
Það er komið að þriðja sætinu og þar spáum við því að Valur standi í stað frá því í fyrra. Mikið gekk á að Hlíðarenda í vetur og bar þar hæst að Gylfi Þór Sigurðsson, besti leikmaður liðsins, fór í Víking. Fólk virðist setja minni pressu á Val í ár en ella og spurning hvort það hjálpi liðinu.

Hrafnkell Freyr Ágústson, séfrfræðingur um Bestu deildina, hefur eftirfarandi að segja um Val:
3. sæti: Valur – Mér finnst eins og það sé hugsun á bak við hverja þeir eru að fá. Birkir Heimis er kominn aftur, Birgir Jakob, þeir fengu hafsent á fínum aldri í Markus Nakkim. Þeir eru að reyna að finna betra jafnvægi á hópnum sínum hvað aldurinn varðar. Það eru leikmenn eins og Orri Hrafn og Jakob Franz sem virðast vera í stærri hlutverkum en í fyrra. Ég er líka spenntur að sjá hvernig þeir mæta til leiks eftir að hafa misst sinn besta mann nokkuð skömmu fyrir mót. Ef menn þjappa sig ekki saman og mæta trítilóðir, sérstaklega í leikinn gegn Víkingi, þá eiga þeir ekki að vera í keppnisíþróttum.
Lykilmaðurinn: Patrick Pedersen – Ég reyndi að láta mér detta eitthvað sniðugra í hug en það er bara hann.
Þarf að stíga upp: Ögmundur Kristinsson – Hann var ekki góður eftir að hann kom inn í fyrra. Hann þarf að sýna sig og sanna aftur á Íslandi. Hann er ekkert eldgamall í markmannsárum.
