Útganga Breta úr Evrópusambandinu er orðin að veruleika. Útgangan mun hafa sín áhrif á enskan fótbolta.
Félagaskiptaglugginn í Evrópu verður opinn til 1. febrúar. Líklegt er að félagaskiptin á Englandi verði ekki jafn mörg í glugganum núna eins og venjulega.
Þetta eru meðal áhrifa sem BREXIT hefur á enskan fótbolta:
- Leikmenn frá öðrum Evrópulöndum þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði eða fá undanþágu til að fá atvinnuleyfi sem gefur þeim þá leyfi til að vinna sem knattspyrnumenn.
- Kerfi byggt á stigum verður tekið í notkun. Leikmenn frá Evrópusambandsríkjum þurfa að fá ákveðið mörg stig til að mega spila á Englandi. Leikmaður fær leyfi til að spila ef hann hefur tekið þátt í ákveðinni prósentu landsleikja undanfarin tvö ár.
- Leikmenn í liðum í efstu tíu sætum heimslista FIFA þurfa að hafa spilað 30% leikja undanfarin tvö ár. Prósentutalan hækkar eftir því sem liðin eru neðar á listanum.
- Reglur FIFA segja að leikmenn á aldrinum 16-18 ára mega fara á milli félaga ef þau eru bæði á sama svæði, eins og Evrópusambandinu. Því má til dæmis ungur leikmaður frá Barcelona ekki fara til Arsenal samkvæmt reglum FIFA.
Áhrifin geta þó einnig verið jákvæð. Ungir leikmenn á Englandi gætu fengið aukin tækifæri. Akademíur félaganna munu skipta meira máli þar sem félögin þurfa að einbeita sér að uppöldum leikmönnum. Einnig gæti verð á ungum Englendingum hækkað.