

Sigurvin Ólafsson, þjálfari Þróttar, var gestur í nýjasta þættinum Seinni Níu, hlaðvarpi sem fjallar um golf. Sigurvin er ekki mikill kylfingur en hafði frá miklu að segja.
Eitt af því sem Sigurvin ræddi um var það hvað það væri leiðinlegt að hlusta á sögur um golf, hann rifjaði upp einstaklinga sem fara í gegnum hvert einasta högg eftir hring hjá sér.
Eftir þá umræðu minntist Sigurvin á fyrrum þjálfara sinn, Ásgeir Elíasson sem lést árið 2007. Ásgeir var frábær þjálfari og stýrði meðal annars A-landsliði karla í fjögur ár.
Ásgeir elskaði líka að vera í golfi. „Ég lenti í þessu með Ásgeir El heitinn, hann var að þjálfa mig í Fram. Hann var einn af fyrstu mönnunum sem fékk djúpa bakteríu,“ sagði Sigurvin í þættinum Seinni Níu.
Ásgeir var lipur knattspyrnumaður og var oftar en ekki með á æfingum. „Hann var stundum með á æfingu, fór svo bara með okkur inn í klefa og í sturtu. Þar var hann oft á tillanum að fara yfir allar holurnar í Mosfellsbæ,“ sagði Sigurvin.
Sigurvin var ekki byrjaður að spila golf þá en man vel eftir sögum frá Ásgeir. „Ég var ekki byrjaður að spila neitt, ég vissi ekki neitt. Hann setti ekkert á sig handklæði, hann var bara á tillanum að sýna mér sveifluna. Talandi um að hafa lent í hólnum á 15. holu,“ sagði þjálfari Þróttar.