Atvikið átti sér stað í ágúst þegar eiginmaður Kristen – sem ekki hefur verið nafngreindur í bandarískum fjölmiðlum – hélt matarboð fyrir fjölskyldu og vini.
Nokkrum dögum síðar drakk hann afgangs vín úr veislunni en veiktist alvarlega strax í kjölfarið. Var það móðir hans sem fann ringlaðan eftir símtal seint um kvöld og flutti hann undir læknishendur.
Hann var lagður inn á sjúkrahús með einkenni sem læknar tengdu við eitrun af völdum ethylene glycol – efni sem yfirleitt finnst í frostlegi.
Við rannsókn málsins kom í ljós að Hogan hafði leitað á netinu að upplýsingum um banvæna skammta af efninu nokkrum vikum fyrir atvikið. Hún viðurkenndi síðar í skýrslutöku að hafa sett eitrið í vínið, en hélt því fram að hún hefði aðeins ætlað að gera hann veikan í hefndarskyni fyrir meint andlegt ofbeldi hans. Markmiðið hefði ekki verið að drepa hann.
Hogan viðurkenndi einnig að hafa áður blandað sama efni í te eiginmannsins, en þau eru skilin að borði og sæng.
Fórnarlambið sagði hins vegar við lögreglu að hann teldi að tilgangur hennar hefði verið að komast yfir hús þeirra og fá fullt forræði yfir barninu þeirra. Að sögn Fox News hafði Hogan aðgang að heimili mannsins og var síðasta manneskjan sem var þar áður en hann veiktist.
Verði Hogan fundin sek gæti hún átt margra ára fangelsi yfir höfði sér.