Tómas Þór Þórðarson fréttamaður og stjórnandi útvarpsþáttarins Fótbolti.net á X977 gefur lítið fyrir Brynjólf Andersen Willumsson framherja Breiðabliks. Mikið er látið með Brynjólf í aðdraganda Pepsi Max-deildarinnar. Margir spá því að Brynjólfur muni slá í gegn.
Tómas Þór er efins um að Brynjólfur hafi það sem til þarf og skilur ekki hvers vegna svona margir tala hann upp.
„Hann var það ömurlegur í þessum Breiðablik – Valur leik að ég hef aldrei séð annað eins, það er verið að treysta honum fyrir tíunni í þessu liði og hann gat minna en ekki neitt,“ sagði Tómas Þór í útvarpsþættinum Fótbolta.net á X-inu 977 í gær.
Brynjólfur lét hafa það eftir sér um daginn að hann væri ekki einhver dýfukóngur eins og margir væru að ræða. „Svo fór ég á Valur – Breiðablik og hann stóð ekki í fæturnar, hann var að bíta gervigras allan leikinn.“
„Hann gat ekki neitt, hann var pirraður og fékk heimskulegt gult spjald fyrir að sparka boltanum í burtu í æfingaleik. Er þessi gæi ekki á topp tíu yfir mest keyptu leikmennina í Draumaliðsdeildinni? Byggt á hverju er það? Það er rosalega leiðinlegt að tala niður unga leikmenn, en ég skil ekki hæpið.“