„Ekki hefur sá dagur liðið síðan ég mætti á mína síðustu æfingu sem knattspyrnuþjálfari 4.september þar sem ég sakna ekki leikmannanna sem ég þjálfaði auk frábærra samstarfsfélaga í þjálfuninni. Ég hafði og hef ennþá brjálaðan metnað fyrir mínu starfi og að hjálpa leikmönnum að bæta sig bæði sem leikmenn og manneskjur skipti mig öllu, ótrúlegt en satt þá verða ekki allir atvinnufótboltamenn sem æfa í 5.flokki. Eftir stuttan tíma í burtu frá leiknum er auðvelt að sjá hvað það var sem heldur manni gangandi í þessu starfi, að fá að taka þátt í uppvexti ungs fólks er gulls ígildi sú tvíeggja virðing sem leikmaður og þjálfari eiga í íþróttum er samband sem erfitt er að koma orðum yfir. Á sama tíma og ég segi allt þetta er líka auðvelt að sjá hvar mætti betur fara. Við erum að þróast í ranga átt að mínu mati þar sem foreldrar og forráðamenn eru orðin full fyrirferðamikil. En það þarf ekki að vera neikvætt ef rétt er með farið,“ skrifar Gunnar til að mynda í pistli sínum.
„Ég geng nánast svo langt í að segja að þjálfarastörf eru sjálfboðaliðastörf, úr þessu gengur enginn vellauðugur ef miðað er við fórnarkostnað, vinnu utan æfingatíma og allt utanumhald sem þó er mismikið eftir aldri iðkenda og félögum í landinu. Þau teljast líklega í skrilljónum símtölin, póstarnir, skilaboðin og samtölin sem maður hefur átt við foreldra og aðstandendur á þessum ferli og í langflestum tilvikum hafa þau verið af jákvæðum toga, samtalið er mikilvægt því þjálfarinn er partur af stóru mengi aðila sem taka þátt í að móta barnið. Ég hef hins vegar líka átt fjöldann allan af neikvæðum, erfiðum og leiðinlegum samtölum, mér finnst leiðinlegra að fókusa á þau. En það sem hryggir mann mest er þegar börn fá ekki að vera börn.“
Gunnar tók svo dæmi um skilaboð frá foreldrum:
„Ég er svolítið hissa að hann sé í þessu liði, er möguleiki að hann fái að fara aðeins ofar?“
„Mér finnst nú eins og hann sé alltaf í lélegasta hópnum á æfingum mætti hann fara í annan hóp?“
„Ef hann fær ekki að fara í þetta lið þá mætum við ekki á þetta mót/í þennan leik“
Tilkoma samfélagsmiðla hafi þá haft mikil áhrif:
„Frábært mót hjá mínum strák, liðið hans vann alla leikina og hann skoraði 48 mörk“
„Úrslitaleikur framundan hjá þessum“
„Ekki amalegt, minn maður skoraði 7 mörk í sama leiknum í dag“
„Hver eru skilaboðin sem við erum að senda? Eru þetta kröfur barnsins eða er þetta mögulega sært stolt foreldranna? Erum við að setja of mikla pressu á að það sé ekkert til sem heitir að hafa gaman af hlutunum heldur mælist allt í mörkum skoruðum, leikjum unnum og bikurum lyft?“
Gunnar segir mikla viðveru og þátttöku fullorðinna fjölskyldumeðlima á hliðarlínunni geta haft öfug áhrif.
„Að fara á mót í dag er ekki það sama og það var þegar þjálfari og 1-2 liðstjórar fylgdu liðum. Í dag er endalaust af fólki(mamma og pabbi, amma og afi, frænkur og frændur) og þau eru ekki bara að horfa, heldur í mörgum tilvikum öskra inn á völlinn og ekki alltaf bara hvatning ,,Hey vert þú þarna, vert þú herna, gefðu á þennan!!”… Eina sem þetta gerir er að draga úr upplifun barnsins og búa til aukinn streituvald í umhverfinu. Hræðslan við mistök verður oft meiri en kjarkurinn til að gera einhverja snilld þegar svona ber undir.“
Pistill Gunnars í heild
Hugleiðingar þjálfara og íþróttaáhugamanns – Á þetta ekki að vera gaman?
Eftir frábær 14 ár sem knattspyrnuþjálfari ákvað ég í haust að láta staðar numið og sjá lífið með aðeins öðrum augum en ég hafði gert þar sem fótboltinn hefur svona mestmegnis stýrt lífi mínu á einn eða annan hátt frá því ég man eftir mér. Ég verð seint talinn góður fótboltamaður en ég reyndi mitt besta, úr honum og íþróttunum almennt tek ég ótrúlega margt, mikinn aga, kunna að vinna í hóp, mína bestu vini í dag og frábæran félagsskap, góða hreyfingu og mikið forvarnarstarf svo eitthvað sé nefnt.
Ekki hefur sá dagur liðið síðan ég mætti á mína síðustu æfingu sem knattspyrnuþjálfari 4.september þar sem ég sakna ekki leikmannanna sem ég þjálfaði auk frábærra samstarfsfélaga í þjálfuninni. Ég hafði og hef ennþá brjálaðan metnað fyrir mínu starfi og að hjálpa leikmönnum að bæta sig bæði sem leikmenn og manneskjur skipti mig öllu, ótrúlegt en satt þá verða ekki allir atvinnufótboltamenn sem æfa í 5.flokki. Eftir stuttan tíma í burtu frá leiknum er auðvelt að sjá hvað það var sem heldur manni gangandi í þessu starfi, að fá að taka þátt í uppvexti ungs fólks er gulls ígildi sú tvíeggja virðing sem leikmaður og þjálfari eiga í íþróttum er samband sem erfitt er að koma orðum yfir. Á sama tíma og ég segi allt þetta er líka auðvelt að sjá hvar mætti betur fara. Við erum að þróast í ranga átt að mínu mati þar sem foreldrar og forráðamenn eru orðin full fyrirferðamikil. En það þarf ekki að vera neikvætt ef rétt er með farið.
Ég geng nánast svo langt í að segja að þjálfarastörf eru sjálfboðaliðastörf, úr þessu gengur enginn vellauðugur ef miðað er við fórnarkostnað, vinnu utan æfingatíma og allt utanumhald sem þó er mismikið eftir aldri iðkenda og félögum í landinu. Þau teljast líklega í skrilljónum símtölin, póstarnir, skilaboðin og samtölin sem maður hefur átt við foreldra og aðstandendur á þessum ferli og í langflestum tilvikum hafa þau verið af jákvæðum toga, samtalið er mikilvægt því þjálfarinn er partur af stóru mengi aðila sem taka þátt í að móta barnið. Ég hef hins vegar líka átt fjöldann allan af neikvæðum, erfiðum og leiðinlegum samtölum, mér finnst leiðinlegra að fókusa á þau. En það sem hryggir mann mest er þegar börn fá ekki að vera börn.
Fyrstu árin í þjálfuninni rekur maður sig á ýmis mistök. Alveg eins og í lífinu sjálfu. Ég held að ég hafi verið of hvass, ætlast til of mikils, sett upp of erfiðar og flóknar æfingar, hækkað róminn of oft, verið alltof árangursmiðaður og verið fúll á móti þegar einhver gerði athugasemdir við mig og mín störf. Af hverju gat ég ekki bara mætt með bros á vör, búið til öruggt umhverfi fyrir börn af mismunandi getustigum í fótbolta og leyft þeim að gera það sem þeim þykir langskemmtilegast, að spila fótbolta? Eitthvað sem mér fannst ég ná að þróast í að gera hjá Breiðabliki ásamt frábærum meðþjálfurum. Lífið og allt sem maður tekur sér fyrir hendur verður nefnilega svo miklu skemmtilegra og árangursrikara ef maður hefur gaman af því.
„Ég er svolítið hissa að hann sé í þessu liði, er möguleiki að hann fái að fara aðeins ofar?“
„Mér finnst nú eins og hann sé alltaf í lélegasta hópnum á æfingum mætti hann fara í annan hóp?“
„Ef hann fær ekki að fara í þetta lið þá mætum við ekki á þetta mót/í þennan leik“
Tilkoma samfélagsmiðla hefur svo alltaf sífellt meiri áhrif. Þar sjáum við færslur eins og:
„Frábært mót hjá mínum strák, liðið hans vann alla leikina og hann skoraði 48 mörk“
„Úrslitaleikur framundan hjá þessum“
„Ekki amalegt, minn maður skoraði 7 mörk í sama leiknum í dag“
Hver eru skilaboðin sem við erum að senda? Eru þetta kröfur barnsins eða er þetta mögulega sært stolt foreldranna? Erum við að setja of mikla pressu á að það sé ekkert til sem heitir að hafa gaman af hlutunum heldur mælist allt í mörkum skoruðum, leikjum unnum og bikurum lyft? Að fara á mót í dag er ekki það sama og það var þegar þjálfari og 1-2 liðstjórar fylgdu liðum. Í dag er endalaust af fólki(mamma og pabbi, amma og afi, frænkur og frændur) og þau eru ekki bara að horfa, heldur í mörgum tilvikum öskra inn á völlinn og ekki alltaf bara hvatning ,,Hey vert þú þarna, vert þú herna, gefðu á þennan!!”… Eina sem þetta gerir er að draga úr upplifun barnsins og búa til aukinn streituvald í umhverfinu. Hræðslan við mistök verður oft meiri en kjarkurinn til að gera einhverja snilld þegar svona ber undir.
Ég ræddi þessar hugleiðingar mínar við mann sem ég lít mikið upp til í þjálfarafræðunum og hans upplifun á þessu öllu saman og hann nefndi einnig góðan punkt til viðbótar. Hvar eru foreldrar til staðar? Þeir eru ekki í stærðfræðinni eða íslenskustofunni. En þeir mæta oft á fótbolta-, handbolta-, körfuboltaæfingar svo eitthvað sé nefnt. Þar strax erum við komin í undirmeðvitundina um að þessi íþrótt eða tómstund sé mikilvægari í okkar augum heldur en annað í lífinu. Hvaða skilaboð erum við að senda? Hef þjálfað æfingar þar sem yfir 100 manns eru mættir, það er frábært að sinna barninu sínu og fylgjast með og þetta er nýr veruleiki sem þarf að aðlaga og búa til leikreglur fyrir eins og annað.
Maður er þakklátur fyrir margt í sínu lífi, þakklátur fyrir góða heilsu sína og sinna nánustu, þakklátur fyrir yndislega fjölskyldu og vini, þakklátur fyrir góða og skemmtilegar vinnur sem mér hafa boðist og þau tækifæri sem ég hef fengið þar, sömuleiðis er ég þakklátur fyrir það samfélag sem mótaði mann sem mannskju og mömmu, pabba og systkini mín fyrir það uppeldi sem ég fékk sem ungur maður. Fólk er mismunandi og ég var gríðarlega krefjandi barn trúi ég, með mikil skapvandamál, en mamma og pabbi voru ætíð mjög sanngjörn. Til þess að taka út þá þurfti maður að leggja inn, lífið er nefnilega ekki einn stór Gleðibanki. Þau kenndu mér þann hlut sem hefur reynst mér hvað mikilvægastur og það er að sá eini sem getur haft stjórn á aðstæðunum er ég sjálfur, það að þau færu að hringja í einhverja þjálfara eða kennara seint að kvöldi til og færa mig um lið hefði aldrei komið til greina. Ef mig langaði eitthvað nógu mikið, þá mátti ég gjöra svo vel og vinna fyrir því, eitthvað sem ég hef tileinkað mér í öllu sem ég tek mér fyrir hendur.
Þetta þýðir ekki að mín skoðun sé sú að aftengja foreldra og forráðamenn frá hópunum heldur setjum traustið okkar á ungdóminn, ég á enn eftir að hitta þjálfara sem setur sér það einskæra markmið að leggja stein í götu iðkenda síns, hins vegar hef ég heyrt margoft af neikvæðum upplifunum þjálfara eftir samskipti við foreldra iðkenda sinna. Yngri flokka þjálfun á Íslandi er í algjörum heimsklassa þar sem menntaðir þjálfarar sinna fámennum hópi barna í rúmlega klukkutíma 2-5 sinnum í viku og utanumhaldið sömuleiðis eins og best verður á kosið. Krakkar í dag eru fáránlega klárir, og verða bara klárari, það eiginlega kemur mér alltaf á óvart hversu klár þau eru, leyfum þeim að rekast á veggi og díla við það, leyfum þeim að upplifa mótlæti, og gleðina við að leysa úr því, leyfum þeim að vera börn með öllu því sem því fylgir. Í enda dagsins snýst þetta blessaða líf jú bara um eitt.
Hafa gaman.