Ray Sawyer, söngvari bandarísku hljómsveitarinnar Dr Hook & the Medicine Show, er látinn 81 árs að aldri.
Sawyer lést í gær í Daytona í Flórída, en hann hafði glímt við veikindi.
Dr Hook naut vinsælda á áttunda áratugnum, en hljómsveitin spilaði rokk- og sálartónlist og er meðal annars þekkt fyrir lögin Sylvia´s Mother (1972), When You’re in Love with a Beautiful Woman (1979), Better Love Next Time (1979) og Walk Right In (1980).
Einkenni Sawyer var kúrekahattur og leppur fyrir hægra auga, sem hann bar eftir að hafa misst augað í bílslysi árið 1967. Sawyer gekk til liðs við Dr Hook árið 1969 og sagði skilið við sveitina árið 1981. Eftir það spilaði hann mikið með sveitinni Dr Hook featuring Ray Sawyer Hann hætti í tónlistinni fyrir um þremur árum síðan.