Móðir systranna, Virginia Gonzales, var handtekin í kjölfarið og á yfir höfði sér ákæru fyrir alvarlegt ofbeldi gagnvart barni.
Í tilkynningu frá lögreglunni segir að ættingjar og vinir hafi síðast séð Ava í desember 2017 þegar hún var tveggja ára. Lögreglan birti tölvugerð mynd, sem sýnir hvernig Ava gæti litið út í dag, með tilkynningu sinni.
Á fréttamannafundi sagði talsmaður lögreglunnar að það hafi verið þriðjudaginn 3. apríl sem 7 ára barn fannst lokað inn í skáp og hafði það verið svelt. Barnið var strax flutt á sjúkrahús og mun það ná sér að fullu að mati lækna. Hann sagði að sex önnur börn hafi verið á heimilinu og hafi þau virst í góðu líkamlegu ástandi.
Hann sagði einnig að lögreglan hafi miklar áhyggjur af velferð Ava, sérstaklega í ljósi hvernig aðstæður systur hennar voru þegar hún fannst í skápnum.
Hann sagði að upplýsingar liggi fyrir um að Virginia eigi stúlkuna en ekki sé vitað hvar hún sé núna og að Virginia hafi komið með margvíslegar skýringar á hvar Ava er þegar ættingjar hennar hafi spurt hana út í það.
Ekki er vitað til þess að neitt af börnunum hafi verið skráð í skóla.
Það var amma stúlkunnar sem fann hana í skápnum og tilkynnti lögreglunni um málið. Hún hafði farið heim til Virginia eftir að hún var handtekin fyrir vörslu marijúana að sögn People.
Stúlkan er talin hafa verið lokuð inni í skápnum í mánuð og hafi aðeins fengið smávegis að borða á morgnana og hálfan bolla af vatni á dag. Hún vó aðeins 15 kíló þegar komið var með hana á sjúkrahúsið.