set.
     *      Að samræmt frammistöðumat verði tekið upp og haft til hliðsjónar við ákvörðun um flutning starfsmanna.
     *      Að komið verði upp miðlægri starfseiningu í Stjórnarráðinu sem annist stefnumótun, utanumhald og tryggi samræmda framkvæmd reglna á þessu sviði.“

Nú sjö árum síðar hefur þessi reglugerð enn ekki verið gerð.

Í umsögnum við frumvarpið er varð að lögum mátti finna harða gagnrýni á þetta fyrirkomulag. ASÍ taldi að þetta fyrirkomulag myndi stuðla að auknu ógagnsæi í ákvarðanatöku hins opinbera og að skjaldborg um þann hóp sem þegar hafi fengið störf hjá hinu opinbera myndi styrkjast um of. Bandalag háskólamanna benti á að meginregla laga væri sú að skylt væri að auglýsa allar stöður en með þessu ákvæði væri dregið verulega úr þeim sjónarmiðum sem stæðu að baki auglýsingaskyldu stjórnvalds. Undir það sjónarmið tók Félag háskólaðamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins í sinni umsögn. BSRB gerði alvarlegar athugasemdir við þessa heimild í sinni umsögn, markmið auglýsingaskyldunnar væri það að hæfasti einstaklingurinn sem völ væri á hverju sinni yrði ráðinn til starfa hjá ríkinu.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt