

Fyrrum varnarmaður Manchester United, Rio Ferdinand, hrósaði miðjumanninum Casemiro í hlaðvarpi sínu og tók um leið upp gömul orðaskipti við Jamie Carragher.
Casemiro, 33 ára, hafði átt erfitt uppdráttar síðan hann kom til United frá Real Madrid sumarið 2022 fyrir um 70 milljónir punda. Nú síðustu vikur hefur hann þó sýnt batamerki og gegnt lykilhlutverki í þremur sigrum liðsins í röð.
Brasilíumaðurinn hefur verið fastamaður á miðju Ruben Amorim ásamt Bruno Fernandes og Ferdinand telur hann vera að nálgast sitt besta form á ný.
„Hann byggði upp stórkostlegan feril, vann Meistaradeildina fimm sinnum með því að vera límið milli varnar og miðju, maðurinn sem fyllti í götin og hélt skipulagi hjá Real Madrid,“ sagði Ferdinand í Rio Ferdinand Presents hlaðvarpinu.
„Hann átti ekki að hlaupa út um allt eða skapa færi, hann var sá sem hreinsaði upp og stjórnaði svæðinu. Núna erum við að sjá aftur gamla Casemiro.“
Ferdinand notaði tækifærið til að minna á orð Carragher í fyrra, þegar sá fyrrnefndi sagðist telja Casemiro vera kominn á endastöð.
„Carragher sagði þá að hann ætti að ‘hætta í fótbolta’, sem mér fannst algjör óvirðing,“ sagði Ferdinand.
„Við erum að tala um mann sem hefur unnið fimm Meistaradeildartitla. Leikmenn missa stundum form og sjálfstraust, en það að segja slíkt um leikmann af þessari stærðargráðu var bæði ótímabært og óvirðulegt.“