Ástæðan fyrir þessum boðskap hans er hækkandi verðlag innanlands og tómar búðarhillur sem gæti orðið afleiðingin af tollastríði Trump við Kína. „Börnin verða kannski að láta sér tvær dúkkur duga í stað þrjátíu,“ sagði Trump nýlega.
Tollastríð Trump veldur mikilli óvissu í mörgum geirum í Bandaríkjunum, þar á meðal í leikfangageiranum sem segir að jólin geti verið í hættu.
Kínverskar verksmiðjur framleiða 75-80% af þeim leikföngum sem eru seld í Bandaríkjunum. Þetta kemur fram í tölum frá bandaríska viðskiptaráðuneytinu og hagsmunasamtökunum Toy Association. Þetta þýðir að þessi geiri er meðal þeirra sem eru háðastir Kína þegar kemur að framleiðslu. Það er því ekki að ástæðulausu að hagsmunasamtökin Toy Association vari við því að jólin geti verið í hættu fyrir barnafjölskyldur landsins.
En Trump segir þetta nauðsynlega fórn fyrir enn stærri málstað. Margir hafa gagnrýnt þennan boðskap hans og meira að segja fólk úr röðum bandarískra íhaldsmanna hefur gagnrýnt hann.
Nokkrum dögum, eftir að Trump lét þessi orð falla, sýndi NBC News langt viðtal við hann þar sem þetta bar meðal annars á góma.
„Mér finnst ekki að börn, falleg 11 ára stúlka, hafi þörf fyrir að eiga 30 dúkkur. Ég tel að þau geti látið sé þrjár eða fjórar dúkkur nægja,“ sagði hann.
Spyrillinn spurði hann þá hvort hann væri að viðurkenna að stefna hans gæti valdið því að búðarhillur verði tómar í Bandaríkjunum. „Nei, nei, ég er ekki að segja það. Ég segi bara að þau þurfa ekki að eiga 30 dúkkur. Þau geta látið þrjár nægja. Þau þurfa ekki að eiga 250 blýanta. Fimm eru nóg,“ svaraði Trump.
Ummælin fóru ekki vel í alla og í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum var bent á tvískinnung Trump og gamlar myndir og upptökur af börnum hans birtar en á þeim sést að þau virðist ekki hafa skort neitt.
Bernie Sanders, sem er vinstri sinnaður öldungadeildarþingmaður, sagði að ummæli Trump sýni að hann sé haldinn forréttindablindu. Í samtali við CNN sagði hann að milljarðamæringar eins og Trump og Elon Musk hafi ekki minnstu hugmynd um hvað það þýði fyrir barnafjölskyldu að reyna að kaupa gjafir fyrir börnin eða hafa ráð á helstu nauðsynjum. „Þetta er ótrúlegur hroki og þekkingarleysi hjá þessum mönnum,“ sagði hann.