

Samkvæmt fréttum Daily Mail Sport stefnir í að aðeins einn leikur verði spilaður í ensku úrvalsdeildinni á annan í jólum í ár. Þetta væri í fyrsta sinn í áratugi sem hefðbundinn „Boxing Day“ fótbolti myndi nánast hverfa úr dagskránni.
Ástæðan er sögð felast í þéttu leikjaprógrammi vegna stækkunar Evrópukeppna UEFA og þeirri ákvörðun að enski bikarinn (FA Cup) verði framvegis spilaður eingöngu um helgar. Þessi breyting hefur þrengt að dagatali úrvalsdeildarinnar, sem samkvæmt samningum þarf að tryggja 33 umferðir um helgi fyrir sjónvarpsréttarhafa.
Þar af leiðandi er líklegt að annar dagur jóla verði nýttyr sem hluti af lengri umferð sem nær yfir laugardag, sunnudag og mánudag, svo uppfylla megi samningsskilmálana. Engin endanleg ákvörðun hefur þó verið tekin og ekki er ljóst hvaða leikur verður valinn sem hátíðarleikur ef aðeins einn verður á dagskrá.
Úrvalsdeildin hafði lofað að birta dagskrá sjónvarpsleikja fyrir desember og janúar þann 15. október, en hún hefur enn ekki verið birt.
Á meðan munu neðri deildirnar, Championship, League One, League Two og National League halda í hefðina með heilri umferð á annan í jólum.
Síðast þegar færri en þrír úrvalsdeildarleikir fóru fram á þessum degi var árið 1982, þegar enginn leikur var spilaður. Deildin er þó bjartsýn á að hefðin snúi aftur næsta ár, þegar dagatal næstu jóla verður hagstæðara.