Fréttir

Framsóknarmenn skamma Sveinbjörgu – Sema: „Hörð samkeppni um rasistaatkvæðin í borginni

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Miðvikudaginn 2. ágúst 2017 17:40

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir borgarfulltrúi Framsóknarflokksins hefur birt stutta yfirlýsingu á Facebook vegna ummæla Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur borgarfulltrúa í sama flokki á Útvarpi Sögu og kveðst ósammála henni. Í viðtali við Arnþrúði Karlsdóttur talaði Sveinbjörg um sokkinn kostnað vegna flóttabarna. Þá greindi hún frá því að sú hugmynd hefði komið upp að stofna sér skóla fyrir börn flóttafólks. Hafa þessi tvö ummæli Sveinbjargar vakið töluverða athygli og mörg dæmi um að hún sé með þessu að sína andúð í garð flóttafólks og hælisleitenda. Sveinn Hjörtur Guðfinnsson formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur hefur einnig rekið hornin í Sveinbjörgu og gagnrýndi málflutning Sveinbjargar í pistli. Við þau skrif líkaði m.a. Guðfinna og Lilja Alfreðsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins.

Umdeild ummæli falla

Í viðtalinu sagði Sveinbjörg að Reykjavíkurborg hefði á þessu kjörtímabili gert samninga um þjónustu við hælisleitendur við Útlendingastofnun. Börn hafa stundað nám í skólum á höfuðborgarsvæðinu og þá hefur þurft að útvega fólkinu húsnæði. Segir Sveinbjörg að fjöldinn sem þurfi á þjónustu að halda aukist ár frá ári. Sveinbjörg sagði:

„Við erum með skólastefnu hvort sem okkur finnst hún góð eða slæm, við getum rætt það í öðrum þætti, sem er skóli án aðgreiningar. Niðurstaða bæði þeirra sem vinna í skólasamfélaginu, þeir sem vinna hjá hinu opinbera og foreldrar sem fylgjast með telja að það fylgi ekki nægt fjármagn til þess að hægt sé að vinna þá stefnu, skóla án aðgreiningar, 100 prósent.“

Hélt Sveinbjörg fram að öðru máli gegndi um hælisleitendur. Þar væri allt borgað upp í topp á meðan tékkinn frá ríkinu vegna þjónustu við aldraða og öryrkja væri 85 til 90% af kostnaði. Sveinbjörg hélt áfram að ræða þessi mál og umdeildustu ummæli hennar voru þessi:

„Kennarar og félagsráðgjafar sem ég hef rætt við að þeir hafa talað um hversu vandmeðfarið og hversu mikill kostnaður fylgir því að taka á móti börnum sem eru í leit að alþjóðlegri vernd og styðja þá auðvitað til að læra íslensku og komast af stað í námi. Þetta er mismunandi eftir því hvort þetta séu stelpur eða strákar, vegna þess að svo eru þau kannski farin eftir 6 mánuði, 12 mánuði, 1 ár 2 ár þegar búið er að vísa fjölskyldunum úr landi, þá er þetta að einhverju leyti sokkinn kostnaður hjá Reykjavíkurborg,“ sagði Sveinbjörg og bætti við að með þessu væri hún ekki að halda fram að hún sæi eftir þeim peningum sem fara í að kenna börnunum að lesa, reikna og skrifa. Sveinbjörg bætti svo við:

Þá er þetta að einhverju leyti sokkinn kostnaður hjá Reykjavíkurborg.

„En þegar þau eru sett inn í bekki vegna þess að við erum með stefnu skóla án aðgreiningar, að þá verður mjög mikill fókus af þessum hópi inni í bekknum sem þarf stuðning, mjög margir sem eru á einhverfurófi, eru með athyglisbrest eða þurfa sérstaka aðstoð í námi sem að fá hana kannski ekki vegna þess að fókusinn er á öðru. Þess vegna hefur þeirri hugmynd skotið upp hvort það sé eðlilegt að það sé bara sérskóli stofnaður sem taki við þessum börnum sem eru að koma með foreldrum í leit að alþjóðlegri vernd. Síðan þegar fjölskyldan er komin með dvalarleyfi á Íslandi, þá fari þau inn í skólana.“

Sema Erla Serdar brást við þessu og sagði ekkert eðlilegt við þessar hugmyndir.

„Aðskilnaðarstefna hefur aldrei talist „eðlileg“ eða í lagi. Hvað þá árið 2017,“ sagði Sema og bætti við: „Það sem þú ert að predika er mismunun. Mismunun á börnum. Mismunun vegna uppruna, þjóðernis og stöðu barna í samfélaginu. Mannréttindabrot og brot á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.“

Birgitta sagði málflutning ömurlegan

Mynd: (C) Bragi Thor Josefsson

Þingmenn og annað áhugafólk um stjórnmál hefur fjallað um framgöngu Sveinbjargar í þættinum. Hafa tveir þekktir Framsóknarmenn eins og áður segir séð sig knúna til að bregðast við. Þá hefur Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata gagnrýnt Sveinbjörgu. Birgitta segir málflutninginn ömurlegan:

„Það má gera ráð fyrir að kosningabaráttan fyrir sveitastjórnarkosningar verði mikið á þessum nótum og mikilvægt að berjast gegn þessu með því að koma með lausnir sem höfða til grunn öryggiskenndar og réttlætis hjá almenningi í stað þess að hrökkva í vörn og gefa þessum ógeðfelldu aðferðum til að ná sér í stuðning súrefni.“

Sema Erla Serdar sagði einnig:

„Það er stutt í kosningar. Það verður greinilega hörð samkeppni um rasistaatkvæðin í borginni,“ og bætti við: „Ekki batnaði þetta þegar hún sagði önnur börn með sérþarfir líða fyrir flóttabörnin því allur fókusinn væri á þeim. Botninum er vissulega náð þegar farið er að etja börnum saman og boða aðskilnaðarstefnu.“

Öll börn skulu njóta réttinda

Formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur, Sveinn Hjörtur Guðfinnsson birti pistil á Facebook um málið. Kvaðst Sveinn Hjörtur ósammála borgarfulltrúanum.

Það er alveg ljóst samkvæmt alþjóðasáttmálum sem Ísland hefur skuldbundið sig til að fara eftir og framfylgja, og samkvæmt Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna sem segir meðal annars;

„Öll börn skulu njóta réttinda Barnasáttmálans án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana, ætternis, fötlunar, félagslegrar stöðu eða annarra aðstæðna þeirra eða stöðu eða athafna foreldra þeirra,“ þá er mismunun ekki í boði. Það vekur því furðu að lagt sé til af oddvita flokksins í borginni að einangra börn með sérstökum skólahíbýlum og með þeirri umræðu sem sett var fram og að kenna aðstæðum barna vegna foreldra sinna og því sem börnin ráða engu um.“ Þá sagði Sveinn Hjörtur á öðrum stað:

Ég tel einnig mjög mikilvægt að hlúa enn frekar að öryggi barna – allra barna!

„Ég tel einnig mjög mikilvægt að hlúa enn frekar að öryggi barna – allra barna! Ég fordæmi hverskonar misskiptingu í samfélaginu og sérstaklega gagnvart börnum. Ég hvet til þess að umræðan sé með fordómalausum hætti.“

Lilja Alfreðsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins kunni að meta þessi skrif sem og Guðfinna Jóhanna borgarfulltrúi Framsóknarflokksins sem deildi þeim á sinn vegg. Skrifaði hún fyrir ofan:

Mynd: © 365 ehf / Stefán Karlsson

„Ég tek undir skoðun Sveins Hjartar, formanns Framsóknarfélags Reykjavíkur, það má aldrei mismuna börnum og við þurfum að gera svo miklu betur enda lögðum við í Framsókn og flugvallarvinum fram tillögur vegna áskorana Barnaheilla annars vegar tillögu um gjaldfrjáls námsgögn í grunnskólum Reykjavíkur frá haustinu 2017 og hins vegar tillögu um úttekt á stöðu húsnæðisaðbúnaðar hjá börnum.“

Sema Erla Serdar skrifaðist á við Guðfinnu á Facebook og kallaði eftir harðari gagnrýni. Sagði hún m.a.

„Botninum er vissulega náð þegar farið er að nota börn í viðkvæmri stöðu í pólitískum tilgangi og boðið er upp á aðskilnaðarstefnu en eins og þú sérð á veggnum þínum þá er þessi hugmynd Sveinbjargar um aðskilnaðarstefnu að slá í gegn hjá rasistum. Ef þetta er ekki önnur tilraun til þess að sækja slíkt fylgi og þetta er raunverulega ekki stefna ykkar eða skoðun þá ber ykkur að taka afstöðu og fordæma svona málflutning sem er kjörnum fulltrúa til háborinnar skammar og ykkur sem þegið. Það er bara annað hvort eða. You cant have your cake and eat it too.“

Hver er glæpurinn í þessum viðhorfum?

Sigurður Bogi Sævarsson blaðamaður á Morgunblaðinu kom Sveinbjörgu til varnar í sama þræði og sagði:

„Segir það sig ekki sjálft að þegar börn koma úr framandi menningarumhverfi, eru á allt öðrum stað en bekkjarsystkini sín og svo framvegis – að það getur verið þeim til góða að vera fyrsta kastið í sérstökum bekk eða deild. Færa sig svo yfir í almenna bekki, þegar allt er komið á beina braut – sem vonandi gerist hratt. Hver er glæpurinn í þessum viðhorfum?“

Guðfinna svaraði að lokum Semu á þessa leið: „Eins og þú vitnar til þá setti ég á vegginn hjá mér að þetta væri hvorki skoðun né stefna flokksins.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vignir Ljósálfur: „Fann ekki fyrir neinni hræðslu og var alveg tilbúinn að kveðja“

Vignir Ljósálfur: „Fann ekki fyrir neinni hræðslu og var alveg tilbúinn að kveðja“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kristjana Arnars slær í gegn á íþróttadeild RÚV: „Fannst ég ekki eiga erindi inn í þennan karlaheim“

Kristjana Arnars slær í gegn á íþróttadeild RÚV: „Fannst ég ekki eiga erindi inn í þennan karlaheim“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stíga þrjár fram og saka lögreglumann um kynferðisofbeldi: „Við erum sterkari saman“

Stíga þrjár fram og saka lögreglumann um kynferðisofbeldi: „Við erum sterkari saman“
Fyrir 2 dögum

Leiðinlegt fyrir Pólverja

Leiðinlegt fyrir Pólverja