„Leikurinn leggst mjög vel í mig. Við erum búinir að nota síðustu daga í að skoða þá vel og hvað við viljum gera. Ég held við séum eins vel undirbúnir og við getum verið,“ segir Halldór Árnason, þjálfari karlaliðs Breiðabliks fyrir leik liðsins gegn Virtus í Sambandsdeildinni á morgun.
Liðin mætast í umspili um sæti í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar í vetur og fer fyrri leikurinn fram á Kópavogsvelli annað kvöld. Blikar eru taldir mun sigurstranglegri en Virtus, sem er frá San Marínó. Það er þó ýmsilegt sem þarf að varast í þeirra liði.
„Þetta er gríðarlega reynslumikið, mjög fullorðið og með leikmenn sem hafa átt ljómandi fínan feril á Ítalíu en eru komnir á seinni hluta ferilsins. Þeir eru kannski þarna nákvæmlega út af þessu, af því neðri hlutinn í ítölsku A-deildinni eða Serie B býður ekki upp á Evrópukeppni. Þarna sjá menn möguleika á að fara langt í Evrópu. Það er mikið hungur og drive í þeim að ná alla leið. Eins og með íslensku liðin fyrir nokkrum árum sjá þeir möguleika með tilkomu Sambandsdeildarinnar á að skrifa söguna,“ segir Halldór.
„Úrslit síðustu leikja segja þér ekki neitt annað en það að þetta er bara gott fótboltalið. Þeir unnu meistaralið frá Moldóvu – og við höfum séð hvað meistaraliðið í Moldóvu síðustu ár, Sheriff, hefur gert. Það er bara levelið. Við þurfum að bera virðingu fyrir þeim en að sama skapi erum við með betra lið, með reynslumeira lið á þessu sviði.“
Ítarlegt viðtal við Halldór er í spilaranum.