Það verður mikill viðbúnaður í Svíþjóð í kvöld er Malmö og FC Kaupmannahöfn mætast í undankeppni Meistaradeildarinnar.
Mikill rígur er á milli liðanna, en aðeins Eyrarsundið skilur Malmö og Kaupmannahöfn að. Leikurinn í kvöld er sá fyrri af tveimur í 3. umferð undankeppninnar og byrja Svíarnir á heimavelli.
Sem fyrr segir verður viðbúnaður mikill, aukin öryggisgæsla og notast verður við dróna. Þá mun Kaupmannahafnarlögreglan verða lögreglunni í Malmö innan handar og hafa fulltrúar verið sendir yfir Eyrarsundsbrúnna.
Malmö og FCK eru bæði landsmeistarar. Þess má geta að Arnór Sigurðsson og Daníel Tristan Guðjohnsen eru á mála hjá fyrrnefnda liðinu og Rúnar Alex Rúnarsson hjá því síðarnefnda.
Leikurinn hefst klukkan 17 í dag að íslenskum tíma. FCK er talið ívið sigurstranglegri aðilinn í einvíginu fyrirfram en búast má við hörkuleikjum.