
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, var ánægður með leikinn gegn Noregi sem var að ljúka í Þjóðadeildinni en hefði auðvitað vilja stela sigrinum.
Leiknum lauk með markalausu jafntefli en frammistaða Íslands var góð gegn sterku liði og hefðum við vel getað unnið þennan leik.
„Mér fannst við gera fullt af hlutum til að geta skorað, við sköpuðum okkur góð færi, það var kraftur í okkur og hugrekki í að keyra á þær. Þetta var fínn leikur heilt yfir,“ sagði Þorsteinn við RÚV eftir leik.
Þorsteinn var svo spurður að því hvort skortur á markaskorun væri vandamál, en það hefur verið til umræðu fyrr í keppninni.
„Mér finnst þú bara vera að búa til einhverjar áhyggjur úr þessu. Maður á möguleika á að skora ef maður skapar færi. Stundum gengur það ekki upp en mér fannst við búa til færi til að skora.“
Ísland er nú með 2 stig í riðlinum og mætir Sviss í mikilvægum leik á þriðjudag.
„Ef við ætlum að ná markmiðum okkar er það leikur sem við þurfum að vinna,“ sagði Þorsteinn.