Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, sagði í samtali við DV fyrr í dag að sambandið hefði fengið ábendingu um að búið væri að kæra landsliðsmann í knattspyrnu fyrir kynferðisbrot.
Meira
Starfsfólki KSÍ tilkynnt í dag um meint kynferðisbrot Alberts
Samkvæmt heimildum DV er um að ræða Albert Guðmundsson, knattspyrnumann hjá Genoa. Kona hér á landi hefur lagt fram kæru til lögreglu vegna meints brots Alberts á Íslandi í sumar.
„Ég get staðfest að það kom ábending á okkar borð um kæru vegna kynferðisbrots landsliðsmanns,“ sagði Vanda í samtali við DV í dag en vildi ekki greina frá nafni leikmannsins.
Samkvæmt ítölskum miðlum ræddu stjórnendur Genoa við Albert í dag þar sem hann neitaði alfarið öllum ásökunum.
Samkvæmt reglum KSÍ má ekki velja leikmann í landsliðsverkefni á meðan mál sem þetta er á borði lögreglu.
Albert snéri aftur í íslenska landsliðið í sumar þegar Age Hareide tók við þjálfun liðsins en Albert hafði ekki verið í hópnum í heilt ár.
Albert er 26 ára gamall en hann var í byrjunarliði Genoa í leik í efstu deild á Ítalíu um liðna helgi. Albert hefur á ferli sínum leikið í Hollandi og nú á Ítalíu í átján mánuði.