fbpx
Miðvikudagur 20.október 2021
Eyjan

Krónprins Dana kynnti sér umhverfisvæna orku á Hellisheiði

Eyjan
Miðvikudaginn 13. október 2021 14:16

Friðrik krónprins Mynd / Aðsend

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Friðrik krónprins Danmerkur heimsótti Hellisheiðarvirkjun Orku náttúrunnar í dag þar sem hann fór fyrir danskri viðskiptasendinefnd sem er að kynna sér orkumál og kolefnisförgun Carbfix við virkjunina. Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, er einnig í sendinefndinni sem hélt málþing í virkjuninni eftir að hafa farið út að niðurdælingarsvæði Carbfix og að vetnisstöð Orku náttúrunnar, VON, við virkjunina. Umbreyting rafmagns í aðra orkubera, þar á meðal vetni, er einmitt á meðal sérstakra áhugamála Dananna í viðskiptasendinefndinni. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá ON.

Fjölnýting jarðhitans áhugaverð

Í anddyri Hellisheiðarvirkjunar tók á móti krónprinsinum Brynhildur Davíðsdóttir, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur. OR er móðurfyrirtæki hvorttveggja Orku náttúrunnar og Carbfix. Brynhildur bauð hina tignu gesti og sendinefndina velkomna áður en haldið var í stutta skoðunarferð í nágrenni virkjunarinnar. Þar er Jarðhitagarður Orku náttúrunnar, þróunarsvæði fyrir vísinda- og atvinnuþróun þar sem margvísleg not jarðhitans eru í forgrunni. Þar framleiðir ON vetni sem nýtt er á farartæki, VAXA framleiðir örþörunga meðal annars með afgangsvarma frá virkjuninni, GeoSilica nemur kísil úr heita vatninu til heilsuvöruframleiðslu og nýverið hóf svissneska fyrirtækið Climeworks að grípa þar koldíoxíð beint úr andrúmslofti, sem síðan er breytt í stein með aðferðum og búnaði Carbfix. Það voru framkvæmdastýrur ON og Carbfix – þær Berglind Rán Ólafsdóttir og Edda Pind Aradóttir – sem leiðsögðu sendinefndinni um Jarðhitagarðinn.

Orka-í-X

Á meðal gesta í virkjuninni í dag var einnig sendiherra Dana hér á landi, Kirsten Rosenvold Geelan, en sendiráðið hafði skipulagt málþing um orkumál sem haldið var í Hellisheiðarvirkjun. Á meðal þátttakenda var Berglind Rán framkvæmdastýra ON. Fyrir utan áhuga á kolefnisförgun Carbfix sýndu Danirnir mikinn áhuga á því hvaða aðferðum má beita til að umbreyta rafmagni í aðra orkubera. Græn raforkuvinnsla færist mjög í vöxt en eitt viðfangsefnanna við að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi er að geta nýtt umhverfisvæna orku sem víðast. Að nýta rafmagnið beint eða af rafhlöðum hentar misvel, einkum í samgöngum þar sem kolefnisspor eldsneytisbrennslu er víða mjög mikið. Í alþjóðlegri umræðu er þetta kallað Power-to-X þar sem grundvallaratriði er betri nýting umhverfisvænnar orku sem þegar er framleidd eða tækjanna sem vinna hana og rímar mjög vel við stefnumótun Orku náttúrunnar.

Konungsfjölskyldan áður komið við sögu

Danska konungsfjölskyldan hefur áður komið við sögu orkumála í Reykjavík og var það rifjað upp í heimsókninni í dag. Fyrir réttum hundrað árum, sumarið 1921, vígðu langafi og langamma Friðriks prins, þau Kristján 10. og Alexandrína drottning, þá splunkunýja rafstöð Reykvíkinga við Elliðaár. Langalangafi Friðriks krónprins – Friðrik 8. – kom einnig í Íslandsheimsókn. Það var árið 1907. Í ferð hans um Suðvesturland, sem farin var á hestum, var meðal annars áð við Kolviðarhól, en Hellisheiðarvirkjun stendur í landi Kolviðarhóls. Þar flutti kóngur ávarp þar sem hann vísaði til ríkjanna sinna tveggja, Danmerkur og Íslands. Um þetta leiti var hart deilt um sjálfstæði Íslands og varpaði kóngur sprengju inn í umræðuna með ummælum sínum þannig að danski forsætisráðherrann hótaði að segja af sér nema kóngur drægi orð sín til baka. Það gerði hann en engu að síður varð Ísland frjálst og fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku rúmum áratug síðar, 1. desember 1918.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Burt með Birgi – Undirskriftum safnað til höfuðs Birgi Þórarinssyni – „Hann svindlaði á kjósendum“

Burt með Birgi – Undirskriftum safnað til höfuðs Birgi Þórarinssyni – „Hann svindlaði á kjósendum“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

„Þetta jafngildir því að bankarnir þrír muni ná um 750 þúsund krónum af hverri fjögurra manna fjölskyldu á þessu ári“

„Þetta jafngildir því að bankarnir þrír muni ná um 750 þúsund krónum af hverri fjögurra manna fjölskyldu á þessu ári“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Björn Leví tekur upp hanskann fyrir Birgi – „Auðvitað hefur Birgir rétt til þess að hætta í Miðflokknum núna“

Björn Leví tekur upp hanskann fyrir Birgi – „Auðvitað hefur Birgir rétt til þess að hætta í Miðflokknum núna“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Birgir með hnút í maganum og hræddur – „Eftir þetta var andrúmsloftið mjög rafmagnað”

Birgir með hnút í maganum og hræddur – „Eftir þetta var andrúmsloftið mjög rafmagnað”
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sum sveitarfélög varla sjálfbær vegna kostnaðar við þjónustu við fatlaða – Launakostnaður ein helsta ógnin við fjármálin

Sum sveitarfélög varla sjálfbær vegna kostnaðar við þjónustu við fatlaða – Launakostnaður ein helsta ógnin við fjármálin
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hálendisþjóðgarður og orkunýting tefja stjórnarmyndunarviðræður

Hálendisþjóðgarður og orkunýting tefja stjórnarmyndunarviðræður