fbpx
Þriðjudagur 08.júlí 2025
Fókus

Hvar eru þessar íslensku barnastjörnur í dag?

Auður Ösp
Föstudaginn 3. febrúar 2017 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þrátt fyrir smæð þjóðarinnar hafa þó nokkrar barnastjörnur orðið til á Íslandi í gegnum tíðina. Sumar þeirra voru áberandi á tímabili á meðan aðrar áttu langan og farsælan feril. Sumar hafa haldið áfram í skemmtanabransanum og átt miserfitt með að hrista af sér barnastjörnustimpilinn. Svo eru aðrar sem létu frægðina í barnæsku nægja og sneru sér að öðrum hlutum á fullorðinsárum.

Hótað barsmíðum

Bræðurnir Rúnar og Arnar Halldórssynir voru búsettir í Noregi á fyrri hluta tíunda áratugarins og nutu gríðarlega vinsælda þar í landi sem dúettinn The Boys. Alls komu út þrjár hljómplötur með bræðrunum, sem léku á gítara og sungu klassíska rokkslagara, íklæddir rauðum silkiskyrtum og hvítum buxum. Dúettinn leystist upp þegar bræðurnir fluttu heim til Íslands á ný árið 1996 og aðrir hlutir tóku við.

[youtube https://www.youtube.com/watch?v=IClJCg4_E2s&w=600&h=360]

Rúnar er í dag búsettur í Uppsölum í Svíþjóð þar sem hann rekur arkitektastofu ásamt fleirum. Arnar býr í Ósló og starfar sem svokallaður „design director“ á auglýsingastofu. Hvorugur þeirra ákvað að sækjast eftir frekari frama í tónlistinni eftir velgengni The Boys.

„Eftir að við komum til Íslands þá vildum við bara fá að vera venjulegir unglingar,“ segir Rúnar. Arnar rifjar upp að eitthvað hafi verið um áreiti eftir að bræðurnir komu aftur til Íslands. „Það voru alveg einhver skot. Ég man eftir atviki þar sem einhver strákur ætlaði að safna liði og berja Rúnar. Hann var svo brjálaður af því að tveimur árum áður hafði kærastan hans hætt með honum af því að hún var svo skotinn í „Rúnari úr The Boys“. Á tímabili kallaði ég mig Ella af því að ég vildi ekki vera þekktur sem „Arnar úr The Boys.“

Rúnar bætir við að eftir að þeir bræður komust á fullorðinsár hafi nánast allt áreiti hætt. „En fólk man alltaf eftir The Boys. Ég held að fólk sé ekkert að fara að gleyma okkur.“

Á sínum tíma var seldur margs konar varningur með myndum af íslensku bræðrunum, svo sem bolir, derhúfur og pennar, og einhvers staðar liggja eftir kassettur. „Úff, ég á ekkert af þessu ennþá. Ég held að mamma eigi þetta í einhverjum kössum heima,“ segir Rúnar hlæjandi. Hann segir að The Boys tímabilið hafi eingöngu verið jákvæð reynsla. „Þetta var bara rosalega gaman. Við kynntumst fjölda fólks og erum ennþá í sambandi við sumt þess.“ Arnar tekur í sama streng. „Við fengum að ferðast um Noreg og víðar um heiminn og þetta var frábær tími. Svo tóku aðrir hlutir við.“

Syngur með ítalskri metalhljómsveit

Katla María Hausmann var tíu ára gömul þegar hún sendi frá sér sína fyrstu hljómplötu þar sem hún söng spænsk barnalög. Næst kom vinsæl jólaplata, Ég fæ jólagjöf, og þar á eftir fylgdi platan Litli Mexíkaninn, og loks Katla og Pálmi þar sem Katla söng ásamt Pálma Gunnarssyni. Auk þess söng Katla inn á fjölda safnplatna.

Lítið heyrðist í Kötlu eftir að barnastjörnuferlinum lauk en hún hefur þó ekki sagt skilið við tónlistina og meðal annars sungið með ítölsku metalhljómsveitinn Lunainfea. Þá hefur hún tekið þátt í tveimur undankeppnum Eurovision.

[youtube https://www.youtube.com/watch?v=MM58pc7U264&w=600&h=360]

„Hei, Benjamín dúfa!“

Sturla Sighvatsson lék titilhlutverkið í Benjamín dúfu sem kom út árið 1994, en margir vilja meina að þar sé á ferð ástsælasta barnamynd íslenskrar kvikmyndasögu. Sturla kom fram í fleiri kvikmyndum og sjónvarpsþáttum og fór með hlutverk Emils í Kattholti í langlífri sýningu Þjóðleikhússins á verkinu. Hann lauk námi í viðskiptalögfræði við Háskólann á Bifröst og starfar í dag við fasteignaþróun og uppbyggingu og í sérhæfðum fjárfestingum. Hann hefur þó ekki algjörlega sagt skilið við leiklistina þar sem hann hefur komið að talsetningu á tugum teiknimynda undanfarin ár.

[youtube https://www.youtube.com/watch?v=Hrx4PeYH-tU&w=600&h=360]

Hann man ekki eftir að hafa orðið fyrir neikvæðu áreiti í tengslum við að hafa verið áberandi í sviðsljósinu á viðkvæmum aldri. „En þetta er svolítið súrrealískt í minningunni. Ég fékk mörg hundruð bréf send heim og man eftir heilu stelpuhópunum sem komu og bönkuðu upp á til að spjalla,“ segir hann og kveðst svo sannarlega ekki sjá eftir þessum tíma.

„Alls ekki. Þetta var frábær tími og þessi reynsla mótaði mig mjög mikið sem persónu. Þá meina ég á góðan hátt. Ég bý að þessu alla ævi. Það er þroskandi fyrir krakka á þessum aldri að að vera settur inn á ákveðinn ramma og vera að vinna í þessum fullorðinsheimi.“

Hann segir fólk svo sannarlega ekki hafa gleymt Benjamín dúfu. „Fólk er endalaust á minnast á hann við mig! Árum saman fékk ég að heyra kallað „Hei, Benjamín dúfa!“ á eftir mér niðri í bæ. Stelpur hafa komið upp að mér á barnum og sagt að ég sé æskuástin þeirra á meðan strákar hafa heimtað að fá taka mynd af sér með mér,“ segir Sturla sem kveðst þó kippa sér lítið upp við áreitið.

„Mér finnst bara frábært að sjá hvað myndin á sér fastan stað í hugum og hjörtum fólks. Hún hefur elst mjög vel, enda er þetta tímalaus og klassísk saga um falleg gildi. Ég er mjög stoltur af því að hafa verið partur af henni. Myndin er náttúrlega ekki með þennan klassíska „happy ending“ og það er örugglega þess vegna sem hún hefur haft þessi áhrif á fólk. Hún tikkar í öll boxin.“

Spáði lítið í frægðina

Örvar Jens Arnarsson var tíu ára gamall þegar hann fór með hlutverk Tómasar í kvikmynd Friðrik Þórs Friðrikssonar, Bíódagar. Myndin segir frá tímabili í lífi tíu ára gamals drengs á sjöunda áratugnum í Reykjavík og á sér fastan sess í hugum margra Íslendinga. Það þarf ekki að koma á óvart þar sem ófáir eiga ljúfar minningar um Kanasjónvarpið, Roy Rogers og Spur-kóla.

„Leiklistarferlinum lauk eftir þetta. Hún náði mér aldrei, þessi klassíska leiklistarbaktería. En í dag gera vinir mínir stundum góðlátlegt grín að mér og finnst gaman að rifja myndina upp,“ segir Örvar sem er menntaður viðskiptafræðingur og býr í Vínarborg þar sem hann starfar hjá Alþjóða kjarnorkumálastofnuninni.

Hann segir það hafa verið heilmikla lífsreynslu fyrir 11 ára strák að fá að vera partur af kvikmyndateymi og upplifa þann iðnað. Það hafi þó truflað hann lítið að vera í sviðsljósinu á sínum tíma. „Þetta var til staðar og myndin var á tímabili úti um allt en ég var bara áfram 11 ára pjakkur sem var á fullu á skíðum og í fótbolta og var mjög lítið að spá í þetta.“

Örvar tekur undir það að myndin hafi óneitanlega skapað sér sess í huga margra Íslendinga, enda bregður þar fyrir ódauðlegum persónum og eftirminnilegum frösum sem lifað hafa með þjóðinni. „Mér er sérstaklega minnisstætt að heyra krakka syngja í sífellu laglínuna: „Rin, tin, tinn, reka hann … tja svo er endirinn svolítið dónalegur,“ segir hann hlæjandi.

Frægðin var ekki dans á rósum

Það má með sanni segja að Ruth Reginalds sé ein allra skærasta barnastjarna Íslandssögunnar en hún söng inn á sína fyrstu metsöluplötu árið 1975, þá tíu ára gömul. Í kjölfarið fylgdu sex stórar plötur á fimm árum. Hún varð landsþekkt og sló í gegn með fjölmörgum lögum á borð við Róbert bangsi, Ósk mín skærasta, að ógleymdu Reykingalaginu. Hin unga stjarna var áberandi í sviðsljósinu: kom fram í fjölmiðlum og söng opinberlega og ferðaðist um landið með poppsveitinni Brunaliðinu.

Frægðin var þó ekki alltaf dans á rósum fyrir Ruth sem gerði upp barnastjörnutímabilið í ævisögu sinni sem kom út árið 2003 og greindi meðal annars frá grimmilegu einelti af hálfu skólafélaga sem áttu erfitt með að sætta sig við vinsældir hennar. Hún kveðst hafa sokkið djúpt í neyslu áfengis og fíkniefna á unglingsárum, um svipað leyti og hún söng með rokk- og pönkhljómsveitum en fór loks í meðferð 21 árs gömul. Næstu árin söng hún inn á ýmsar safnplötur og kom fram í sönglagakeppnum og þá kom sólóplata hennar, Ruth, út árið 2000, sú fyrsta í 20 ár.

[youtube https://www.youtube.com/watch?v=UHN9sYmPryA&w=600&h=360]

Ruth fluttist til Bandaríkjanna árið 2005 og er nú búsett í Vista í Kaliforníu ásamt bandarískum eiginmanni sínum og níu ára dóttur. Lítið hefur heyrst í henni á tónlistarsviðinu síðustu misseri.

Leiddist ekki hyllin

„Af okkur er allt gott að frétta. Við búum á Costa del Sol á Torremolinos og höfum búið hér síðan tökum á myndinni lauk. Við eigum báðir börn með spænskum konum og líkar lífið vel hér,“ segir Vilhelm Jósefs Sævarsson en hann og bróðir hans, Páll Jósefs Sævarsson urðu landsþekktir árið 1981 þegar þeir léku hina uppátækjasömu Jón Odd og Jón Bjarna í samnefndri kvikmynd Þráins Bertelssonar.

Í samtali við Morgunblaðið árið 2011 greindi Vilhelm jafnframt frá því að þeir bræður hefðu notið talsverðar hylli á meðal stúlkna eftir að myndin kom út, og það hafi þeim ekki fundist leiðinlegt.

„Stelpurnar létu okkur ekki í friði eftir að myndin var frumsýnd. Einu sinni komum við fjórir saman, ég, bróðir minn og tveir vinir okkar, á samkomu í Tónabæ. Þá kallaði plötusnúðurinn: „Kvikmyndastjörnurnar eru komnar!“ Og stelpurnar hópuðust svo um okkur að við hlupum burt og læstum okkur inni á klósetti. Þegar við sluppum út yfirgáfum við staðinn. Okkur fannst þetta ógurlega gaman.“

Bræðurnir fluttust seinna til Costa del Sol ásamt móður sinni og hefur hvorugur komið nálægt leiklistinni síðan. Vilhelm segir að vissulega hafi það komið til greina en ástríðan hafi þó aldrei verið nógu sterk. Hann segir þá bræður lítið hafa fundið fyrir vinsældum myndarinnar í seinni tíð. „Einhverjir hafa jú spurt hvort við séum ekki strákarnir sem léku Jón Odd og Jón Bjarna. En lítið meira.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Kardashian-fjölskyldan í áfalli: Náin vinkona Caitlyn Jenner lést í bílslysi aðeins 29 ára gömul

Kardashian-fjölskyldan í áfalli: Náin vinkona Caitlyn Jenner lést í bílslysi aðeins 29 ára gömul
Fókus
Fyrir 4 dögum

Leikarinn Michael Madsen látinn

Leikarinn Michael Madsen látinn
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jennifer og Ben taka óvænta ákvörðun ári eftir skilnað

Jennifer og Ben taka óvænta ákvörðun ári eftir skilnað
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kate Beckinsale útskýrir af hverju hún er búin að grennast svona mikið

Kate Beckinsale útskýrir af hverju hún er búin að grennast svona mikið
Fókus
Fyrir 5 dögum

Aðdáendur agndofa eftir að leikkonan birti mynd af sér með ketti sínum – „Þetta er ekki í lagi“

Aðdáendur agndofa eftir að leikkonan birti mynd af sér með ketti sínum – „Þetta er ekki í lagi“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Khloé Kardashian greinir frá öllum fegrunaraðgerðum sem hún hefur gengist undir

Khloé Kardashian greinir frá öllum fegrunaraðgerðum sem hún hefur gengist undir