Bjarni Þór Viðarsson er í léttu og skemmtilegu spjalli við Jóhann Skúla í Draumaliðinu, þar velur hann sína bestu samherja af ferlinum.
Bjarni Þór átti farsælan feril i atvinnumennsku en kom heim 2015 og gekk í raðir FH, Bjarni var mikið meiddur og lagði skóna á hilluna árið 2018, þá þrítugur.
Bjarni valdi sína bestu samherja og í liðið komst frændi hans, Jón Ragnar Jónsson sem átti farsælan feril hjá FH. „Þarna ætla ég að velja mann sem er tengdur mér fjölskylduböndum, kannski ekki með mestu hæfileikana. En hann sýnir hversu langt þú getur náð með því að leggja allt sem þú átt í hlutina. Jón Ragnar Jónsson,“ sagði Bjarni Þór Viðarsson.
Jón var ekki hæfileikaríkasti knattspyrnumaðurinn í bransanum en var duglegri en flestir og náði að vinna sér sæti í liði FH. Jón hafði verið í Þrótti um nokkuð langt en snéri til baka í FH og varð lykilmaður hjá uppeldisfélaginu.
„Ég var með yngri flokknum, hann var ágætis leikmaður. Eftir að hann kom í FH og bætti sig mikið, lagði hjartað sitt í þetta. Var orðinn virkilega flottur leikmaður í lokinn, hann var vanmetinn. Það var gott að spila með honum.“
„Hann gat hlaupið mikið, ég ætla að velja Jón frænda minn. Þetta eru kennslubókardæmi um að gefast ekki upp. Jón er líka með frábærar fyrirgjafir.“