Alex Þór Hauksson er íslenskur knattspyrnumaður sem landsmenn eru farnir að kannast við eftir fjögur góð ár í efstu deild með Stjörnunni. Alex spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir Stjörnuna aðeins 17 ára gamall, eftir að hafa byrjað ferilinn á Álftanesi og vakti þar verðskuldaða athygli. Það kom kannski mörgum á óvart þegar nafnið Alex Þór Hauksson var á leikskýrslu og jafnvel í byrjunarliði Stjörnunnar fyrir fyrsta leik í Pepsideildinni árið 2017. Alex lék heila 17 deildarleiki það tímabil og vakti verulega athygli fyrir frammistöðu sína. Síðan þá hefur Alex haldið sæti sínu sem lykilmaður í sterku liði Garðbæinga.
Við fengum þennan stórefnilega miðjumann til að rifja aðeins upp ferilinn til þessa og hvað gerði hann að þeim leikmanni sem hann er í dag. „Ég var í Álftanesi í yngri flokkum og þar var ég algjör meðaljón, ég var bara ágætur, alltaf í A-liði, en aldrei bestur eða neitt þannig. Það var ekki fyrr en í fimmta flokki sem ég byrjaði að fá brennandi áhuga á þessu og var alltaf úti á velli. Það var í fimmta flokki sem ég áttaði mig á því að þetta væri það skemmtilegasta sem ég geri. Síðan þá hef ég verið með hrikalega mikla ástríðu fyrir þessu.“
12 ára með meistaraflokki
Það eru ekki allir knattspyrnumenn, í raun mjög fáir, sem geta montað sig af því að hafa spilað meistaraflokksleik aðeins 12 ára, Alex fékk óvænt tækifæri árið 2012 þegar Álftanes spilaði í 3. deildinni. Alex kom inn á sem varamaður þegar örfáar mínútur voru eftir, en Álftanes tapaði þeim leik 5-1 gegn Hugin. Við fengum hann til að fara aðeins yfir hvað gekk á og af hverju 12 ára gutti væri að spila leik í meistaraflokki. „Ég var 12 ára og Þórhallur Dan var þá þjálfari í meistaraflokki. Álftanes var í þriðju deildinni og það var þunnt í mannskapnum á þeim tíma og enginn 2. eða 3. flokkur. Þetta var næsti flokkur á eftir og það vantaði nafn til að fylla upp í skýrslu. Valið stóð á milli mín og Magga Bö, vallarstjóra KR, og Þórhallur treysti mér fyrir því hlutverki að vera á bekknum, sem ég skil enn þá ekki í dag. Þeir sem hafa séð Magga Bö í strikernum vita að hann skilar alltaf mörkum! Ég hef ekki lagst í neina rannsóknarvinnu til að finna út hvort þetta sé met eða ekki en ég efa að það hafi verið bætt. Mér finnst það alveg hæpið! Þetta var hvað, 2012, ég var 12 ára að verða 13.“
Alex er aðeins tvítugur að aldri og á svo sannarlega framtíðina fyrir sér. Það er þó ekki óalgengt að leikmenn séu farnir út á því aldursári. Blaðamaður spurði Alex út í áhuga að utan og einfaldlega af hverju hann væri enn að spila á Íslandi. „Það er nú bara þannig að þetta er flókið og þú þarft að vera á réttum tíma á réttum stað og það hefur ekki gerst hingað til, en það hefur ekki mikið verið að gerast ef við tökum þessi fjögur ár. Þetta hefur verið eitthvað hér og þar en ekkert alvöru áþreifanlegt. Núna fór allt í stopp út af COVID, en við sjáum hvað gerist. Það er klárlega mitt markmið að fara út og ég vona að ég nái því fyrr en seinna.“
Tveir aðalþjálfarar
Það verður öðruvísi kerfi hjá Stjörnunni á þessu tímabili, enda verða tveir aðalþjálfarar á hliðarlínunni: Ólafur Jóhannesson og Rúnar Páll. Óli Jó, eins og hann er kallaður, var síðast þjálfari Vals og vann Íslandsmeistaratitilinn tvö ár í röð. Hvernig tekur Alex í þessa breytingu og horfir hann á annan þeirra sem aðalþjálfara?
„Rúnar hefur alltaf verið við stjórnvölinn með góðan aðstoðarmann, en við höfum breytt um aðstoðarmann á hverju tímabili, þeir komu með sínar áherslur og hafa allir verið frábærir. Ég treysti honum 100 prósent fyrir því að finna einhvern traustan í starfið og svo kemur þetta, tveir aðalþjálfarar, Óli Jó og Rúnar. Ég varð um leið mjög spenntur. Maður hefur heyrt af færni Óla og ég veit hvers megnugur Rúnar er. Fyrir mér eru þetta bara tveir aðalþjálfarar og mér finnst þeir skipta þessu vel á milli sín. Þetta virkar sem einn maður og fyrir mér er enginn undir eða yfir. Ég vorkenni persónulega línuverðinum sem verður okkar megin!“
Draumaliðið
Á léttu nótunum báðum við Alex um að velja sitt fimm manna draumalið skipað leikmönnum Stjörnunnar – enda hefur miðjumaðurinn leikið með ófáum góðum spilurum í Garðabæ. Alex fær sjálfur pláss á miðjunni og valdi hann fjóra góða til að fylla upp í stöðurnar. „Vá, þetta er spurning, ég hef aldrei hugsað út í þetta. Ég tek Halla [Harald Björnsson] í markið, hann er semi auto. Hann er kominn í skepnuform með Rajko [Stanisic] sem markmannsþjálfara og verður svakalegur. Við erum að tala um Danna Lax [Daníel Laxdal] í miðverðinum. Danni er með besta leikskilning sem ég veit um, hann les leikinn fáránlega vel og er með þessi villtu hlaup fram á við, sem brjóta upp varnir andstæðinganna. Þá tek ég Hilmar Árna [Halldórsson] með mér á miðjuna. Það er frekar sjálfgefið, hann skorar og leggur upp mörkin. Ætli við tökum ekki bara villidýrið Guðjón Baldvinsson frammi til að þjösnast. Hann í ham og Guð blessi þig. Fótbolti er skemmtun og eitt af því sem ég myndi borga mig inn á til að horfa á er ungstirnið Sölvi Snær [Guðbjargarson]. Ég set hann sem svona X-faktor í liðinu. Hann er frábær í fótbolta og mjög efnilegur.“
Við fengum Alex til að ræða aðeins betur um Óla Jó og hvernig áhrif hans áherslur hafa haft á Stjörnuliðið. Óli býr sjálfur yfir gríðarlegri reynslu og var til að mynda landsliðsþjálfari Íslands frá 2007 til 2011 áður en hann tók við Haukum, Val og færði sig svo í Stjörnuna. Alex er gríðarlega ánægður með komu hans í liðið og hafði lítið annað en frábæra hluti að segja um hans áhrif hingað til.
„Óli Jó er mjög skemmtilegur og líflegur karakter. Það sem Óli Jó er frábær í eru þessi maður-á-mann samskipti við leikmenn. Það sem ég hef kynnst af honum er að hann veit nákvæmlega hvað hann vill frá leikmönnum. Ef hann fengi að ráða væri hann á æfingasvæðinu alla daga, alltaf! Hann algjörlega lifir fyrir þetta og er mjög líflegur og frábær á æfingum.“ Þrátt fyrir ungan aldur á
Alex að baki þrjá landsleiki fyrir Ísland. Hans síðasti landsleikur var gegn El Salvador þann 19. janúar síðastliðinn.Hinir tveir voru gegn Kanada og Eistlandi. Alex er að sjálfsögðu stoltur af þessum leikjum hingað til og stefnir hærra og vill meira í framtíðinni. „Ég er mjög þakklátur fyrir þessa þrjá landsleiki sem ég hef spilað og ég hef lært fullt í þeim ferðum. Það er reynsla sem mun pottþétt skila sér. Það sem peppar mig oft og hefur gert í gegnum tíðina hjá Stjörnunni er að horfa í kringum mig og sjá þá sem ég er með. Þá hugsa ég bara að á góðum degi tekur enginn neitt af okkur. Auðvitað er það gott fyrir sjálfstraustið og mótíverandi að maður sé inni í myndinni og að það sé kannski ekki alveg fjarlægur draumur að það geti verið framtíðin.“