fbpx
Mánudagur 25.maí 2020
Eyjan

Óvissa um nýjan dómsmálaráðherra: „Hugur minn í dag er hjá starfsfólki dómsmálaráðuneytis“

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 5. september 2019 12:02

Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, veltir vöngum yfir nýjum dómsmálaráðherra, sem kynntur verður á morgun á ríkisráðsfundi. Merkja má nokkra kaldhæðni í orðum hennar:

„Hugur minn í dag er hjá starfsfólki dómsmálaráðuneytis sem nú veltir fyrir sér hvaða ráðherra komi til með að mæta til starfa þar í dag. (Eða á morgun faktískt). Sit nú fundi í fjárlaganefnd þar sem starfsfólk ráðuneyta kynna ársskýrslur síðasta árs og eru í fyrsta sinn að upplifa að vera með sama ráðherra að kynna stöðu og bar ábyrgð á henni á síðasta ári,“

segir Helga Vala og virðist gagnrýna að ekki hafi náðst nægilega góð samfella með ráðherra málaflokksins:

 „Það er afskaplega jákvætt að hafa samfellu en því miður þá mun dómsmálaráðuneytið ekki ná því í bráð frekar en fyrri daginn. Munum að frá því að sjálfstæðisflokkurinn tók við umræddu ráðuneyti árið 2013 hafa að mér sýnist 7 ráðherrar komið að þessu ráðuneyti eða verkefnum þar (skipan dómara) í lengri eða skemmri tíma. Sjö ráðherrar á sex árum. Það verður fróðlegt að sjá hvað verður.“

Þrír sagðir líklegastir

Talið er að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins sé fyrsti kostur Bjarna Benediktssonar í embættið, en þar sem hann þurfi að friða bakland flokksins, sem enn er á afturfótunum vegna orkupakkamálsins, sé Brynjar Níelsson líklegur kostur.

Bent hefur verið á að millivegurinn milli Áslaugar og Brynjars gæti verið Birgir Ármannsson, sem er ekki jafn umdeildur og Brynjar og tjáir sig gjarna með hófsamari hætti. Bjarni hefur sjálfur sagt að Sigríður Á. Andersen eigi afturkvæmt í ríkisstjórnina, en það yrði ansi djarfur leikur að tefla henni fram að nýju í embættið, eftir að hún sagði af sér vegna dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu.

Kynjasjónarmiðin gætu hinsvegar vegið þyngst, ekki síst gagnvart samstarfsflokkunum, en sem stendur eru fjórar konur ráðherrar og sex karlar, í ellefu embættum.

Hyggst Bjarni kynna þingflokknum um ákvörðun sína í kvöld eða í fyrramálið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af