fbpx
Föstudagur 19.ágúst 2022
Eyjan

Sigurður G. veiktist eftir tímann á Rás 2: „Staðreyndin er sú að Sjálfstæðisflokkurinn bolaði mér úr starfi“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 11. janúar 2019 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigurður G. Tómasson, fyrrverandi dagskrárstjóri Rásar 2, hefur marga fjöruna sopið á ferli sínum sem fjölmiðlamaður. Í opinskáu viðtali við DV lýsir hann því hvernig hann var hrakinn úr starfi dagskrárstjóra Rásar 2 á sínum tíma og skilinn eftir atvinnulaus. Sigurður rekur það til bolabragða Sjálfstæðisflokksins í útvarpsráði sem hafi ekki unnt sér hvíldar fyrr en hann hafði verið hrakinn frá stofnuninni og hafi stundað grímulausar pólitískar ráðningar. Í kjölfar atburðanna á Rás 2 veiktist Sigurður alvarlega, fékk insúlínháða sykursýki og varð blindur í kjölfarið. Hann telur veikindi sín eiga sér orsök þeim órétti sem hann var beittur en ónæmiskerfi hans gaf sig undir álaginu.

Þetta er brot úr stóru viðtali í helgarblaði DV.

Þegar ekki tókst að bola honum úr starfi var staðan lögð niður

Við víkjum aftur talinu að umbrotatímunum á Rás 2 þegar Sigurður var flæmdur úr starfi:

„Allan tímann var flokkurinn að atast í mér með pólitískum afskiptum og ýmsum þvingunaraðgerðum. Á þessum tíma var það þannig að útvarpsráð réð fréttamenn en við réðum dagskrárgerðarfólk. En Sjálfstæðismenn vildu fá þetta líka í útvarpsráð, vildu fá að greiða atkvæði um hverjir væru ráðnir í dægurmálaútvarpið. Á bak við þetta stóð Björn Bjarnason sem varð menntamálaráðherra árið 1995. Við höfðum ráðið fólk eftir mjög faglegu mati þar sem pólitík kom aldrei til álita. Það þekkja allir sem unnu með mér á Rás 2 og vita hvernig þetta var. Við létum umsækjendur til dæmis taka viðtöl eða skrifa handrit og við héldum til haga þessum gögnum. En útvarpsráð leit aldrei nokkurn tíma á neitt af þessu og réð algjörlega eftir pólitískum línum,“ segir Sigurður.

Hann skýrir síðan frá því að þegar nálgaðist fimm ára ráðningartíma hans sem dagskrárstjóra hafi Sjálfstæðismenn róið að því öllum árum að bola honum úr starfi. „Ráðningartími útvarpsstjóra var skilgreindur fimm ár og því þurfti að endurráða hann eftir þann tíma ef hann hygðist sitja áfram. Útvarpsráð tók hins vegar upp á því skyndilega að auglýsa starf mitt laust áður en ráðningartíminn var útrunninn. Ég fékk spurnir af því að Gunnlaugur Sævar, Sjálfstæðismaður sem þá var formaður útvarpsráðs, hafi verið í laxveiði í Borgarfirði skömmu eftir að staðan var auglýst. Sagði mér maður sem þar var viðstaddur að Gunnlaugur hafi lítinn tíma haft fyrir laxveiði því hann var alltaf í símanum að plotta hverjir ættu að sækja um stöðuna og hvern ætti að ráða. Svona var nú þetta.“

Það fór nú samt svo að Markús Örn Antonsson, þáverandi útvarpsstjóri, endurréð mig þó að ég væri með minnihluta í útvarpsráði. En þá var gripið til þess ráðs að leggja niður stöðu dagskrárstjóra og ráða þess í stað ritstjóra dægurmálaútvarps. Í þessa stöðu var ráðin Sjálfstæðiskonan Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Þetta var fullkomlega pólitísk ráðning og ekkert annað. Mér var ekki boðið neitt starf í staðinn, ekki sem dagskrárgerðarmaður, ekki einu sinni starf sendils.“

Fékk sykursýki og varð blindur

Þegar þarna var komið sögu veiktist Sigurður alvarlega. „Ónæmiskerfið bilaði upp úr þessu og ég fékk sykursýki 1. Ég hef haldið því fram að það hafi verið vegna álagsins sem þessi aðför hafði í för með sér, en það er auðvitað ekki hægt að sanna það. Ég hélt fyrst bara að ég væri að verða þunglyndur af álaginu, en ég varð alveg þreklaus. En svo reyndist þetta vera insúlínháð sykursýki sem fólk fær yfirleitt ekki á fullorðinsaldri. Ég var veikur og gat ekki varið mig fyrir þessari aðför sem ég varð fyrir. Ég áttaði mig kannski ekki á því á sínum tíma, en mér varð það ljóst síðar.“

Þegar Sigurður hafði náð sér nokkuð starfaði hann um hríð sem lausamaður en svo versnaði heilsan aftur. „Sjónin fór að bila örfáum árum seinna. Þetta er augnbotnshrörnun en hún magnast upp vegna sykursýkinnar sem margfaldar hraðann á hrörnuninni.“ Um nokkurra mánaða skeið var Sigurður alveg blindur en seinni árin hefur hann oftast verið nálægt fullri blindu. Sjón hans hefur batnað eftir augnsteinsaðgerð í haust en ennþá telst hann lögblindur: „Ég sé niður fyrir fætur mér í góðri birtu, það er allt og sumt.“

Sjálfstæðisflokkurinn breyttist í alræðisflokk – VG svikarar

Sigurður segist aldrei hafa verið með pólitískan áróður í störfum sínum á Rás 2. „Það héldu reyndar margir að ég væri hinum megin í pólitíkinni vegna tilhneigingar minnar til að rétta hlut þeirra sem hallað var á í umræðunni hverju sinni. En staðreyndin er sú að Sjálfstæðisflokkurinn bolaði mér úr starfi, það er nú ekki flóknara en það. Það eru margir Sjálfstæðismenn í minni fjölskyldu og ég á marga vini sem eru góðir Sjálfstæðismenn. Þegar ég var um tíma borgarfulltrúi Alþýðubandalagsins kynntist ég mjög góðum Sjálfstæðismönnum í borgarstjórn. Það sem fór með þennan flokk, sem áður var víðsýnn og opinn, voru alræðisöfl er tóku völdin í kringum 1990. Afleiðingarnar eru þær, að í dag er þetta um fjórðungsflokkur í þingi en var áður í um 40% fylgi og gat valið sér samstarfsflokka í ríkisstjórn. Og Sjálfstæðisflokkurinn á aldrei aftur eftir að ná meirihluta í borginni.“ Sigurður telur að hörð stefna flokkadrátta, stjórnsemi og undirróðurs hafi grafið undan flokknum og valdið því að hann hafi misst mikið fylgi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt