fbpx
Fimmtudagur 23.júní 2022
Eyjan

Stórisannleikur – Jón Steinar Gunnlaugsson

Trausti Salvar Kristjánsson
Þriðjudaginn 9. janúar 2018 08:38

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Steinar Gunnlaugsson

Jón Steinar Gunnlaugsson ritar:

Hér getur að líta „matsblað“ umsagnarnefndar um 33 umsækjendur sem sóttu um 15 embætti dómara við Landsrétt s.l. vor. Hafa margir þeirra, sem tekið hafa þátt í almennum umræðum um málið, talið að hér væri um að ræða stórasannleik um niðurröðun umsækjenda eftir hæfni. Frá henni hafi ekki mátt víkja.

Meira að segja sjálfur Hæstiréttur Íslands hefur talið í tveimur dómum nýverið að það þarfnaðist sérstakrar rannsóknar hjá ráðherra að víkja í tillögum sínum til Alþingis frá þeirri niðurröðun sem fram kemur á þessu blaði. Og það eins þó að lagaákvæði hafi kveðið skýrt á um heimild ráðherrans til þess arna án þess að þar væri minnst á slíka skyldu. Rétturinn toppaði svo sjálfan sig með því að dæma mönnum miskabætur fyrir að hafa ekki fengið starf sem þeir sóttu um en fengu ekki. Það er eins gott fyrir ríkissjóð að leggja til hliðar fjármuni til að eiga fyrir útgjöldum af þessu tagi í framtíðinni.

Ef blaðið er skoðað sést þegar í stað að niðurröðun umsækjendanna byggist á algerlega ótækum aðferðum. Búin eru til „matshólf“ og kveðið á um hvert vera skuli vægi hvers og eins hólfs. Hér er ekki verið að meta hæfni. Hafi átt að raða umsækjendum eftir aðferð matsblaðsins þurfti varla matsnefnd til. Fyrir liggur að einkunnagjöf í hverju hólfi ræðst fyrst og fremst af þeim tíma sem viðkomandi umsækjandi hefur sinnt viðkomandi starfsþáttum. Þetta mátti allt finna út án þess að sett væri í nefnd.

Þessar aðferðir fela því ekki í sér mat á hæfni umsækjenda. Miklu fremur má segja að með þeim sé verið að komast hjá því að leggja mat á raunverulega hæfni þeirra. Taldir eru út verðleikar í hverjum kassa og samanlagðir
verðleikarnir látnir ráða niðurstöðunni.

Allir mega vita að hæfni manna á tilteknu fræðilegu sviði getur ekki ráðist af því að viðkomandi hafi komið víða við á ferlinum. Þvert á móti kann slíkur ferill að benda til þess að viðkomandi sé ekki vel hæfur og hafi þess vegna ekki getað haldist lengi í hverju því starfi sem hann kann að hafa lagt fyrir sig. Sá hæfasti í hópnum kann að hafa ráðist til ákveðinna starfa í upphafi síns ferils (sem dómari, lögmaður, kennari eða stjórnsýsluhafi) og sýnt svo mikla hæfni í lögfræðilegum efnum að sóst hefur verið eftir því að hann léti ekki af starfi sínu. Slíkur maður á ekki möguleika í excelaðferð matsnefndar því hann fær ekki stig í öðrum kössum en þeim sem hann hefur alla tíð dvalist í með svo farsælum hætti.

Á hinn bóginn má vel vera að annar umsækjandi, sem komið hefur víða við á starfsferlinum, hafi sýnt það og sannað í verkum sínum að hann ætti aldrei að verða skipaður dómari. Hann kann þannig að hafa sannað vanhæfni sína, jafnvel á hverju starfssviðinu á fætur öðru. Slíkur maður skorar miklu fleiri stig í excelskjali dómnefndar heldur en sá hæfasti eftir sjónarmiðunum að framan. Það er svo kostulegt að heyra alþingismenn nota þetta sem tilefni til að koma höggi á dómsmálaráðherrann. Þeim ætlar seint að skiljast að lágkúran í
málflutningi þeirra sjálfra er helsta ástæðan fyrir vantrú almennings á hæfni þeirra. Þeir eru reyndar svo heppnir að mælingin á henni hefur aldrei ratað í excel. Og ríkisrekni fjölmiðillinn tónar undir og segir af þessu fréttir dögum saman, án þess að víkja nokkru sinni að því sem mestu skiptir um mat á hæfni
umsækjendanna.

Við skulum syngja saman línuna sem sá mæti söngvari Freddie Mercury söng:

„The show must go on“. Og taki nú allir undir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Diljá Mist vill meira af „harða hægrinu“

Diljá Mist vill meira af „harða hægrinu“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Kolbrún segir að VG geti ekki stimplað sig út af náttúruverndarvaktinni þó að flokkurinn sé í stjórnarsamstarfi

Kolbrún segir að VG geti ekki stimplað sig út af náttúruverndarvaktinni þó að flokkurinn sé í stjórnarsamstarfi