fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Viðsnúningur landsmanna í afstöðu til þriðja orkupakkans – Kjósendur Miðflokksins með mestar áhyggjur

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 23. október 2019 12:33

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Helmingur landsmanna segist hafa litlar eða engar áhyggjur af áhrifum þriðja orkupakka ESB á hagsmuni þjóðarinnar en um þriðjungur hefur miklar áhyggjur. Þetta kemur fram í könnun MMR sem framkvæmd var dagana 9. – 16. september 2019.

Alls kváðust 22% hafa mjög miklar áhyggjur af áhrifum þriðja orkupakkans, 12% kváðust hafa frekar miklar áhyggjur, 16% bæði/og, 17% frekar litlar áhyggjur og 33% mjög litlar eða engar áhyggjur.

MMR hafði áður mælt hversu fylgjandi eða andvígir landsmenn væru gagnvart innleiðingu þriðja orkupakkans á Íslandi en í könnun sem framkvæmd var í júní 2019 reyndust 46% svarenda andvígir innleiðingunni og 34% hlynntir henni. Má því segja að um ákveðinn viðsnúning hafi orðið í afstöðu almennings til málsins.

Miðflokksfólk áhyggjufullt

Ef litið er til stjórnmálaskoðana má sjá að skiptar skoðanir voru á meðal stuðningsfólks ríkisstjórnarflokkanna. Alls kváðust 68% stuðningsfólks Vinstri-grænna hafa litlar áhyggjur af áhrifum innleiðingar þriðja orkupakkans, samanborið við 59% stuðningsfólks Sjálfstæðisflokksins og 51% stuðningsfólks Framsóknar. Þá reyndist rúmur helmingur stuðningsfólks Vinstri-grænna (51%) hafa mjög litlar eða engar áhyggjur. Áhyggjurnar reyndust meiri hjá stuðningsfólki Framsóknar heldur en hjá stuðningsfólki hinna ríkisstjórnarflokkanna en 36% þeirra kváðust hafa miklar áhyggjur, samanborið við 17% stuðningsfólks Vinstri-grænna og 20% stuðningsfólks Sjálfstæðisflokksins.

Af stuðningsfólki stjórnarandstöðuflokkanna reyndist stuðningsfólk Samfylkingar (82%) og Viðreisnar (83%) líklegast til að segjast hafa litlar áhyggjur af áhrifum þriðja orkupakkans en stuðningsfólk Miðflokks ólíklegast (4%). Þá kváðust 90% stuðningsfólks Miðflokksins hafa miklar áhyggjur af áhrifum orkupakkans á þjóðarhagsmuni en alls kváðust 72% hafa mjög miklar áhyggjur.

Ef stjórnmálaflokkunum er skipt upp í blokkir eftir afstöðu til þriðja orkupakkans og setu í ríkisstjórn má sjá að stór hluti stuðningsfólks Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar, eða 77%, reyndist hafa litlar áhyggjur af áhrifum orkupakkans á þjóðarhagsmuni um leið og 60% stuðningsfólks ríkisstjórnarflokkanna sögðust hafa litlar áhyggjur. Þvert á móti, og eins og áður greinir, reyndust 90% stuðningsfólks Miðflokksins hins vegar hafa miklar áhyggjur af áhrifum orkupakkans.

Þá voru þeir sem kváðust fylgjandi inngöngu Íslands í ESB (80%) líklegri til að segjast hafa litlar áhyggjur en þau sem kváðust andvíg inngöngu í ESB (29%) en um tveir af hverjum þremur Evrópusinnum (67%) kváðust hafa mjög litlar eða engar áhyggjur.

Smellið á myndina til að stækka

Munur eftir lýðfræðihópum

Karlar (55%) reyndust líklegri heldur en konur (43%) til að segjast hafa litlar áhyggjur af áhrifum þriðja orkupakkans á hagsmuni þjóðarinnar en 41% karla sögðust hafa mjög litlar eða engar áhyggjur, samanborið við 23% kvenna. Þá kváðust 27% kvenna hafa mjög miklar áhyggjur af áhrifum orkupakkans en 19% karla.

Svarendur í elsta aldurshópnum (67 ára og eldri) voru líklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segjast hafa miklar áhyggjur af áhrifum innleiðingar orkupakkans (41%) en 34% þeirra sögðust hafa mjög miklar áhyggjur. Svarendur yngsta aldurshópsins (18-29 ára) reyndust hins vegar líklegastir allra aldurshópa til að segjast hafa litlar áhyggjur (55%) en 41% þeirra kváðust hafa mjög litlar eða engar áhyggjur.

Þá reyndust svarendur búsettir á höfuðborgarsvæðinu líklegri til að segjast hafa litlar áhyggjur af áhrifum pakkans á hagsmuni þjóðarinnar (55%) heldur en íbúar landsbyggðarinnar (40%) en 37% höfuðborgarbúa kváðust hafa mjög litlar eða engar áhyggjur. Þá kváðust 28% landsbyggðarbúa hafa mjög miklar áhyggjur, samanborið við 19% þeirra af höfuðborgarsvæðinu.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn