fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Hildur ekki með verstu mætinguna á borgarstjórnarfundi af oddvitum í framboði

Björn Þorfinnsson
Miðvikudaginn 4. maí 2022 09:23

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hildur Björnsdóttir er ekki með verstu mætingu í borgarstjórn af þeim oddvitum sem eru nú í framboði til borgarstjórnar í vor.   Líkt og Vísir greindi frá í gær fékk fréttastofa þeirra á Suðurlandsbraut ábendingu um fjarveru Hildar á fjórum fundum borgarstjórnar í röð, en fundir eru haldnir á tveggja vikna fresti. Reyndist ábendingin á rökum reist, að því er segir í frétt Vísis.  

Bar Hildur því við að hún hefði kallað inn varamann fyrir sig til þess að hún gæti einbeitt sér að framboði sínu og flokks síns. Sagði hún það ekki óeðlilegt, sérstaklega í ljósi þess að á dagskrá hefðu verið oddvitaumræður, og hún er ekki sitjandi oddviti flokks síns. Það er Eyþór Arnalds hins vegar, sem mætti á fundina.

Dagur mætir best

Við eftirgrennslan og talningu DV á mætingu borgarfulltrúa upp úr fundargerðum borgarstjórnar kom þó í ljós, sem fyrr segir, að Hildur er ekki með verstu mætingu oddvitanna í framboði. Þvert á móti er hún á pari við aðra borgarfulltrúa, ef undan er skilinn borgarstjórinn sjálfur, Dagur B. Eggertsson.

Á yfirstandandi kjörtímabili hafa 70 fundir borgarstjórnar verið haldnir og liggur fundargerð úr 69 þeirra fyrir á vef Reykjavíkurborgar.

Í færslu á samfélagsmiðlinum Facebook í gær sagðist Hildur hafa haft 90% mætingu fram að upphafi kosningabaráttu sinnar. Ef miðað er við að kosningabarátta hennar hafi hafist 1. mars stemmir sú staðhæfing. Hafði Hildur þá mætt á 58 af þeim 65 fundum hvers fundargerðir liggja fyrir.

Mætingareinkunn Hildar hefur þó dalað síðan og stendur nú, að teknu tilliti til þeirra fjögurra funda sem hún hefur ekki mætt á undanfarna 2 mánuði, í 84.1%

Dagur B. Eggertsson er sem fyrr segir með bestu mætinguna og er með skráða mætingu á 94% funda. Borgarstjóri er framkvæmdastjóri rekstrar borgarinnar og situr alla jafna undir svörum sem slíkur á fundum borgarstjórnar.

Aðrir oddvitar í framboði eru með slakari mætingu. Þannig hefur Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata hefur misst af 15 fundum og er með 78% mætingu. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, hefur misst af þrettán fundum á kjörtímabilinu sem gerir 81% mætingu og Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri Grænna, misst af 9 fundum á kjörtímabilinu sem gerir 87% mætingu. .

Hér skal þó tekið fram að DV hefur ekki aðgang að upplýsingum um ástæður fyrir fjarveru borgarfulltrúana, enda er aðeins tiltekið í fundargerð borgarstjórnar hverjir voru mættir, en ekki hverjir voru ekki mættir og hvers vegna ekki.

Leiðrétting: Samantekt DV var byggð á mætingarlista í byrjun hvers fundar sem er sýnilegur fremst í öllum fundargerðum borgarstjórnar á kjörtímabilinu. Í fyrstu frétt var ekki tekið tillit til þess að í sumum tilvikum hafa borgarfulltrúar mætt seint á fundina en tilkynningar um það er að finna í fundargerðunum miðjum. Í fyrstu frétt var sagt að Þórdís Lóa hefði misst af 21 borgarstjórnarfundi á kjörtímabilinu en þegar tekið er tillit til þess að hún hefur mætt seint á einhverja fundi, eins og aðrir borgarfulltrúar, kemur í ljós að hún hefur misst af 13 borgarstjórnarfundum á kjörtímabilinu. Sama gildir um Líf Magneudóttur en í fyrstu frétt var hún sögð hafa misst af 16 fundum en þegar tekið var með þau skipti sem hún mætti seint á fundi þá missti hún af níu fundum. Beðist er velvirðingar á þessari yfirsjón í upplýsingaöfluninni.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt