Pepsi Max-deild karla hefst á laugardag þegar stórveldin Valur og KR eigast við. Mikil spenna er fyrir deildinni en deildin hefst tæpum tveimur mánuðum síðar en áætlað var vegna kórónuveirunnar.
Stjarnan er eitt þeirra liða sem stefnir á sigur í deildinni en fyrsti og eini titill Stjörnunnar í efstu deild kom árið 2014.
Til að Stjarnan geti átt möguleika á þeim stóra þarf besti leikmaður liðsins, Hilmar Árni Halldórsson að halda uppteknum hætti. Hilmar hefur verið jafn besti leikmaður deildarinnar síðustu ár.
Haraldur Björnsson ræðir um Hilmar í skemmtilegu spjalli við Fótbolta.net sem kallast Hin hliðin. Haraldur var spurður að því hvaða samherji hefði komið honum mest á óvart.
„Hilmar Árni mest down to earth gaur sem ég hef kynnst, besti leikmaðurinn í deildinni en alltof svo sultu slakur, les heimspeki, swæpar Tinder og skorar svo bara perlur þess á milli. Topp eintak,“ sagði Haraldur við Fótbolta.net um þennan öfluga pilt úr Breiðholtinu.