Manchester United stefnir að því að verða fyrsta enska knattspyrnufélagið sem býður upp á svokölluð „seat licences“, sæta-leyfi á nýjum leikvangi sem áætlað er að kosti 2 milljarða punda og opni árið 2030.
Ef félagið nær aftur í Evrópukeppni fyrir þann tíma, gæti það jafnframt orðið fyrsta félagið í Evrópu sem innleiðir slíkt kerfi.
Sæta-leyfi, eða Personal Seat Licences (PSL), eru algeng í bandarískum íþróttum og eru aðskilin frá ársmiðum. Leyfið veitir stuðningsmönnum rétt til að eiga tiltekið sæti í ákveðinn tíma gegn greiðslu, og er gjarnan notað til að fjármagna nýja leikvanga.
Þeir sem kaupa slíkt leyfi þurfa samt að greiða sérstaklega fyrir ársmiða, en geta selt leyfið áfram ef þeir kjósa að endurnýja það ekki sjálfir.
Samkvæmt enskum blöðum verður um valkvætt kerfi að ræða sem fyrst og fremst snýr að dýrari sætum og lúxussvæðum á vellinum.
Hefðbundnir ársmiðar verða áfram í boði árlega og veita aðgang að miðum á útileiki og úrslitaleiki í bikarkeppnum. Hins vegar munu þeir sem kaupa sæta-leyfi en endurnýja ekki ársmiða, missa leyfið.
United sendi í vikunni út könnun til að meta áhuga stuðningsmanna á kerfinu.