Ryan Gravenberch er að komast í gang með Liverpool eftir skiptin frá Bayern Munchen í sumar. Hann segir að stjórinn Jurgen Klopp hafi verið meginástæða þess að hann fór til enska félagsins.
Hollenski miðjumaðurinn hafði verið í aðeins eitt ár hjá Bayern en vildi fara í leit að meiri spiltíma. Liverpool varð fyrir valinu.
„Klopp var algjör lykilþáttur í að ég færi til Liverpool. Ég talaði við hann og fékk mjög góða tilfinningu fyrir þessu. Hann sagðist vilja fá mig til liðsins,“ segir Gravenberch.
„Hann sýndi mér hverjar áætlanirnar voru og útskýrði allt fyrir mér. Þá vissi ég að þetta væri rétt skref.“