Það eru í raun ótrúlegir hlutir að gerast í lífi stjörnunnar Serge Aurier sem gerði garðinn frægan með Paris Saint-Germain.
Aurier er 32 ára gamall í dag en hann er á mála hjá Persepolis í Íran í dag og kom þangað fyrr á þessu ári.
Hann hefur lítið spilað undanfarið eitt og hálft ár og var síðast á mála hjá Galatasaray í Tyrklandi og tók þátt í fjórum deildarleikjum.
Íranska knattspyrnusambandið hefur bannað Aurier að spila með Persepolis en ástæðan er að hann er talinn vera með lifrarbólgu B.
Leikmaðurinn ætti því venjulega að vera í einangrun í einn til þrjá mánuði til að losna við sýkinguna og mátti ekki taka þátt í leik gegn Fajr Sepasi á dögunum.
Íranska sambandið gaf frá sér tilkynningu varðandi Aurier og greindi frá því að hann mætti ekki æfa með sínu félagsliði og ekki láta sjá sig á æfingasvæðinu.
Hann hefur hins vegar svarað fyrir sig í Snapchat færslu og vill meina að ‘allt sé í lagi og að það sé ekkert til að greina frá.’
Aurier birti myndband af sér æfa á æfingasvæði Persepolis ásamt liðsfélaga sínum og er útlit fyrir það að hann sé þar að brjóta reglur sambandsins.