
Það er komið að liðunum sem við spáum 5. og 6. sæti, en við teljum að Vesturbæjarstórveldið, KR, verði í sjötta sæti og komist þar með upp í efri hlutann, sem því tókst ekki í fyrra þegar það hafnaði í 8. sæti. Liðið er á leið inn í sitt fyrsta heila tímabil með Óskar Hrafn Þorvaldsson við stjórnvölinn.

Hrafnkell Freyr Ágústsson, sérfræðingur um Bestu deildina, hefur þetta að segja um KR:
6. KR – Ég mun stilla inn á alla leiki KR í sumar. Ég er gríðarlega spenntur fyrir hvernig þeir munu spila. Þeir munu skemmta áhorfendum og taka mikla sénsa. Þeir eru með marga stráka sem hafa lítið spilað í efstu deild en eru spennandi, samanber Halldór í markinu, Júlíus, Gabríel Hrannar og fleiri til. Menn eins og Atli Sigurjóns og Aron Sigurðarson munu svo þurfa að leiða þetta áfram með sinni reynslu.
Lykilmaðurinn: Aron Sigurðarson – Þetta er auðvelt.
Þarf að stíga upp: Jóhannes Kristinn Bjarnason – Hann var allt í lagi í fyrra, óx þegar Óskar tók við og ég held hann þurfi að stíga enn frekar upp til að KR geti verið í einhverri Evrópubaráttu. Hann er hrikalega öflugur leikmaður sem þarf nú að taka næsta skref.

Við spáum því að ÍA hafni í fimmta sæti, hoppi því upp um eitt sæti frá því í fyrra, þar sem liðið ógnaði Evrópusætunum undir lok tímabils.
Þetta hefur Hrafnkell að segja um ÍA:
5. ÍA – Skagamenn eru að mínu mati með eitt flottasta verkefni landsins, vegna þess sem þeir eru að gera með unga leikmenn og þess háttar. Það virðist vera mikil pæling á bak við allt sem þeir eru að gera, sem er vel. Peningarnir fyrir Hákon Arnar hafa til að mynda verið nýttir mjög vel og ekki settir bara í eitthvað rugl, eins og þetta var kannski á árum áður. Leikkerfið sem þeir spila hentar mjög vel, þessi þriggja manna lína varnarlína, og þeir eru mjög góðir í því. Skaginn á að mínu mati heima í efri hluta deildarinnar og það er gaman að sjá þá þar aftur.
Lykilmaðurinn: Erik Tobias Sandberg – Hann var hrikalega öflugur í fyrra og er aðalmaðurinn í þessari þriggja manna vörn.
Þarf að stíga upp: Rúnar Már Sigurjónsson – Þetta var leiðinlegt tímabil fyrir hann í fyrra, var mikið meiddur og náði aldrei takti. Hann þarf að vera upp á sitt besta frá fyrsta leik í sumar. Hann þarf svolítið að taka við kefli Arnórs Smárasonar líka sem leiðtoginn í hópnum. Það er mikið af ungum drengjum sem hann þarf að hjálpa og leiða áfram.
