

Newcastle tók á móti Manchester United í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi en leiknum lauk með 1-0 sigri heimamanna.
Það var Matt Ritchie sem skoraði eina mark leiksins á 65. mínútu en um leið og Newcastle skoraði var Paul Pogba skipt af velli.
Það náðist mynd af Pogba á bekknum þar sem hann virkaði afar pirraður en Manchester Evening News greinir frá því að Pogba hafi verið veikur.
Honum leið ekki vel fyrir leik og var í raun óljóst hvort hann gæti spilað leikinn en Jose Mourinho ákvað að taka áhættu með hann.
Pogba fór svo af velli þar sem að hann fann fyrir svima og leið illa en hann átti vægast sagt slæman dag á miðsvæðinu.
Mourinho hefur hins vegar verið duglegur að kippa honum af velli að undanförnu og spilaði hann síðast heilan leik þann 20. janúar síðastliðinn í 1-0 sigri United á Burnley.