Ange Postecoglou hefur gengið afleitlega í starfi sem stjóra Nottingham Forest en er enn fullur sjálfstrausts.
Ástralanum hefur ekki tekist að vinna leik með Forest í sjö tilraunum frá því hann tók við og á morgun mætir liðið Chelsea.
Miklar vangaveltur hafa verið um hans framtíð og margir stuðnignsmenn Forest vilja hann burt nú þegar.
„Ef þú gefur mér tíma þá endar sagan alltaf eins, með því að ég lyfti bikar,“ sagði Postecoglou hins vegar kokhraustur á blaðamannafundi í dag.
Postecoglou er þekktur fyrir að vinna titla á sínu öðru tímabili með lið. Það var tilfellið með Tottenham í vor, er hann vann Evrópudeildina.
Var hann rekinn frá Lundúnaliðinu þrátt fyrir það, en þar á bæ gátu menn ekki horft framhjá því að hann hafnaði í 17. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.