Thomas Partey virðist vera að snúa aftur til Spánar og ganga í raðir Villarreal.
Samningur miðjumannsins við Arsenal rann út í sumar og má hann því semja við annað félag. Útlit er fyrir að það félag verið Villarreal. Ganverjinn þekkir vel til spænska boltans, en Skytturnar keyptu hann frá Atletico Madrid fyrir fimm árum síðan.
Hinn 32 ára gamli Partey þarf að mæta fyrir rétt á morgun en hann á yfir höfði sér ákærur fyrir fimm nauðganir og eitt kynferðisbrot. Greint var frá því fyrir mánuði síðan að hann yrði ákærður, en langt er síðan hann var kærður fyrir brot sín, sem eiga að hafa átt sér stað frá 2021 og 2022.
Partey fær eins árs samning hjá Villarreal ef marka má fréttir og veltur á niðurstöðu dómsmálsins hvort sá samningur verði framlengdur.
Villarreal hafnaði í fimmta sæti La Liga á síðustu leiktíð og verður því í Meistaradeild Evrópu á þeirri næstu.