

Gylfi Þór Sigurðsson leikmaður Víkings var í áhugaverðu spjalli við Þorkel Gunnar Sigurbjörnsson á RÚV í gær.
Gylfi er að gera sig kláran fyrir sitt fyrsta tímabil með Víkingi en í viðtalinu við Þorkel fer hann um víðan völl.
Eitt af því sem hann ræðir er hvað hann gerði frá 2021 til 2023 þegar hann hvorki æfði né spilaði fótbolta.
„Ég var búinn að hafa áhuga á að læra spænsku í langan tíma og ætlaði alltaf að fara að gera þetta. Ég hafði ekki mikið að gera nema að vera með fjölskyldunni og dóttur minni þannig að ég ákvað að byrja bara að læra spænsku,“ segir Gylfi við Rúv.
„Ég skil töluvert, það er aðeins erfitt að púsla þátíðinni saman þegar maður byrjar að tala en ég svona get reddað mér nokkuð mikið á spænsku.“
En það var ekki bara tungumálið sem Gylfi náði tökum á heldur einnig vefsíðugerð.
„Já, konan fór af stað með netverslun og vantaði einhvern til að græja heimasíðu fyrir barnavöruverslun sem hún er með núna í dag. Ég hafði svolítið mikinn tíma og fór á fullt í það fyrir hana. Þetta er forrit sem heitir Shopify og heldur utan um heimasíðurnar og allt það þannig að þetta var ekkert svo flókið en ég þurfti að kynna mér hitt og þetta,“ segir Gylfi við RÚV.